Kraumsverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í húsakynnum Kraums við Vonarstræti nú síðdegis á fimmtudaginn. Kraumsverðlaunin eru verðlaun sem veitt eru sex flytjendum sem gefið út plötu á árinu er þykja hafa skarað fram úr, fyrr í mánuðinum var birtur úrvalslisti tuttugu platna sem valinn hafði verið af öldungaráði verðlaunanna en þessar sex plötur eru þær sem hljóta hin eiginlegu Kraumsverðlaun. Plöturnar sex eru eftirfarandi:
Anna Þorvaldsdóttir – Aerial
Aerial er önnur plata Önnu Þorvalsdóttur en hún nam tónsmíðar í Bandaríkjunum. Anna hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2012 fyrir tónverkið Dreymi, og annað tónverk hennar, Hrím, hlaut íslensku tónlistarverðlaunin sem tónverk ársins árið 2011. Bæði verkin eru á plötu hennar Rhizoma, sem kom út 2011. Anna hefur starfað með ýmsum hljómsveitum og tónlistarmönnum hér heima s.s. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput og Pornopop.
Börn – Börn
Pönksveitin Börn hefur vakið nokkra athygli á árinu fyrir sjö laga plötuna Börn en sveitin var stofnuð upp úr Tentacles of doom og Norn. Sveitin er skipuð kvenfólki að þremur fjórðu og fór mikinn á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves nú í haust.
Hekla Magnúsdóttir – Hekla
Hekla er fyrsta plata Heklu Guðmundsdóttur en á henni er að finna frumsamin lög leikin á þeramín en Hekla er líklega einn af sárafáum þeramínleikurum landsins. Hún hefur m.a. spilað á þeramín með hljómsveitinni Bárujárn og vakið þar verðskuldaða athygli.
Kippi Kanínus – Temperaments
Temperaments er plata Kippa Kanínus (Guðmundar Vignis Karlssonar) á Kraumslistanum en hann hefur gefið út nokkrar plötur við góðar undirtektir hér heima og erlendis. Hann hefur að mestu starfað einn hingað til en nú orðið hefur hann hljómsveit með sér og þannig birtist hann á nýafstaðinni Airwaves hátíð.
Óbó – Innhverfi
Þetta er fyrsta sólóplata Óbó (Ólafs Björns Ólafssonar tónskálds) en hann hefur komið víða við í tónlistinni, starfað með Benna Hemm Hemm, Jóhanni Jóhannssyni, Njúton og mörgum fleirum, og hefur einnig verið í sveitum eins og Stórsveit Nix Noltes, Unun, Yukatan, Rúnk og Stórsveit Bödda Brútals. Hann hefur ennfremur verið viðloðandi kvikmyndatónlist og gefið út plötur tengdar þeim.
Pink street boys – Trash from the boys
Trash from the boys er fyrsta plata Pink street boys en hún kom út á stafrænu formi og á snældu sem er óvenjulegt í dag. Pink street boys er pönksveit og mun nafn hennar vera tengt við Skemmuveginn í Kópavoginum, bleika götu. Sveitin var áberandi á Iceland Airwaves í haust.
Eins og sjá má af þessari upptalningu er heldur betur fjölbreytninni fyrir að fara á verðlaunalista Kraums í ár. Kraumur mun styðja við flytjendurna og reyna að hjálpa þeim að koma efni sínu á framfæri hér heima og erlendis, og er næsta víst að þeir eiga eftir að vekja athygli fyrir tónlist sína á næstu árum.