Afmælisbörn 1. ágúst 2020

María Helena og Bjartmar

Fjögur afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Fyrstan skal nefna sjálfan Steina í Dúmbó, Skagamanninn Sigurstein Harald Hákonarson söngvara en hann er sjötíu og þriggja ára gamall í dag. Sigursteinn er auðvitað þekktastur fyrir framlag sitt með Dúmbó, lög eins og Glaumbæ og Angelíu þekkja allir en einnig var Sigursteinn í Sönghópnum Sólarmegin sem starfaði á Akranesi á sínum tíma.

María Helena Haraldsdóttir söngkona er einnig eitt afmælisbarna dagsins er hún er sextug í dag. María Helena er ef til ekki með þekktustu söngkonum íslenskrar tónlistarsögu en hún söng í Íslenskri kjötsúpu forðum en einnig var hún um tíma í Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar og Áhöfninni á Halastjörnunni. Hún hefur sungið ennfremur á plötum eiginmanns síns, Bjartmars Guðlaugssonar.

Margrét Eir Hjartardóttir söngkona á afmæli líka á þessum degi, hún er fjörutíu og átta ára gömul. Hún vakti fyrst athygli í Söngkeppni framhaldsskólanna sem hún sigraði 1992, í kjölfarið gekk hún til liðs við hljómsveitina Svartan pipar en var einnig áberandi í söngleikjasenunni. Margrét Eir hefur gefið út nokkrar sólóplötur, einnig í samstarfi við aðra s.s. Thin Jim, auk þess að birtast reglulega í sönglagakeppnum eins og söngvakeppni Sjónvarpsins, Landslaginu og Ljósalaginu, svo dæmi séu nefnd.

Og að síðustu er hér nefndur harmonikkuleikarinn Gísli H. Brynjólfsson (1929-2017), hann var kunnur fyrir spilamennsku sína bæði í Vestmannaeyjum þar sem hann lék með ýmsum hljómsveitum, og í Hveragerði en þar bjó hann hluta ævi sinnar. Ein plata kom út með harmonikkuleik Gísla en hún var gefin út í tilefni af áttatíu ára afmælis hans.