Afmælisbörn 1. ágúst 2019

Margrét Eir

Þrjú afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Fyrstan skal nefna sjálfan Steina í Dúmbó, Skagamanninn Sigurstein Harald Hákonarson söngvara en hann er sjötíu og tveggja ára gamall í dag. Sigursteinn er auðvitað þekktastur fyrir framlag sitt með Dúmbó, lög eins og Glaumbæ og Angelíu þekkja allir en einnig var Sigursteinn í Sönghópnum Sólarmegin sem starfaði á Akranesi á sínum tíma.

María Helena Haraldsdóttir söngkona er einnig eitt afmælisbarna dagsins er hún er fimmtíu og níu ára. María Helena er ef til ekki með þekktustu söngkonum íslenskrar tónlistarsögu en hún söng í Íslenskri kjötsúpu forðum en einnig var hún um tíma í Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar og Áhöfninni á Halastjörnunni. Hún hefur sungið ennfremur á plötum eiginmanns síns, Bjartmars Guðlaugssonar.

Margrét Eir Hjartardóttir söngkona á afmæli líka á þessum degi, hún er fjörutíu og sjö ára gömul. Hún vakti fyrst athygli í Söngkeppni framhaldsskólanna sem hún sigraði 1992, í kjölfarið gekk hún til liðs við hljómsveitina Svartan pipar en var einnig áberandi í söngleikjasenunni. Margrét Eir hefur gefið út nokkrar sólóplötur, einnig í samstarfi við aðra s.s. Thin Jim, auk þess að birtast reglulega í sönglagakeppnum eins og söngvakeppni Sjónvarpsins, Landslaginu og Ljósalaginu, svo dæmi séu nefnd.