Afmælisbörn 31. júlí 2019

Árni Daníel

Glatkistan hefur fjögur afmælisbörn á skrá sinni á þessum degi:

Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari er sjötíu og fjögurra ára í dag. Rut nam sína tónlist fyrst hér heima en síðan í Svíþjóð og Belgíu. Hún hefur starfað sem konsertmeistari m.a. með Karmmersveit Reykjavíkur en hefur einnig starfað í Sinfóníuhljómsveit Íslands, Pólýfónkórnum og með Bachsveitinni í Skálholti svo dæmi séu tekin. Rut hefur einnig haldið fjölda einleikstónleika, gefið út sólóplötur og í félagi með öðrum, auk þess að kenna við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Önnur Rut, söngkonan og kórstjórnandinn Rut (Little) Magnússon átti einnig afmæli þennan dag. Rut (1935-2010) kom upphaflega frá Englandi, giftist íslenskum tónlistarmanni (Jósef Magnússyni) og starfaði hér um árabil. Hún tók þátt í uppfærslum á ýmsum óperuverkum og öðrum þekktum verkum, stjórnaði t.a.m. Drengjakór Sjónvarpsins, Háskólakórnum, Liljukórnum og Hljómeyki svo nokkrir kórar séu nefndir, og kenndi jafnframt söng við Söngskólann og Tónlistarskólann í Reykjavík.

Eyfirðingurinn Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur er sextugur í dag sem telst auðvitað til stórafmælis en hann söng og lék á bassa, hljómborð og saxófón með ýmsum hljómsveitum á því tímabili sem kennt er við pönkið. Meðal sveita sem hann lék með eru Taugadeildin, Snillingarnir, Zwingin‘ zombies, Þetta er bara kraftaverk, Anna og grafararnir/Handan grafar og Q4U.

Og að síðustu er hér nefndur saxófónleikarinn Eyjólfur Þorleifsson sem á fjörutíu og sex ára afmæli á þessum degi. Auk þess að hafa gefið út sólóplötu og leikið á plötum fjölda annarra tónlistarmanna hefur Eyjólfur leikið með sveitum eins og Jagúar, Tríói Björns Thoroddsen, Tríói Jóns Rafnssonar og BonSom, jafnframt því að starfrækja eigin djassdbönd.