Rut L. Magnússon (1935-2010)

Rut L. Magnússon

Rut L. Magnússon

Rut L. Magnússon messósópran söngkona var einn af þeim erlendu tónlistarfrömuðum sem hafði mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf.

Rut var reyndar ekki af gyðingaættum eins og svo margir erlendir tónlistarmenn sem hingað komu, heldur var hún bresk og hét upphaflega Ruth Little. Þegar hún giftist íslenskum flautuleikara, Jósef Magnússyni, tók hún upp föðurnafn hans og kallaði sig eftir það Rut L. Magnússon, hingað flutti hún 1966 en hafði reyndar eitthvað dvalist hérlendis áður.

Rut kom að íslensku tónlistarlífi frá ýmsum hliðum, hún var söngkona í fremstu röð, hafði numið söng í London, og tók þátt í frumflutningi á ýmsum þekktum verkum hér á landi, söng hlutverk í óperum eins og Carmen og Þrymskviðu, auk Silkitrommunnar. Svo ótrúlegt sem það kann að hljóma kom aðeins út ein plata sem hafði að geyma söng með henni, það var á plötu Pólýfónkórsins frá 1977 með Messías eftir Händel.

Rut kenndi einnig söng, bæði í Söngskólanum og Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún stjórnaði ennfremur fjölda kóra á sínum starfsferli, hún stýrði meðal annars Drengjakór Sjónvarpsins, Kammerkórnum, Senjórítunum, Háskólakórnum, Liljukórnum og Hljómeyki, hún lét sig einnig varða ýmis réttinda- og félagsmál tónlistarmanna og var framarlega í samtökum um byggingu tónlistarhúss, stýrði þeim reyndar um tíma. Hún var einnig framkvæmdastjóri við þrjár Listahátíðir í Reykjavík. Rut hlaut fálkaorðuna 1992 fyrir framlag sitt til íslensks tónlistarlífs.

Rut lést snemma árs 2010.