Rut+ (1991-93)

Rut+1

Rut +

Hljómsveitin Rut+ var á sínum tíma kölluð „súpergrúppa“ í anda þess þegar sveitir á borð við Hljóma og Flowers sameinuðust í Trúbrot, munurinn var hins vegar sá að í þessu tilfelli var um neðanjarðarsveit að ræða. Nafn sveitarinnar var bein skírskotun í plötu Ruthar Reginalds, Rut+ sem kom út 1980 en sú plata var (að sögn) í miklu uppáhaldi meðlima sveitarinnar.

Rut+ var stofnuð snemma árs 1991 og í upphafi voru í sveitinni Árni Kristjánsson gítarleikari úr Vonbrigðum, Atli Jósefsson gítarleikari úr Múzzólíní, Ari Eldon bassaleikari sem kom úr Bless og Sogblettum, og Magnús Þorsteinsson trymbill úr Bleiku böstunum en allar þær sveitir höfðu verið áberandi í síðpönksenunni hérlendis, þannig að með réttu mátti kalla Rut+ súpergrúppu.

Sveitin þótti gríðarlega hávaðasöm en vantaði um leið eitthvað, en þegar Bjössi Basti (Björn Baldvinsson) fyrrum söngvari Bleiku bastanna bættist í hópinn í ágúst 1991 small hópurinn saman. Um þetta leyti lék sveitin fyrst opinberlega og var síðan nokkuð áberandi í tónleikalífi höfuðborgarinnar ásamt fleirum síðpönkssveitum og mætti jafnvel tala um vakningu í því samhengi.

Haustið 1991 hætti Árni í sveitinni og gekk í Silfurtóna, líklega kom enginn í hans stað en um vorið 1992 hafði Bogi Reynisson hins vegar bæst inn í hópinn. Þannig var sveitin næstu mánuðina eða þar til Árni gekk aftur til liðs við hana í upphafi árs 1993, þá var Björn söngvari hættur.

Miklar áherslubreytingar höfðu orðið á tónlist Rutar+ þegar hér var komið sögu, í stað hins þunga og hávaðasama pönks lagði sveitin nú áherslu á surf-tónlist eða instrumental brimbrettatónlist í anda jafnvel sveita eins og Shadows.

Rut+ ásamt Trancy Fjordegård

Rut+ lék sem aldrei fyrr á ýmsum tónleikauppákomum og hafði jafnvel með sér gestasöngvara á sviði því það þótti trekkja betur að ef söngvari væri með sveitinni. Söngkonan Trancy Fjordegård var einn þeirra gestasöngvara og hér með er það áralanga leyndarmál afhúpað að þar var á ferð Tryggvi Thayer (Bleiku bastarnir o.fl.) í gervi útjaskaðrar sænskrar Nancy Sinatra eftirhermu, líklega tróð einnig sjálfur Óttarr Proppe einhverju sinni upp með Rut+.

Hvað sem öðru líður leið Rut+ undir lok um vorið 1993 en um það leyti kom út safnsnældan Strump 2, sem innihélt eitt lag (Xeros) með sveitinni, en áður (1991) hafði lagið Dæmdur til að dreyma, komið út á annarri safnsnældu, Snarl III.