Magnús Stephensen (1762-1833)

Magnús Stephensen eins og hann birtist á frímerki

Segja má að Magnús Stephensen hafi verið einn af boðberum Upplýsingastefnunnar eins og hún birtist hér upp úr miðri átjándu öldinni en hingað barst stefnan frá Evrópu í gegnum Danmörku og innihélt ferskar hugmyndir um vísindi, trúmál og menningu. Ekki voru allir Íslendingar á eitt sáttir um hana, margir voru ragir við breytingar og Magnús fór ekki varhluta af því en margt af því sem hann gerði var til bóta fyrir íslenska menningu og ekki síst tónlistarlíf.

Magnús fæddist 1762 og var af embættisfólki kominn, hann fór utan og nam heimspeki og síðan lögfræði í Kaupmannahöfn og er hann kom hingað aftur til lands starfaði hann sem lögmaður, síðan landfógeti, dómstjóri í landsyfirrétti og um tíma stiftamtsmaður. Hann vildi kynna Íslendingum erlenda menningu og atvinnuhætti og var einn af þeim sem komu að stofnun Hins íslenska landsuppfræðingafélags sem var beinlínis stofnað til að efla ofangreinda þætti.

Hann keypti prentsmiðjuna í Hrappsey á Breiðafirði en sú prentsmiðja hafði verið sú eina hérlendis sem ekki prentaði eingöngu út guðsorð, Hrappseyjarprentsmiðjan var síðan flutt suður í Leirárgarða í Borgarfirði. Síðan var prentsmiðjan sameinuð Hólaprentsmiðju og flutt að lokum til Viðeyjar þar sem Magnús lét m.a. prenta nýja og betrumbætta messusöngs- og sálmabók árið 1801, sem hafði þá verið óbreytt í ríflega tvær aldir og gengið undir nafninu Grallarinn (Graduale).

Magnús Stephensen

Nýja sálmabókin féll ekki í kramið hjá öllum en hún hafði að geyma nýjar áherslur að danskri fyrirmynd (komnum frá Þýskalandi) og hluti sálmanna höfðu nýja tegund nótnaskriftar, þá sem enn er notuð í dag. Vegna þessa var Aldamótabókin eins og hún var oft kölluð, uppnefnd Leirgerður af þeim sem mestu höfðu sig frammi gegn henni. Bókin var endurútgefin með einhverjum breytingum allt til ársins 1866 en sumir þrjóskuðust þó enn við og notuðu Grallarann langt fram eftir nítjándu öldinni. Bókin hafði einnig að geyma ítarlegan inngang um sönglistina og er því mikilvægt innlegg í íslenska tónlistarsögu.

Magnús var jafnframt einn af þeim sem kalla mætti tónlistarmann á þeim tíma, hann hafði lært söng af föður sínum og öll systkini hans höfðu stundað sönglistina með einum eða öðrum hætti. Þá hafði hann einnig lært á langspil og flautu, og um svipað leyti og Aldamótabókin kom út flutti hann til landsins frá Kaupmannahöfn einhvers konar orgel sem þó er ekki alveg ljóst hvernig var þar sem hið eiginlega orgel eða harmóníum hafði þá enn ekki verið fundið upp. Magnús lék sjálfur á þetta hljóðfæri og kenndi öðrum á það einnig en það var stundum notað við messugjörðir. Hljóðfæri þetta var síðan selt úr landi 1834 og má geta þess í því samhengi að orgel kom ekki í Dómkirkjuna í Reykjavík fyrr en 1840. Það má því með sanni segja að Magnús hafi komið með nokkuð afgerandi hætti inn í íslenskt tónlistarlíf og tónlistarsögu með tvenns konar hætti.

Magnús Stephensen lést 1833.