Magnús Pálsson (1929-)

Magnús Pálsson

Myndlistamaðurinn Magnús Pálsson hefur komið víða við í listheimum en nokkrar plötur hafa einnig að geyma verk hans.

Magnús Pálsson fæddist á Eskifirði 1929 en flutti ásamt fjölskyldu sinni til höfuðborgarsvæðisins fáum árum síðar. Hann nam myndlist í Bretlandi, Austurríki og hér heim á Íslandi en lengi starfaði hann sem leikmyndahönnuður með listsköpun sína í öðru sæti enda hafði hann fyrir stórri fjölskyldu að sjá, hann hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1967.

Árið 1975 fékk Hildur Hákonardóttir þáverandi skólastjóri Myndlista- og handíðaskóla Íslands Magnús til að stofna nýlistadeild og veita henni forstöðu innan skólans. Þar starfaði hann til ársins 1984 og útskrifuðust margir af þekktustu listamönnum þjóðarinnar úr skólanum í tíð hans, en deildin og starfsaðferðir hans þóttu umdeildar meðal eldri myndlistamanna þar sem frjálslyndi m.a. í mætingu og listsköpun voru í forgrunni. Í þessu samhengi má nefna að hljómsveitin Bruni BB starfaði m.a. á þessum tíma innan nýlistadeildarinnar en þess má einnig geta að Magnús stofnaði Nýlókórinn svokallaða.

Magnús hafði kynnst Dieter Roth myndlistamanni og þeir störfuðu saman um skeið, meðal þess sem samstarf þeirra gaf af sér var tvöfalda platan Summer music sem kom út á vegum Dieter‘s Roth Verlag árið 1979, samnefnt hljóðverk í fimm köflum má finna á þessum plötum (önnur þeirra var 12 tommu breiðskífa en hin 7 tommu smáskífa) en aðrir þekktir listamenn komu einnig að verkinu. Litlar upplýsingar er að öðru leyti að finna um þetta sjaldgæfa plötualbúm sem gefið var út í einungis þrjú hundruð eintökum en hún var tekin upp í Bala í Mosfellssveit þar sem Dieter fjölskyldan var til húsa, Magnús var upphaflega þar einnig meðal eigenda.

Árið 1984, þegar Magnús var að hætta störfum í MHÍ gaf hann út kassettu í tengslum við myndlistasýningu sem hann þá hélt tengt Listahátíð í Reykjavík, en kassettan bar heitið Kennsla: geggjaðasta listgreinin, og vísar til kennslu hans við skólann. Hún hefur að öllum líkindum eingöngu að geyma talað mál.

Magnús hafði kynnst FLUXUS-hreyfingunni í gegnum Dieter Roth og er að finna hljóðverk eftir hann á einhverjum plötum sem hreyfingin hefur sent frá sér, sem og fleiri myndlistatengdum plötuútgáfum.

Magnús hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir ævistarf sitt, og meðal annarra má nefna að hann var borgarlistamaður Reykjavíkurborgar árið 2011.

Efni á plötum