Gísli H. Brynjólfsson (1929-2017)

Gísli H. Brynjólfsson

Harmonikkuleikarinn Gísli H. Brynjólfsson starfaði með nokkrum hljómsveitum í Vestmannaeyjum um miðja tuttugustu öldina en sendi frá sér plötu með harmonikkutónlist úr ýmsum áttum kominn á efri ár.

Gísli Hjálmar Brynjólfsson fæddist á Eskifirði 1929 en fluttist fjögurra ára gamall með fjölskyldu sinni til Vestmannaeyja og kenndi sig síðan við Eyjarnar. Hann var málarameistari að mennt, sjálfmenntaður í tónlistinni en lék með Lúðrasveit Vestmannaeyja í tvo áratugi og lærði þar að lesa nótur. Fyrsta hljóðfæri Gísla var munnharpa en hann lék á gítar í fyrstu hljómsveitinni sem hann starfaði með, Tunnubandinu svokallaða en það var árið 1944. Árið 1947 eignaðist hann sína fyrstu harmonikku og byrjaði að spila á hana á dansleikjum, hann lék svo einnig á gítar í HG sextettnum og síðar með hljómsveitum Herberts Sveinbjörnssonar og Guðjóns Pálssonar. Hann kenndi á gítar í Vestmannaeyjum, reyndar eins og hann hafði gerði síðar uppi á landi einnig.

Árið 1966 fluttist Gísli til Hveragerðis og bjó þar næstu þrjátíu árin, hann hætti þá að starfa með hljómsveitum en lék oft einn á harmonikkuna á dansleikjum og öðrum skemmtunum t.d. í Skíðaskálnum í Hveradölum, Hótel Örk og víðar, þá átti hann einnig þátt í stofnun Harmoníkufélags Hveragerðis, var formaður þess um tíma og var mjög virkur í harmonikkustarfinu, hann fór víða um land í því félagsstarfi og jafnvel út fyrir landsteinana. Gísli flutti aftur til Vestmannaeyja 1995 en bjó á Akureyri frá 2005 þar til hann lést vorið  2017.

Þegar Gísli varð áttræður árið 2009 gáfu vinir hans út plötu með harmonikkuleik hans, um var að ræða fimmtán laga plötu með efni úr ýmsum áttum – mestmegnis erlendu.

Efni á plötum