Afmælisbörn 20. ágúst 2020

Margrét Jónsdóttir

Fimm tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu á þessum degi:

Einar Júlíusson söngvari er sjötíu og sex ára. Einar söng með ýmsum hljómsveitum s.s. Saxon kvintett, H.J. kvartettnum og Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar áður en hann gerðist fyrsti söngvari Hljóma frá Keflavík. Síðar átti hann eftir að syngja með Pónik, t.d. lagið Léttur í lundu, og fleiri sveitum auk annarra verkefna. Margir muna eftir honum í laginu Simmsalabimm sem hann söng á móti Ruth Reginalds. Plata kom út á sínum tíma þar sem Einar söng dúetta ásamt Ellyju Vilhjálms.

Birgir Haraldsson, oftast kenndur við Gildruna úr Mosfellsbæ er sextíu og tveggja ára gamall í dag. Hann söng og starfaði með Gildrunni um árabil og kom við sögu á fjölmörgum plötum sveitarinnar en hann hefur jafnframt starfað með sveitum eins og 66, Pass, Volt, Fjandakorninu, Gildrumezz, Gullfoss, Huldumönnum, Partý, Götusmiðum og CCReykjavík. Birgir hefur einnig gefið út sólóefni.

Margrét Jónsdóttir skáld, kennari, þýðandi og ritstjóri Æskunnnar til margra ára (f. 1893 – d. 1971) átti þennan afmælisdag en hún samdi fjölda texta sem lög hafa verið samin við, þekktast þeirra laga er Ísland er land þitt sem var á plötunni Draumur aldamótabarnsins með Magnúsi Þór Sigmundssyni en hún samdi reyndar alla texta þeirrar plötu. Annað tónlistarfólk s.s. Lay Low og Jóhann Helgason hafa gert lög við ljóð Margrétar.

Jónas Þórir Dagbjartsson trompet- og fiðluleikari frá Vestmannaeyjum hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2014. Jónas Þórir (f. 1926) lék með ýmsum hljómsveitum hér fyrrum, bæði lúðra- og danshljómsveitum eins og Lúðrasveit Vestmannaeyja, Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Hljómsveit Aage Lorange og Hljómsveit Björns R. Einarssonar, og sveitum eins og Útvarpshljómsveitinni, Hljómsveit Tónlistarskólans og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Þá átti hinn danski Bernhard A. Steincke (1825-91) einnig afmæli á þessum degi. Hann starfaði sem verslunarstjóri hjá F. Gudmanns og  var mikill framámaður í akureysku lista- og menningarlífi á nítjándu öldinni, stofnaði og stjórnaði kórum, kenndi söng og hljóðfæraslátt og kom einnig að leikhúslífinu á Akureyri