Bernhard Steincke (1825-91)

Bernhard A. Steincke

Daninn Bernhard August Steincke starfaði sem verslunarstjóri hjá verslun F. Gudmanns á Akureyri annars vegar á árunum 1851 til 1854 og hins vegar 1860 til 1874, og lyfti grettistaki í lista- og menningarlífi bæjarbúa á þeim tíma í margs konar skilningi. Menn ganga svo langt að segja að upphaf leiklistar- og tónlistarlífs Akureyrar megi rekja til hans.

Steincke (f. 1825) kom til Akureyrar til að starfa fyrir verslun hins danska kaupmanns, F. Gudmanns og fljótlega lét að að sér kveða á marga vegu enda athafnamaður mikill. Hann átti m.a. þátt í að efla þilskipaútgerð Akureyringa og hákarlaveiðar, átti frumkvæði að stofnun barnaskóla, kom að byggingu sjúkrahúss o.fl. en mesta gagn mun hann þó hafa gert lista- og menningalífinu í bænum sem ekki hafði þótt burðugt fram að þeim tíma.

Steincke var titlaður tónlistarfræðingur en ekki liggur fyrir hvort hann hafði einhverja menntun á því sviði. Hann mun hafa komið á stofn einhvers konar vísi að tónlistarskóla, stofnað kóra en fræg er sagan af því er Akureyrarkirkja var vígð 1863, þá hafði hann upp á sitt einsdæmi smalað saman hópi fólks til að syngja þar, lagði Steincke m.a. til húsnæði til kóræfinga og kenndi endurgjaldslaust. Það mun hafa verið fyrsti starfandi kórinn á Akureyri en engar upplýsingar er að finna um hversu lengi hann starfaði.

Þá var Steincke fremstur í flokki þegar blásið var til hátíðar á Eyjafjarðarsvæðinu í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar 1874, og stjórnaði hann þar stórum kór.

Sjálfur var Steincke söngmaður mikill og kenndi hann söng í mörg ár, í fyrstu sálmasöng en síðar annars konar söng. Hann mun ennfremur hafa kennt á gítar.

Þá kenndi Steincke einnig dans og var framarlega í akureysku leiklistarlífi lengi vel, og hafði frumkvæðið að því að fyrsta leiksýningin var sett á svið nyrðra.

Eftir að Steincke fór af landi brott 1874, ásamt íslenskri eiginkonu og börnum dofnaði heldur yfir menningarlífi Akureyringa. Hann lést í Kaupmannahöfn haustið 1891.