Margrét Jónsdóttir (1893-1971)

Margrét Jónsdóttir

Skáldkonan Margrét Jónsdóttir var mörgum gleymd en ljóð hennar, Ísland er land þitt við lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar hefur haldið nafni hennar á lofti síðan það kom út á plötunni Draumur aldamótabarnsins árið 1982.

Margrét fæddist sumarið 1893 á Árbæ í Holtum en fluttist um tvítugt til höfuðborgarsvæðisins þar sem hún lauki námi við Kvennaskólann í Reykjavík og síðan kennaranámi áður en hún fór til framhaldsnáms í Danmörku og Svíþjóð. Hún gegndi margs konar störfum yfir ævina, fékkst við kennslu, verslunar- og skrifstofustörf og var ritstjóri barnablaðsins Æskunnar á árunum 1928 til 42.

Margrét orti ljóð sem mörg hver voru full af skilaboðum til yngri kynslóða sem hún vildi að myndu breyta rétt, hún vildi efla og vernda íslenska tungu og ýta undir þjóðernisvitund íslenskrar æsku á þeim tíma er Íslendingar börðust hvað harðast fyrir sjálfstæði sínu. Þannig var frelsi aldamótakynslóðarinnar henni hjartans mál og það birtist vel í ljóðum hennar en hún sendi frá sér fjölmargar ljóðabækur, hún fékkst einnig við þýðingar og ritaði ennfremur Toddu-bækurnar sem voru vinsælda „telpnabækur“ á sínum tíma.  Þegar Margrét lést 1971 arfleiddi hún Æskuna að höfundar- og útgáfurétti allra sinna verka.

Tónlistarmaðurinn Magnús Þór Sigmundsson hefur eins og segir hér í upphafi haldið nafni Margrétar á lofti en hann gaf út plötuna Draumur aldamótabarnsins árið 1982, á henni er að finna lög hans við tíu ljóða Margrétar og nutu tvö þeirra mestra vinsælda, titillagið Draumur aldamótabarnsins og svo Ísland er land þitt sem segja má að sé eitt stærsta lag íslenskrar dægurtónlistar, margir hafa gert tilkall til þess að lagið verði gert að nýjum þjóðsöng Íslands og kemur sú umræða reglulega upp á yfirborðið. Magnús gaf út aðra plötu árið 1999 þar sem ljóð Margrétar er að finna, það var platan Leggur og skel en reyndar er að finna ljóð annarra einnig á plötunni þótt Margrét sé þar mest áberandi.

Finna má lög við ljóð Margrétar á öðrum útgefnum plötum, t.d. plötu sem Kór Barnaskóla Akureyrar gaf  út 1973 og innihélt m.a. Sigga og Loga, sögu í ljóðum eftir Margréti, þá má nefna plötuna Ferðin til Limbó (1969) sem hafði að geyma lög Ingibjargar Þorbergs m.a. við ljóð Margrétar úr barnaleikriti sem Þjóðleikhúsið hafði sett á svið, þá hefur Lay Low einnig samið lög við ljóð hennar og gefið út á plötu, sem og Jóhann Helgason o.fl.

Efni á plötum