Flosi Ólafsson (1929-2009)

Flosi Ólafsson sextán ára gamall

Flestir þekkja nafn Flosa Ólafssonar leikara sem einnig var kunnur fyrir störf sín innan leikhússins sem leikstjóri og revíu- og leikritaskáld en hann var jafnframt rithöfundur, pistlahöfundur, hagyrðingur, þýðandi, höfundur áramótaskaupa Sjónvarpsins, kvikmyndaleikari og margt annað. Tónlist kom víða við sögu á ferli Flosa og framlag hans til Stuðmannamyndarinnar Með allt á hreinu er flestum ferskt í minni.

Flosi Gunnlaugur Ólafsson fæddist í Reykjavík haustið 1929 og sleit barnsskónum í Kvosinni, hann skrifaði síðar endurminningar sínar, m.a. í bókinni Í Kvosinni en alls komu út sex bækur eftir hann. Flosi var íþróttamaður á sínum yngri árum, keppti á skíðum fram á fullorðins ár og fór til náms við Menntaskólann á Akureyri þar sem hann komst í fyrsta skipti í kynni við leiklistina en einnig var hann virkur í starfi æskulýðsfylkingarinnar fyrir norðan. Það var þó ekki fyrr en um tuttugu og fimm ára aldur sem hann vakti athygli fyrir leik þegar hann lék hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar í „kátbrosleiknum Stanz – Aðalbraut – Stop“, í millitíðinni hafði hann dvalist erlendis við störf og háskólanám án þess þó að ljúka prófi.

Flosi útskrifaðist árið 1958 úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og um svipað leyti sló hann í gegn í hlutverki Danna í útvarpsleikritinu Víxlar með afföllum eftir Agnar Þórðarson. Í kjölfarið hófst hinn eiginlegi leiklistarferill og um leið kom hann að öðrum þáttum leiklistarinnar, hóf að semja og þýða leikrit, leikstýra og kenna leiklist einnig, þá starfrækti hann um tíma áhugaleikhúsið Nýtt leikhús. Þess má geta að Flosi lék í sinni fyrstu kvikmynd árið 1962, 79 af stöðinni en þá voru enn sjö ár í að Ríkissjónvarpið hæfi göngu sína.

Flosi ásamt hljómsveitinni Pops

Flosi var því orðinn allþekktur þegar hann lék í fyrsta sinn í sjónvarpinu, það var í grínóperunni Örlagahárinu í sjónvarpsþætti á gamlárskvöld 1967 sem fengið hafði nafnið Áramótaskaup en slíkur þáttur hafði fyrst verið sýndur árið á undan. Árið 1968 var hann fenginn til þess að stýra skaupinu og það gerði hann næstu árin, það er því eðlilegt að Flosi sé stundum kallaður faðir áramótaskaupanna en hann mótaði og þróaði skaupið til þess sem það er enn í dag. Í skaupinu 1969 var Flosi sjálfur m.a. í hlutverki Halls Sveins úr hljómsveitinni Púkó og fljótlega eftir það var ákveðið að plata yrði gefin út á vegum SG-hljómplatna þar sem hljómsveitin Pops léki undir söng hans í gervi Halls. Flosi kom fram í nokkur skipti ásamt Pops og tveggja laga plata kom út um vorið 1970 og sló eftirminnilega í gegn en hún hafði að geyma lögin Það er svo geggjað að geta hneggjað og Ó, ljúfa líf. Bæði lögin hafa lifað góðu lífi til dagsins í dag og hafa margsinnis ratað inn á safnplötur síðan. Flosi var þannig um tíma „vinsæll poppari“  þó að raunverulega væri verið að gera grín að bítla- og hipparokksímynd samtímans með lögunum tveimur, á sama tíma var hann einnig einn allra vinsælasti gamanleikari þjóðarinnar. Lögin tvö hafa komið út á tugum safnplatna síðan.

Flosi lék í Þjóðleikhúsinu frá 1958 og var fastráðinn þar frá 1960 og starfaði þar allt til ársins 1998, þar lék hann á annað hundrað hlutverka og í mörgum þeirra var einnig um sönghlutverk að ræða. Þannig má heyra söng hans á nokkrum hljómplötum sem komið hafa út í tengslum við leikhúsið og má í því samhengi nefna dæmi eins og Síglaðir söngvarar, Ævintýri gljúfrabúanna, Gosa og Gauragang en í síðast nefnda leikritinu söng hann lagið Ský í buxum við undirleik hljómsveitarinnar Nýdanskrar við nokkrar vinsældir. Þekktasta hlutverk Flosa er þó líklegast húsvörðurinn Sigurjón digri sem hann lék í Stuðmanna kvikmyndinni Með allt á hreinu en þar er hann einnig í stóru hlutverki í samnefndu lagi Stuðmanna sem margoft hefur verið gefið út á plötum. Og samstarf hans við Stuðmenn varð lengra því hann lék einnig í næstu mynd þeirra, Hvítum mávum þar sem hann söng lagið Skipulagt kaos sem einnig varð nokkuð vinsælt en kom af einhverjum ástæðum aldrei út á plötu. Flosi kom svo enn við sögu á plötu Stuðmanna, Listin að lifa (1989) þar sem hann söng lagið Fiddi bátsmaður og Birna sprettur en einnig söng hann eitt lag á plötu Lýðs Ægissonar, Lómurinn lævísi (1988). Flosi lék jafnframt í fjölmörgum öðrum kvikmyndum en Stuðmannamyndunum þótt ekki kæmi söngur við sögu í þeim.

Flosi Ólafsson

Þrátt fyrir að Flosi hafi verið fyrirferðamestur á sviði leiklistarinnar enda fór yfirleitt ekkert á milli mála þegar hann var á sviðinu eða í mynd, þá kom hann miklu víðar við. Hann ritaði sem fyrr segir nokkrar bækur en einnig fékkst hann við þýðingar s.s. á leikritum eins og Söngvaseið (Sound of music) en einnig skáldsögunni Bjargvætturinn í grasinu (J.D. Salinger). Hann ritaði einnig pistla og greinar í blöð eins og Þjóðviljann, Alþýðublaðið, Helgarpóstinn, Pressuna, DV og Skessuhorn en var einnig með fasta pistla í útvarpi um tíma, á sínum yngri árum annaðist hann einnig spurningaþætti í útvarpinu. Flosi þótti ágætur hagyrðingur og margar lausavísur hafa verið feðraðar honum.

Árið 1989 flutti Flosi ásamt eiginkonu sinni upp í Reykholtsdal í Borgarfirði þar sem hann bjó til æviloka og þar í sveit tók hann þátt í menningarlífinu, m.a. með áhugaleikfélaginu á staðnum, á seinni árum sinnti hann aðallega hestamennsku sem var mikið áhugamál hjá honum. Samhliða öðrum störfum vann hann að félagsmálum leikara um árabil, var t.a.m. um tíma formaður leikarafélags Þjóðleikhússins og í stjórn félags íslenskra leikara.

Flosi Ólafsson lést eftir bílslys haustið 2009 en þá voru aðeins fáeinir dagar í áttræðis afmæli hans.

Efni á plötum