Afmælisbörn 27. október 2016

Flosi Ólafsson

Flosi Ólafsson

Afmælisbörn Glatkistunnar eru tvö að þessu sinni:

Jens Hansson saxófón- og hljómborðsleikari úr Sálinni hans Jóns míns er fimmtíu og þriggja ára gamall í dag. Jens vakti fyrst athygli með Das Kapital þar sem hann lék saxófónssólóið í laginu Blindsker en síðar lék hann með hljómsveitum eins og Faraldi, Strákunum, Lost, Klakabandinu, Fínt fyrir þennan pening, Partýtertunni, Zebra og Jemma & Klanks svo dæmi séu tekin. Hann hefur sem fyrr segir verið hluti af Sálinni til fjölda ára en hann hefur jafnframt samið nokkur þekkt lög með sveitinni, þar má nefna Ekkert breytir því, Gagntekinn og Upp‘í skýjunum. Jens hefur einnig starfað við hljóðupptökur.

Flosi (Gunnlaugur) Ólafsson leikari (1929-2009) hefði einnig átt afmæli þennan dag en hann kom með ýmsum hætti að tónlist. Hæst reis frægðarsól hans í tónlistarsögunni þegar hann söng inn á og gaf út tveggja laga plötu með hljómsveitinni Pops árið 1970 með lögunum Það er svo geggjað að geta hneggjað og Ó, ljúfa líf sem bæði hafa orðið sígild fyrir löngu. Starfs síns vegna söng Flosi ennfremur á fjölmörgum plötum s.s. með tónlist úr leikritunum Gauragangi, Gosa og Síglöðum söngvum. Flestir muna hann einnig úr Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu þar sem hann kyrjaði: „Takið af ykkur skóna“.