Afmælisbörn 13. júní 2021

Helgi Steingrímsson

Hvorki fleiri né færri en sex afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar í dag:

Bjartmar A. Guðlaugsson tónlistarmaður og listmálari er sextíu og níu ára. Bjartmar þekkja allir og lög hans og texta en hann hefur gefið út á annan tug sólóplatna og í félagi við aðra, lög eins og Fimmtán ára á föstu, Sumarliði er fullur, Týnda kynslóðin, Járnkallinn, Velkomin á bísann og Súrmjólk í hádeginu þekkja allir en þess má einnig geta að Bjartmar var hér fyrrum trommuleikari í nokkrum hljómsveitum, s.s. Logum, Dauðarefsingu, Eymönnum og Glitbrá.

Kristján (Þorgeir) Guðmundsson hljómborðsleikari er einnig sextíu og níu ára í dag. Hann hefur í gegnum tíðina leikið með tugum hljómsveita í ballgeiranum og meðal sveita má nefna Erni, Í hvítum sokkum, Óvissu, Póker, Spacemen, Hauka, Áningu, Bravó, Picasso, Mandala, Hljómsveit Ingimars Eydal, Ljósbrá og Celsius.

Halldór Gylfason tónlistarmaður og leikari er fimmtíu og eins árs gamall í dag. Halldór hefur mestmegnis komið við sögu á plötum sem hafa að geyma tónlist úr leikhúsinu, þar á meðal telst hljómsveit hans, Geirfuglarnir, sem hefur gefið út nokkrar plötur en einnig hefur hann sungið á plötum tengdar knattspyrnufélaginu Þrótti. Halldór var einnig í hljómsveitinni Sirkus Babalú hér áður.

Selma Björnsdóttir söngkona er fjörutíu og sjö ára gömul. Hún hefur tvívegis farið sem fulltrúi Íslands í Eurovision söngkeppnina og naut mikilla vinsælda um tíma, gaf í kjölfarið út nokkrar sólóplötur og fékk útgáfusamning erlendis sem litlu skilaði, en varð þeim mun áberandi á söngleikjasviðinu hér heima og hefur sungið á plötur ásamt Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur og einnig Miðnæturkúrekunum.

Gunnar (Ólafur Þór) Egilson klarinettuleikari hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 2011. Gunnar, sem var fæddur 1927, menntaði sig í klarinettuleik hér heima, í Bandaríkjunum og Bretlandi lék á árum áður með B.G. kvintettnum, Dixielandhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Íslands og fjölmörgum öðrum hljómsveitum en var í seinni tíð meira í lausamennsku, lék þá á plötum annarra listamanna, þar má m.a. nefna Vilhjálm Vilhjálmsson, BG  & Ingibjörgu og Spilverk þjóðanna. Gunnar lét einnig til sín taka í félagsmálum tónlistarmanna, starfaði m.a. fyrir FÍH og FÍT að réttindamálum.

Og að síðustu er hér nefndur Helgi Steingrímsson (1943-2020) gítar- og bassaleikari sem lék með nokkrum þekktum hljómsveitum hér á árum áðum en þekktust þeirra er vafalaust hin goðsagnakennda sveit Haukar, sem Helgi reyndar stofnaði. Meðal annarra sveita hans má nefna Brúartríóið, Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar og Erni en einnig rak Helgi útgáfu- og umboðsskrifstofuna Demant um tíma í samstarfi við aðra.

Vissir þú að Jórunn Viðar samdi tónlistina við kvikmyndina Síðasti bærinn í dalnum, sem frumsýnd var 1950?