Gunnar Egilson (1927-2011)

Gunnar Egilson á yngri árum

Gunnar Egilson var einn af fyrstu klarinettuleikurum Íslands, hann nam erlendis og starfaði með Sinfóníuhljómsveit Íslands frá stofnun og mörgum fleiri sveitum, hann var einnig framarlega í baráttu- og réttindamálum tónlistarmanna um árabil og mikilvægur í félagsmálum þeirra.

Gunnar Ólafur Þór Egilson fæddist á Spáni sumarið 1927 þar sem foreldrar hans störfuðu, en fluttist með móður sinni og systkinum heim til Íslands við andlát fjölskylduföðursins sem féll frá þegar Gunnar var einungis þriggja mánaða gamall. Hann hóf að læra á klarinettu við Tónlistarskólann í Reykjavík um sautján ára aldur árið 1944 og fljótlega upp úr því byrjaði hann að leika með Hljómsveit Björns R. Einarssonar, hann lék einnig á frægum tónleikum sem Jonni í Hamborg (Jóhannes Þorsteinsson) hélt í Gamla bíó 1946 en yfirleitt er talað um þá tónleika sem fyrstu djasstónleika sem haldnir voru á Íslandi.

Gunnar hélt til Bandaríkjanna og síðan Bretlands í frekara nám í klarinettuleik og kom heim aftur eftir það nám árið 1948, þá lá hugur hans til klassískrar tónlistar og lék hann um tíma með Hljómsveit Reykjavíkur og Symfóníuhljómsveit Reykjavíkur (forverum Sinfóníuhljómsveitar Íslands) áður en sinfóníuhljómsveitin var svo stofnuð 1950. Hann var þó ekki fastráðinn með sinfóníunni fyrr en 1955 og lék því með danshljómsveitum á klarinettu og saxófón samhliða því starfi þótt það hefði ekki verið ætlunin, meðal þeirra hljómsveita voru áðurnefnd Hljómsveit Björns R. Einarssonar en einnig lék hann lítillega með hljómsveitum Braga Hlíðberg, Bjarna Böðvarssonar og Magnúsar Péturssonar, þá var hann um tíma í Keflavík þar sem hann starfrækti eigin sveit og stjórnaði drengjalúðrasveit þar í bæ. Hann lék um tíma með Lúðrasveit Reykjavíkur og kom jafnframt stundum fram á jam sessionum á djasskvöldum á þessum tíma.

En klassíkin beið og um miðjan sjötta áratuginn fékk Gunnar fastráðningu við Sinfóníuhljómsveit Íslands og þar átti hann eftir að vera fyrsti klarinettuleikari allt til ársins 1985 og sinnti öðrum verkefnum fyrir hljómsveitina sem skrifstofustjóri, tónlistarstjóri og starfsmannastjóri allt til ársins 2000 og starfaði því með henni í hálfa öld. Hann lék oft einleik með sinfóníuhljómsveitinni en auk þess lék hann með ýmsum smærri sveitum á starfsferli sínum innan sveitarinnar og utan, blásarakvintett innan Tónlistarskólans, kammersveitum og þess háttar sem hann lék margsinnis með á tónleikum hér á landi og erlendis og í útvarpssal. Gunnar kom jafnframt að stofnun hljómsveita og hópa eins og Kammersveit Reykjavíkur og Musica nova. Samhliða spilamennsku og öðrum störfum sinnti hann kennslu við Tónlistarskólann í Reykjavík frá árinu 1950 og meðal nemenda hans urðu nokkrir þekktir klarinettuleikarar eins og Einar Jóhannesson, Guðni Franzson og Óskar Ingólfsson.

Gunnar lék inn á fjölmargar plötur á ferli sínum, þrjár tveggja laga 78 snúninga plötur komu til að mynda út með þeim félögum Birni R. Einarssyni og Gunnari árið 1954 þar sem þeir sungu við undirleik hljómsveitar Björns, Öskubuskur sungu með þeim á einni plötunni en Tónika gaf plöturnar út. Þá kom út plata árið 1971 að öllum líkindum í Svíþjóð undir titlinum Kisum (Musik afturábak) / Intrada, sem voru kammerverk eftir Þorkel Sigurbjörnsson en Þorkell hafði samið verkið fyrir Gunnar og Ingvar Jónasson fiðluleikara, 1999 kom Kisum út á annarri plötu, að þessu sinni á Íslandi, sem bar heitið Kisum og þrír kvartettar og Intrada kom síðan út á plötu Þorkels, Portrait (1991). Hann lék enn fremur á fjölda platna annarra tónlistarmanna s.s. með Vilhjálmi Vilhjálmssyni, BG og Ingibjörgu, Gesti Þorgrímssyni, Gretti Björnssyni, Spilverki þjóðanna, Árna Johnsen, Heimavarnarliðinu, Ríó tríói, Bessa Bjarnasyni, Kammersveit Reykjavíkur og Halla og Ladda, þá er klarinettuleik hans að finna á að minnsta kosti tveimur leikhúsplötum, Land míns föður og Saumastofunni, og á kassettu Þjóðdansafélags Reykjavíkur, Hávan dansinn hefjum: Íslensk þjóðlög og danskvæði.

Gunnar Egilson

En þótt að Gunnar Egilson hafi verið framarlega í íslenskri tónlist á sínum tíma, einkum innan klassíska geirans þá er hlutur hans í félagsstarfi tónlistarmanna mun stærri og þar barðist hann fyrir ýmsum réttinda- og félagsmálum, m.a. þegar réttindamál tónlistarmanna voru í miklum ólestri um miðja síðustu öld. Það var í kringum 1950 sem afskipti hans af félagsmálum hófust, hann var kominn í stjórn FÍH (Félags íslenskra hljómlistarmanna) um það leyti, gegndi síðan formennsku í félaginu í fimm ár auk annarra starfa þar s.s. við Tónlistarskóla FÍH, hann var í ritnefnd Tónamála félagsrits FÍH og afmælisnefnd fyrir 50 ára afmæli félagsins.

Auk fyrrnefndra starfa hjá sinfóníuhljómsveitinni kom hann að öðrum málum sem tengdust félagsmálum sveitarinnar, stýrði afmælisriti hennar á 30 ára afmælinu og var lengi í stjórn sveitarinnar. Þá gegndi hann formennsku um tíma í FÍT (Félagi íslenskra tónlistarmanna), starfaði í fulltrúaráði og framkvæmdastjórn Listahátíðar í Reykjavík og í nefnd um uppbyggingu tónlistarskóla. Gunnar var jafnframt í undirbúningsnefnd um stofnun tónlistarhúss og síðan í stjórn Samtaka um byggingu tónlistarhúss, hann var einnig formaður Óperunnar, sem var félag sem hélt utan um óperusýningar á sjöunda áratugnum. Af þessari upptalningu má sjá hversu mikilvægur Gunnar var réttindamálum tónlistarfólks á síðustu öld og hlaut hann reyndar margvíslegar viðurkenningar fyrir framlag sitt, s.s. Fálkaorðuna og gullmerki og heiðursfélagatitil FÍH.

Gunnar Egilson lést haustið 2011 áttatíu og fjögurra ára gamall eftir nokkur veikindi.

Efni á plötum