Silja Aðalsteinsdóttir (1943-)

Silja Aðalsteinsdóttir um tvítugt

Flestir tengja nafn Silju Aðalsteinsdóttur (f. 1943) við ritstörf og bókmenntir en hún skráð m.a. bókina um Bubba Morthens, Bubbi sem út kom fyrir jólin 1990, hún er jafnframt virtur bókmenntafræðingur, pistla- og rithöfundur, ritstjóri og þýðandi og hefur unnið til fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir störf sín í þeim geira.

Silja á sér einnig söngferil sem ekki hefur farið mikið fyrir. Hún kom að líkindum fyrst fram opinberlega á fimmtánda ári þegar hún söng gamanvísur á Arnarhóli frammi fyrir tuttugu þúsund áhorfendum á 17. júní skemmtun 1958 en þeirri skemmtun var jafnframt útvarpað. Tveimur árum síðar var hún svo ein níu efnilegra dægurlagasöngvara sem kynntir voru á skemmtun í Austurbæjarbíói haustið 1960 en þar söng hún ásamt fleirum á svipuðu reki undir leik KK-sextettsins, en hópurinn hafði verið valinn úr hópi fjörutíu ungmenna sem upphaflega mættu í prufur. Söngvararnir níu höfðu sungið einnig með sveitinni á fáeinum dansleikjum fyrr um sumarið, m.a. í Selfossbíói og Hlégarði í Mosfellssveit.

Ekkert varð úr að Silja legði sönginn fyrir sig og allt aðrar áherslur biðu hennar í leik og starfi, hún söng þó eitt lag á plötunni Hvað tefur þig bróðir? sem Herstöðvarandstæðingar sendu frá sér árið 1982. Það lag, Vögguvísa róttækrar móður var svo endurútgefið á safnplötunni Baráttusöngvar fyrir friði og þjóðfrelsi (1999).

Silja hefur í seinni tíð sungið með Senjóríukórnum, sem er afsprengi Kvennakórs Reykjavíkur en hún hefur án nokkurs vafa sungið með fleiri kórum um sína tíð.