Supah syndical (1998-99)

Supah syndical var ein af fyrstu rappsveitum Íslands en hún starfaði undir lok síðustu aldar, á þeim tíma var að myndast stór kreðsa innan rapptónlistarinnar hér á landi og þegar leiðir skildu skiluðu meðlimir sveitarinnar sér í flestar af þekktustu rappsveitunum í senunni og áttu eftir að mynda hryggjarstykki fyrsta gullaldarskeiðs rappsins.

Supah syndical mun hafa verið stofnuð árið 1998 og voru meðlimir hennar þeir Ómar Örn Hauksson (Ómar Swarez), Ársæll Þór Ingvason (DJ Intro, síðar Introbeatz), Magnús Ómarsson (Móri), Trausti [?] (KEZ 101), Magnús Jónsson (Magse, sem þá hafði verið í Subterranean), Erpur Eyvindarson (Blaz Roca) og Eyjólfur Eyvindarson (Sesar A). Sveitin kom fram á fjölmörgum tónleikum og vakti nokkra athygli en sumarið 1999 virðist hafa kvarnast úr hópnum og voru þá aðeins bræðurnir Erpur og Eyjólfur eftir, og hvarf sveitin af sjónarsviðinu fljótlega upp úr því.

Meðlimir Supah syndical áttu síðar (ásamt fleirum) sem fyrr segir eftir að skipa framvarðasveit íslenska rappsins um og upp úr aldamótum, bæði sem sólóistar og sem hluti af öðrum rappsveitum. Þannig sendu t.a.m. Móri, Magse, Introbeatz, Blaz Roca og Sesar A frá sér sólóplötur en einnig voru þeir meðlimir sveita eins og Quarashi, XXX Rottweiler, Forgotten lores og fleiri sem gerðu garðinn frægan.