Sæbjörn Jónsson (1938-2006)

Sæbjörn Jónsson

Nafn Sæbjörns Jónssonar er vel þekkt í blásarahluta íslenskrar tónlistarsögu enda kom hann þar að ýmsum stórum verkefnum, hann var stjórnandi og trompetleikari Svansins um árabil, lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands, kenndi við Tónmenntaskólann í Reykjavík og stjórnaði ýmsum lúðrasveitum tengt því og stofnaði svo og stjórnaði Stórsveit Reykjavíkur og varð um leið eins konar guðfaðir þeirrar sveitar. Þá má trompetleik hans einnig heyra á fjölda hljómplatna sem komið hafa út í gegnum tíðina.

Sæbjörn Jónsson fæddist að Vegamótum á Snæfellsnesi haustið 1938 en ólst upp í Ólafsvík og síðan Stykkishólmi þar hann komst fyrst í tæri við tónlistina en hann byrjaði að læra á trompet tólf ára gamall í Hólminum og hóf um svipað leyti að leika með Lúðrasveit Stykkishólms. Hann starfaði með Egon kvintettnum og lék á dansleikjum með þeirri sveit á árunum 1955 til 59 en fluttist þá suður til Reykjavíkur til að ljúka námi í rafvirkjun og síðan rafvélavirkjun.

Þegar til Reykjavíkur var komið starfaði Sæbjörn við iðn sína um nokkurra ára skeið og var m.a. um tíma með eigið fyrirtæki í þeim geira en samhliða því var hann í tónlistarnámi, nam hjá Jóni Sigurðssyni trompetleikara í Tónmenntaskólanum í Reykjavík og fór síðar í nám við kennaradeildina í sama skóla og átti sjálfur eftir að kenna þar, þá var hann um skamma hríð einnig við nám í Noregi.

Árið 1960 hóf Sæbjörn að leika með lúðrasveitinni Svaninum þar sem hann átti eftir að vera í 22 ár, þar lék hann stundum einleik með sveitinni á tónleikum og síðar stjórnaði hann Svaninum sjálfur um ríflega áratugar skeið auk þess að stjórna big bandi innan sveitarinnar. Fáeinar plötur komu út með sveitinni á því tímaskeiði og á einni þeirra lék hann t.a.m. í trompet-tríói. Sæbjörn gegndi einnig formennsku í Svaninum um tíma auk þess að stjórna yngri hljómsveitum innan lúðrasveitarinnar síðar.

Sæbjörn Jónsson

Árið 1963 byrjaði Sæbjörn að leika lausráðinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands og sex árum síðar hlaut hann fastráðningu þar, við þau tímamót sneri hann sér alfarið að tónlistinni og lagði iðn sína til hliðar en hann starfaði með sinfóníuhljómsveitinni allt til 1998 þegar hann varð að hætta í kjölfar veikinda. Starf hans sem trompetleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands var því aðalstarf hans en samhliða því gegndi hann einhverjum trúnaðarstörfum einnig innan sveitarinnar, m.a. í stjórn starfsmannafélags hennar.

Starfsdagurinn hjá Sæbirni gat orðið æði langur því auk þess að starfa með sinfóníuhljómsveitinni og stjórna Svaninum hóf hann einnig að kenna í Tónmenntaskólanum í Reykjavík en þar sinnti hann kennslu í um 20 ár, stjórnaði þar lúðra- og léttsveitum innan skólans en uppistaðan úr þeim sveitum átti eftir að mynda kjarnann í Stórsveit Reykjavíkur sem Sæbjörn stofnaði síðar. Þá var hann jafnframt virkur innan Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) þar sem hann var trompetleikari í stórsveit FÍH sem hann sjálfur stofnaði og stjórnaði um nokkurra ára skeið á fyrri hluta áttunda áratugarins, en hann var einnig formaður þeirrar sveitar og gegndi einhverjum nefndar- og trúnaðarstörfum innan FÍH. Sæbjörn var svo löngu síðar meðlimur Jazzsveitar FÍH og Dixielandhljómsveitar Björns R. Einarssonar. Þá er enn ótalin Lúðrasveit Fíladelfíu-safnaðarins sem hann stjórnaði í nokkur ár og kenndi þar einnig, þess má og geta að hann samdi einhverja tónlist sjálfur og fékkst við útsetningar.

Sæbjörn tókst á við margar ólíkar áskoranir og um miðjan níunda áratuginn tók hann að sér að stjórna hljómsveitum í uppfærslum Þjóðleikhússins á söngleikjunum Gæjum og píum og Vesalingunum. Hann fékkst einnig við margs konar minni verkefni á ferli sínum, einkum á áttunda áratugnum þegar hann lék víða um land t.d við messur og aðrar kirkjulegar athafnir – hann var t.a.m. um árabil fast dagskráratriði á Skálholtshátíð og var mjög hlaðinn verkefnum í tengslum við þjóðhátíðahöldin sumarið 1974. Hann sinnti aukinheldur tímabundnum verkefnum t.d. á æskuslóðunum í Stykkishólmi þegar hann æfði Lúðrasveit Stykkishólms fyrir tónleika, stjórnaði Stórlúðrasveit S.Í.L. (Sambands íslenskra lúðrasveita) í kringum landsmót o.fl. Sæbjörn lék ekki mikið með danshljómsveitum eftir að hann var í Egon kvintettnum vestur á Snæfellsnesi en hann starfaði þó lítillega með hljómsveitum Ragnars Bjarnasonar á Hótel Sögu og Hauks Morthens en með síðartöldu sveitinni fór hann til Kaupmannahafnar sumarið 1987 sem lék þar um skeið.

Sæbjörn Jónsson

Sem fyrr er nefnt stofnaði Sæbjörn Stórsveit Reykjavíkur en það var árið 1992, kjarni þeirrar sveitar var fenginn úr hópi fyrrum nemenda hans sem flestir hverjir voru orðnir þekktir tónlistarmenn en í bland voru einnig eldri blásarar, einnig voru minni sveitir starfandi innan stórsveitarinnar. Sæbjörn stjórnaði Stórsveit Reykjavíkur fyrstu starfsár hennar, m.a. á fjölmörgum tónleikum og plötum sem komu út á tíunda áratugnum en eftir að hann fékk hjartaáfall árið 1998 minnkaði hann nokkuð við sig vinnuna og kvaddi stórsveitina að lokum árið 2001 – hann átti þó eftir að stjórna sem gestastjórnandi á tónleikum sveitarinnar í Stykkishólmi árið 2003. Hann hafði hætt með Sinfóníuhljómsveit Íslands í kjölfar veikinda sinna og á fyrstu árum nýrrar aldar hafði hann að miklu leyti dregið sig í hlé, stjórnaði þó lúðrasveit eldri félaga í Svaninum.

Sæbjörn lést sumarið 2006 aðeins 68 ára gamall en hann hafði sem fyrr segir átt við veikindi að stríða um nokkurra ára skeið. Lúðrasveitin Svanur sem hafði gert Sæbjörn að heiðursfélaga heiðraði minningu hans með minningartónleikum um haustið og um svipað leyti kom út platan Majones jól með Stórsveit Reykjavíkur og Bogomil Font en hún var tileinkuð minningu hans. Stórsveitin hélt svo minningartónleika um Sæbjörn tveimur árum síðar, haustið 2008 en þá hefði hann orðið sjötugur. Þess má geta að vefsíðan Trompet.is er tileinkuð Sæbirni og verkum hans en þar er að finna margs konar upplýsingar um feril hans, hljóðritanir og annað markvert.

Trompetleik og lúðrasveitastjórn Sæbjörns má heyra á fjölmörgum útgefnum plötum, eins og fyrr er getið lék hann á plötum Svansins en hann lék einnig á plötum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Leik hans má þá einnig heyra á plötum með „léttari tónlist“ en allt frá 1975 lék hann inn á plötur af ýmsu tagi – hér má nefna plötur með Megasi, Fjórtán Fóstbræðrum, Söngflokki Eiríks Árna, Ólafi Þórðarsyni, Kötlu Maríu, Glámi & Skrámi og Varðeldakórnum svo nokkrar séu nefndar. Þá má að lokum geta að þeir Sæbjörn og Jón Sigurðsson lærifaðir hans í trompetleik léku Ísland farsælda frón á plötunni Íslensk alþýðulög.