
Guðmundur Steingrímsson
Þrjú afmælisbörn eru á skrá hjá Glatkistunni í dag:
Guðmundur S. Steingrímsson (Papa Jazz) trommuleikari með meiru er áttatíu og sjö ára á þessum degi. Guðmundur lék á sínum tíma með fjöldanum öllum af djass- og danshljómsveitum þess tíma og alltof langt mál yrði að telja þær allar upp en sem dæmi má nefna Unga pilta, Bluebirds, Borgarbandið, Hljómsveit Hauks Morthens, Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar, Musica nova, Tríó Guðmundar Ingólfssonar o.m.fl. Guðmundur gaf út plötu með Steingrími syni sínum 2006 og hefur leikið á trommurnar nánast fram á þennan dag, t.d. á minningartónleikum um Ellyju Vilhjálms 2012 og á jólaplötu Edwin Kaaber sem kom út 2013.
Sigurður Tómas Guðmundsson trommuleikari er þrjátíu og fjögurra ára. Sigurður lék með Sprengjuhöllinni sálugu sem gerði góða hluti fyrir nokkrum árum og gaf út tvær plötur, og einnig á plötu fyrrum samstarfsmanns síns í sveitinni, Snorra Helgasonar. Hann hefur einnig leikið með hljómsveitinni Boogie trouble svo dæmi séu tekin.
Sæbjörn Jónsson trompetleikari hefði einnig átt afmæli þennan dag. Sæbjörn (f. 1938) lék á sínum starfsferli inn á ýmsar plötur bæði í poppgeiranum og í „æðri“ tónlist en hann lék m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Lúðrasveitinni Svani og Lúðrasveit Reykjavíkur auk þess að stjórna Svani og hljómsveitum við Íslensku óperuna og Þjóðleikhúsið. Sæbjörn stofnaði einnig og stjórnaði Stórsveit Reykjavíkur og var jólaplata Stórsveitar Reykjavíkur og Bogomil Font sem kom út fyrir jólin 2006 tileinkuð minningu Sæbjörns en hann lést það ár.