
Guðrún Tómasdóttir
Afmælisbörn í tónlistargeiranum eru sex í dag á skrá Glatkistunnar:
Skagfirðingurinn Geirmundur Valtýsson er sjötíu og níu ára en hann þarf varla að kynna neitt sérstaklega. Hann hefur til þessa dags starfrækt eigin sveitir frá 1971 en hafði áður leikið með Rómó og Geira, Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar og Flamengo. Hann hefur gefið út á annan tug platna og hafa mörg þeirra notið vinsælda, þekkt er einnig framlag hans til undankeppni Eurovision hér heima.
Brynhildur Oddsdóttir gítargyðja eins og hún hefur verið kölluð er fjörutíu og þriggja ára gömul í dag, hún er söngkona Beebee and the bluebirds en hefur auk þess að leggja stund á söng- og gítarnám lokið námi í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands. Brynhildur starfar sem tónmenntakennari.
Bassaleikarinn Elís Pétursson á einnig fjörutíu og þriggja ára afmæli á þessum degi. Elís hefur leikið á bassa (og gítar) með hljómsveitum eins og Coolcat, Oxidizer, Fou Furieux, Leaves og Jeff who? sem sumar hverjar hafa sent frá sér plötur en hann hefur einnig komið við sögu á plötum annarra listamanna.
Jónas Tómasson tónskáld átti einnig þennan afmælisdag. Hann fæddist 1881 í Fnjóskadalnum en bjó mestan part ævi sinnar á Ísafirði þar sem hann vann mikið frumkvöðlastarf í tónlistarlífi bæjarins. Hann stofnaði t.a.m. vísi að tónlistarskóla í bænum sem var fyrstur sinnar tegundar á landinu, kom að stofnun Sunnukórsins og Karlakórs Ísafjarðar og stýrði þeim í áratugi og var organisti við Ísafjarðarkirkju í hálfa öld svo fátt eitt sé nefnt. Jónas lést 1967.
Guðrún Tómasdóttir söngkona (1925-2022) átti afmæli á þessum degi. Hún lærði söng hér heima, í Bandaríkjunum og Svíþjóð og söng inn á fjölda hljómplatna, m.a. á þrjár plötur í eigin nafni. Guðrún söng ennfremur oft einsöng á tónleikum, ýmist með kórum eða sjálfstæðum tónleikum, og stjórnaði Vorboðanum, kór eldri borgara í Mosfellsbæ komin á tíræðisaldur.
Og síðastan skal hér telja sjálfan (Guðmund) Rúnar Júlíusson (1945-2008) bassaleikara, söngvara, útgefanda og margt fleira, frá Keflavík. Hann gaf út fjölda sólóplatna, stofnaði og rak útgáfufyrirtækið Geimstein, og var í Hljómum og Trúbroti, frægustu hljómsveitum bítlaáranna. Hann var einnig í Ðe lónlí blú bojs, Geimsteini, Rokkhljómsveit Rúnars Júl og GCD, svo nokkrar aðrar sveitir séu nefndar og hefur af mörgum verið nefndur sem einn mesti töffari sem íslenskt tónlistarlíf hefur alið.
Vissir þú að Þórir Georg Jónsson hefur gefið út fjölda platna undir nafninu My summer as salvation soldier?