
Pétur Sigurðsson tónskáld
Glatkistuafmælisbörnin eru þrjú talsins í dag:
Hvergerðingurinn og kennarinn Heimir Eyvindarson lagahöfundur og hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Á móti sól er fimmtíu og fimm ára gamall í dag. Hann hefur lengst af starfað með Á móti sól sem hefur starfað á þriðja áratug en einnig má nefna sveitir eins og Dansband EB, Jónas, Ljósmund, Pass (frá Mars), Lótus og Nonna & mannana.
Einnig á gítarleikarinn Ásgeir (Jón) Ásgeirsson afmæli á þessum degi en hann er fimmtíu og eins árs gamall. Ásgeir byrjaði í poppinu og lék þá með sveitum eins og Sóldögg en síðan tók djassinn yfir og hann hóf að leika með hljómsveitum í þeim geiranum eins og B3, Burkina Faso, Huld, Los, Out of the loop, The Multiphones og JP3. Ásgeir hefur sent frá sér nokkrar sólóplötur, þar af nokkrar með Balkan-tengdri þjóðlagatónlist.
Pétur Sigurðsson tónskáld frá Sauðárkróki (1899-1931) átti líka afmæli á þessum degi. Skagfirðingar hafa haldið minningu hans á lofti með ýmsum hætti, Skagfirska söngsveitin hefur t.d. haft lög hans á efnisskrá sinni og einhver þeirra gefið út á plötum sem og karlakórinn Heimir, sem Pétur stjórnaði reyndar um tíma.
Vissir þú að samkomuhúsið Krossinn í Njarðvík stóð á svipuðum stað og Hljómahöllin (Stapinn) stendur nú?