Stapi [tónlistartengdur staður] (1965-)

Frá vígslu Stapa haustið 1965

Félagsheimilið Stapi var lengi vel eitt allra vinsælasta samkomuhúsið í íslenskri sveitaballahefð og var ásamt Festi fremst í flokki á Suðurnesjunum. Húsið hefur gengið í gegnum miklar breytingar og er nú hluti Hljómahallarinnar í Reykjanesbæ.

Stapi (í daglegu tali nefndur Stapinn) var vígður í október 1965 en húsið hafði þá verið um sjö ár í byggingu sem þótti ekki mikið á þeim tíma enda höfðu þá Ungmennafélag Njarðvíkur og Kvenfélag Njarðvíkur safnað í byggingarsjóð um árabil með tekjum af skemmtanahaldi í Krossinum, jafnframt var húsið tiltölulega ódýrt í byggingu þar sem verkið var ekki boðið út heldur unnið af heimamönnum í tímavinnu. Húsinu var ætlað að taka við af Krossinum sem þá hafði verið samkomuhús Keflvíkinga um árabil en var þá að syngja sitt síðasta.

Húsið er staðsett í Ytri-Njarðvík en hefur yfirleitt verið kennt við Keflavík og er ótal leiðréttingar þess efnis að finna í dagblöðum frá ýmsum tímum þar sem Njarðvíkingar hafa eðlilega viljað hafa staðreyndirnar á hreinu. Hvatamaður að byggingu hússins var Ólafur Sigurjónsson hreppstjóri í Njarðvíkum en hann var lengi formaður UMFN (Ungmennafélags Njarðvíkur) en það félag stóð að baki byggingu hússins ásamt Kvenfélagi Njarðvíkur, hvort um sig átti 33% í því og sveitarfélagið einnig en Skátafélag Njarðvíkur átti 1%.

Stapinn 1969

Stapi sem upphaflega var tæplega 1300 fermetrar að grunnfleti var teiknaður af Sigvalda Thordarsyni, húsið hafði auk samkomusals sem hýsti um 500 manns í sæti, minni sali einnig og var fjölnota eins og títt var um þessi hús en einnig var önnur starfsemi í húsinu, t.d. mun bókasafn bæjarins hafa verið hýst þar. Nafn hússins er dregið af Vogastapa sem er staðsettur við sjávarsíðuna milli Njarðvíkur og Voga á Vatnsleysuströnd.

Strax helgina eftir vígslu hússins um haustið 1965 var fyrsti dansleikurinn haldinn þar en þar var á ferðinni hljómsveitin Pónik og Einar, líklega á þeim dansleik frumflutti sveitin lag eftir Keflvíkinginn Karl Hermannsson sem bar titilinn Léttur í lundu, lagið sem reyndar var upphaflega samið fyrir Dáta innihélt í upphafi línurnar: „Ég bauð þér á ball í Krossinn / þar bauðst mér fyrsti kossinn“ en í tilefni af nýja húsinu var því breytt í „Ég bauð þér á ball í Stapa / á því var engu‘ að tapa“, og þannig birtist textinn þegar lagið kom út á plötu 1968.

Þrátt fyrir að húsinu væri ætlað fjölnota hlutverk voru það einkum dansleikirnir sem urðu aðal tekjulind Stapans og einkum varð tímabilið 1969 til 1975 öflugt í því samhengi, þá hafði húsið einnig tekið við þeim ballgestum sem yngri voru og höfðu stundað samkomuhúsið Ungó en það hús var þá komð til ára sinna og að hruni komið. Segja má að böll hafi verið haldin í húsinu um hartnær hverja einustu helgi um tíma og voru þau böll af ýmsu tagi en allar helstu hljómsveitir landsins hafa leikið í Stapa og það oftar en einu sinni, og væri fróðlegt að sjá hverju margir dansleikir hafa verið haldnir í húsinu frá upphafi. Hljómsveitir allra kynslóða frá 1965 hafa spilað þar fyrir dansi og hér má nefna sveitir eins og Óðmenn, Hljóma, Stuðmenn, Sálina hans Jóns míns, Land og syni, Írafár, Greifana, Sumargleðina, Geimstein, Pelican, Paradís, Skítamóral og þannig mætti áfram lengi telja en þær skipta sjálfsagt nokkur hundruðum.

Auglýsing um stórdansleiki í Stapa

Stapinn hefur farið nokkrum sinnum í gegnum gagngerar endurbætur og ýmsar breytingar voru gerðar á því í tímans rás, þá fékk húsið vínveitingaleyfi árið 1990 (eftir að bjórinn var leyfður) og þá var opnaður bar í húsinu en fram að því höfðu svokölluð „flöskuböll“ ráðið þar ríkjum, ýmsir rekstraraðilar komu að því en sömu eigendur (UMFN, kvenfélagið og sveitarfélagið (og skátafélagið)) voru lengst af eigendur þess.

Um aldamótin hafði aðsókn að dansleikjum minnkað í Stapa eins og í öðrum félagsheimilum og sveitaböllin voru að líða undir lok, þá var húsið jafnframt í  niðurníðslu og vildu kvenfélagið og ungmennafélagið selja sveitarfélaginu sinn hlut. Af því varð ekki að sinni en nokkru eftir það var farið að vinna með þá hugmynd að stækka húsið og gera að að tónlistar- og ráðstefnumiðstöð enda hafði húsið menningarlegu hlutverki að gegna, ekki síst fyrir það að vagga íslenska bítlsins var í Keflavík.

Stapinn 1988

Árið 2006 var Stapinn seldur fasteignafélaginu Fasteign og var málið rammpólitískt enda selt að margra mati á undirverði, í kjölfarið hófust framkvæmdir og þá hafði verið ákveðið endanlega að byggja við húsið og í þeirri 3400 fermetra viðbyggingu stóð til að hafa tónlistarskóla bæjarins og popp- og rokkminjasafn (sbr. bítlabærinn Keflavík), Stapinn átti jafnframt áfram að gegna hlutverki félagsheimilis og þar var einnig farið í miklar endurbætur en saman átti húsið að fá nafnið Hljómahöllin sem þá bæði var vísun í tónlistarhugtakið hljómur og um leið í hljómsveitina Hljóma frá Keflavík.

Framkvæmdir hófust árið 2008 en gengu ekki alveg snurðulaust fyrir sig því síðar það ár skall á kreppa sem kunnugt er, og tafðist því verkið allmikið. Stapinn var þó tekinn aftur í notkun árið 2010 og Hljómahöllin sjálf var svo vígð snemma vors 2014. Þar er nú heilmikil starfsemi með tilkomu safnsins, tónlistarskólans og annarrar starfsemi.

Félagsheimilið Stapi er því enn í fullri starfsemi þótt hlutverk hans hafi tekið allmiklum breytingum frá því að hann var einn allra vinsælasti ballstaður landsins.