Skólahljómsveitir Tónlistarskóla Njarðvíkur (1976-99)

Skólahljómsveit Njarðvíkur 1980

Innan Tónlistarskóla Njarðvíkur störfuðu nokkrar hljómsveitir meðan skólinn starfaði og þar var fremst í flokki lúðra- eða skólahljómsveit sem lék víða og meðal annars erlendis í nokkur skipti.

Tónlistarskóli Njarðvíkur var stofnaður haustuið 1976 og þá strax var sett á laggirnar skólahljómsveit undir stjórn Arnar Óskarssonar. Sveitin varð fljótlega nokkuð öflug enda var óvenju hátt hlutfall ungs tónlistarfólks í Njarðvík viðloðandi tónlistarskólann, hún hafði nokkra fasta punkta í spilamennsku sinni og þ.á.m. voru vortónleikar en einnig lék sveitin oftsinnis utan skólastarfsins s.s. við 17. júní og 1. maí hátíðahöld sem og á sjómannadaginn – aukinheldur lék hún bæði í útvarpi og sjónvarpi á fyrstu starfsárum sínum. Hljómsveitin fór til Noregs til tónleikahalds (1980) í stjórnartíð Arnar og eftir að Haraldur Á. Haraldsson tók við stjórnartaumunum (og varð einnig skólastjóri tónlistarskólans) fór sveitin til Skotlands (1986), Þýskalands og Sviss (1989) og Hollands (1998).

Þegar skólahljómsveitin hafði starfað í nokkur ár hafði hún stækkað og eflst en um leið þurfti að stofna yngri deild innan hennar þar sem nokkurt hæfnisbil var á milli þeirra eldri og yngri, það var gert árið 1987 og annaðist Haraldur eldri nemendurna en yngri deildin var fyrst undir stjórn Stefáns Ómars Jakobssonar og síðar Geirþrúðar Fanneyjar Bogadóttur (1993-95), Einars St. Jónssonar (frá 1996-97) og David Nooteboom (frá 1997). Mest voru líklega hátt í fimmtíu nemendur í lúðrasveitunum tveimur. Þá var einnig stofnuð léttsveit innan tónlistarskólans árið 1988, tólf manna sveit skipuð þáverandi og fyrrverandi nemum við skólann undir stjórn Haraldar en hún hlaut svo nafnið Skemmtisveit Njarðvíkur. Þá voru jafnframt smærri sveitir starfandi innan blásaradeildarinnar, kvartettar, kvintettar o.s.frv.

Skólahljómsveit Tónlistarskóla Njarðvíkur

Árið 1989 var stofnuð sérstök gítarsveit við Tónlistarskóla Njarðvíkur og starfaði hún undir stjórn Þórarins Sigurbergssonar, hún var líklega ekki langlíf en langlífari varð strengjasveit undir stjórn Helle Alhof sem sett var á stofn 1990 en innan hennar störfuðu svo smærri einingar einnig. Þá var boðið upp á djasskennslu og níu manna jazzcombó stofnað árið 1992 sem starfaði undir stjórn Ástvaldar Traustasonar og síðar Ludvig Kára Forberg, og einnig var stofnuð sveit árið 1998 sem bar nafnið Litla-band, það var líklega léttpoppsveit en hún lék undir stjórn Jóns Björgvinssonar.

Vorið 1999 var Tónlistarskóli Njarðvíkur lagður niður og hann sameinaður Tónlistarskóla Keflavíkur undir nafninu Tónlistarskóli Reykjanesbæjar, skólinn hefur starfað síðan þá undir því nafni.