Skólahljómsveitir Tónlistarskólans í Keflavík (1957-99)

Lúðrasveit Tónlistarskólans í Keflavík

Fjöldi hljómsveita af ýmsum stærðum og gerðum störfuðu innan Tónlistarskólans í Keflavík meðan hann var og hét, skólinn er ýmist sagður hafa verið stofnaður 1956 eða 57 og starfaði hann til ársins 1999 þegar hann var sameinaður Tónlistarskóla Njarðvíkur undir nafninu Tónlistarskóli Reykjanesbæjar.

Ekki er alveg ljóst hvenær fyrst var starfrækt eiginleg hljómsveit innan Tónlistarskólans í Keflavík, árið 1967 var þar lúðrasveit undir stjórn Herberts H. Ágústssonar en ekki er ólíklegt að minni sveitir hafi þá áður verið í skólanum. Það sama vor (1967) kom fram lítil hljómsveit einnig en hún lék á vortónleikum skólans undir stjórn Ragnars Björnssonar þáverandi skólastjóra.

Lúðrasveit skólans starfaði nokkuð samfleytt næstu árin undir stjórn Herberts og líklega til ársins 1977 en þá gerðist hann skólastjóri skólans, sveitin kom töluvert fram og var áberandi jafnvel utan Keflavíkur en hún lék þá bæði í útvarpi og sjónvarpi á þessum árum – m.a. tvívegis í Stundinni okkar árið 1968. Engin lúðrasveit var starfandi innan skólans um nokkurra ára skeið eftir 1977 en Viðar Alfreðsson hafði stjórnað (og stofnað hugsanlega einnig) lúðrasveit sem gekk undir nafninu Barna- og unglingalúðrasveit Barnaskólans í Keflavík frá árinu 1977, haustið 1982 var ákveðið að sú sveit yrði hluti af starfsemi tónlistarskólans sem úr varð en Viðar var þar hvergi í samráði og hætti í fússi. Í framhaldinu tóku þeir Jónas Dagbjartsson og Björn R. Einarsson við stjórnun þeirrar sveitar sem iðulega var kölluð Unglingalúðrasveit Tónlistarskólans í Keflavík, og síðar varð Siguróli Geirsson stjórnandi hennar áður en Karen J. Sturlaugsdóttir tók við sveitinni.

Skólahljómsveitin 1986

Sveitin var yfirleitt mjög öflug og lék víða á tónleikum bæði innan og utan tónlistarskólans, og fór einnig í ferðir út fyrir landsteinana s.s. Danmerkur og Svíþjóðar (1988) og Frakklands (1994). Lúðrasveitin mun hafa innihaldið í kringum 30 hljóðfæraleikara og um tíma voru sveitirnar fleiri en ein, s.s. hljómsveit yngri nemenda sem gekk undir nafninu Litla lúðrasveitin og spilaði undir stjórn Sigrúnar Sævarsdóttur – og líklega voru tvær sveitir starfræktar með yngri nemendunum samhliða aðalsveitinni því önnur slík sveit starfaði um tíma undir stjórn Jóns Björgvinssonar. Lúðrasveit starfaði allt þar til skólinn var sameinaður tónlistarskólanum í Njarðvík sumarið 1999.

Léttsveit var stofnuð við tónlistarskólann um haustið 1988 og stjórnaði áðurnefnd Karen J. Sturlaugsdóttir þeirri sveit lengst af en einnig komu Veigar Margeirsson og síðar Ólafur Jónsson eitthvað að stjórnun hennar, sú sveit var öllu poppaðri en lúðrasveitin og var upphafspunktur fyrir ýmsa síðar þekkta tónlistarmenn (sjálfsagt eins og lúðrasveitin einnig) en meðal þeirra má nefna Veigar Margeirsson trompetleikara, Óskar Guðjónsson saxófónleikara og Baldur Guðmundsson hljómborðsleikara. Léttsveitin fór víða undir stjórn Karenar og t.d. til Bandaríkjanna í nokkur skipti en Karen er hálfur Ameríkani, sveitin vann sér það líka til afreka að leika á Rúrek-djasshátíðinni.

Einnig munu hafa verið starfandi innan skólans sveitir sem kallaðar hafa verið skólahljómsveitir og eru líkast til ekki hluti af ofangreindum sveitum, þannig var t.d. hljómsveit þess eðlis starfandi á síðari hluta áttunda áratuginn undir stjórn Árna Arinbjarnarsonar en þá var ekki lúðrasveit við skólann. Þess konar skólahljómsveitir komu einnig við sögu á leiksýningum Leikfélags Keflavíkur á söngleiknum Gretti árið 1989 og svo þegar tónlistarskólinn setti upp söngleiki eins og Jósef, Karnival dýranna o.fl.

Strengjasveit Tónlistarskólans í Keflavík 1988

Hljómsveitir alls annars eðlis voru jafnframt  starfandi við skólann og t.d. voru þar lengi strengjasveitir eða allt fyrir 1970 en þá störfuðu m.a.s. tvær slíkar sveitir samtímis undir stjórn Árna Arinbjarnarsonar og innihélt sú stærri um tuttugu nemendur. Strengjasveitir þessar voru starfræktar nokkuð samfleytt allan áttunda og níunda áratuginn og í seinni tíð undir stjórn Kjartans Más Kjartanssonar þáverandi skólastjóra, og síðar Oliver Kentish sem fór með slíka sveit til Danmerkur á hljómsveitamót. Þá voru auðvitað minni strengjasveitir eins og kvartettar og kvintettar einnig starfandi og það átti auðvitað við í blásaradeildinni einnig.

Djasssveit var sett á laggirnar um 1990 og starfaði hún nokkuð samfleytt af því er virðist til 1998, undir Kjartans Más og svo Ólafs Jónssonar. Um skeið starfaði þar einnig átta manna gítarsveit undir stjórn Þórarins Sigurbergssonar og svo liggja einnig fyrir heimildir um sveit sem gekk undir nafninu Bjórbandið og líkast til eins konar lítil lúðrasveit sem lék þá týrólatónlist eða eitthvað slíkt.

Af framangreindu má sjá að hljómsveitastarf var líflegt á þeim árum sem Tónlistarskóli Keflavíkur starfaði.