Skólahljómsveitir Samvinnuskólans á Bifröst (1955-87)

Fyrsta skólahljómsveitin á Bifröst 1955

Samvinnuskólinn á Bifröst starfaði undir merkjum Samvinnuhreyfingarinnar í áratugi, fyrst í Reykjavík frá 1918 en á Bifröst í Borgarfirði frá 1955 þar til skólinn var færður á háskólastig 1988 en þar starfar hann enn sem sjálfseignastofnun á háskólastigi.

Strax á Reykjavíkur-árum samvinnuskólans var eins konar félagslíf komið til sögunnar og á dansleikjum hans voru ýmist hljóðfæraleikarar úr skólanum eða utanaðkomandi hljómsveitir fengin til að leik fyrir dansi, því miður er engar upplýsingar að finna um þær skólahljómsveitir.

Eftir að skólinn fluttist að Bifröst í Borgarfirði varð félagslífið með allt öðrum hætti enda var um heimavistarskóla að ræða og því þurftu nemendur hans að vera sjálfir sér nægir um allt sem sneri að félagsmálum og afþreyingu, þess vegna var strax á fyrsta skólaárinu þar (veturinn 1955-56) starfrækt skólahljómsveit en athygli vakti að hún lék í einkennisbúningum. Það var tríó skipað þeim Sigfúsi Gunnarssyni trommuleikara, Grétari Björnssyni gítarleikara og Sigurði G. Sigurðssyni harmonikkuleikara en heimildir herma einnig að Haukur Harðarson harmonikkuleikari hafi komið við sögu þeirrar sveitar. Á þessum fyrstu árum voru einnig starfandi kórar og sönghópar, og höfðu reyndar verið á Reykjavíkur-árum skólans en sú umfjöllun á ekki heima hér fremur en Bifróvision söngkeppnin sem var söngvakeppni haldin í skólanum.

Skólahljómsveitin á Bifröst 1960-61

Næst herma heimildir að hljómsveit hafi starfað við skólann veturinn 1958-59, í henni voru Grétar Snær Hjartarson píanóleikari, Jón Illugason gítarleikari, Guðvarður Kjartansson trompetleikari og Sigurður Geirdal gítarleikari, sú sveit starfaði áfram næsta vetur á eftir (1959-60) og þá voru í henni auk Jóns og Guðvarðar, þau Ögmundur Einarsson píanóleikari, Kári Jónasson bassaleikari og söngvari (síðar fréttamaður Ríkisútvarpsin), Birgir Marinósson [?] og Ingibjörg Bjarnadóttir söngkona. Þessi sveit starfaði svo áfram utan skólans eftir útskrift meðlima hennar með breyttri skipan og gekk þá undir nafninu Kóral kvintett, mestmegnis á Norðurlandi

Veturinn 1960-61 var skólahljómsveitin skipuð þeim Birgi og Ögmundi, Júlíui Kr. Valdimarssyni klarinettuleikara, Elsu Kristjánsdóttur söngkonu, Pétri Ezrasyni [?] og Braga Ragnarssyni gítarleikara og starfaði sú sveit áfram veturinn á eftir með eitthvað breyttri liðsskipan en þessi sveit átti eftir að starfa áfram eftir Bifrastarárin undir nafninu Hljómsveit Birgis Marinóssonar. Veturinn 1960-61 var einnig önnur sveit starfandi innan samvinnuskólans, sú bar heitið Leirtríóið. Næstu skólahljómsveit Bifrastar skipuðu þeir Jóhann G. Jóhannsson gítarleikari (hinn eini sanni), Ragnar Magnússon trommuleikari, Gunnar Ólafsson píanóleikari og Hörður Haraldsson gítarleikari en sá síðast taldi var kennari við skólann, síðar komu í hana Sigurður Halldórsson gítarleikari, Matthías Garðarsson gítarleikari, Viðar Þorsteinsson söngvari og Jón B. Stefánsson trommuleikari. Enn síðar starfaði þessi sveit utan skólans (í Borgarnesi) með breyttri skipan og hlaut þá nafnið Straumar.

Skólahljómsveitin 1964-65

Skólaárið 1966-67 var enn starfandi hljómsveit innan skólans en í henni voru Sigurður Jónsson orgelleikari, Gísli Jónatansson gítarleikari, Guðmundur Jóelsson gítarleikari, Jónas Jónsson bassaleikari [?] og Guðmundur Páll Ásgeirsson trommuleikari, þessi sveit lék m.a. undir í Bifróvision sönglagakeppninni og líklega var það yfirleitt hlutskipti skólahljómsveitanna frá árinu 1960 þegar sú keppni var haldin í fyrsta sinn. Hljómsveitir Samvinnuskólans á Bifröst hafa að öllum líkindum fylgt tíðarandanum í tónlistarstefnum þess tíma og merki þess má einmitt sjá í hljóðfæraskipan sveitanna hér að ofan.

Litlar upplýsingar er að finna um skólahljómsveitir skólans í kringum 1970 en flestar sveitir áttunda og níunda áratugarins eiga það sammerkt að bera ekki lengur nafnið Skólahljómsveit Samvinnuskólans á Bifröst, Hljómsveit SVS eða eitthvað slíkt heldur hétu þær nöfnum alls ótengdum skólanum. Snemma á áttunda áratugnum var t.a.m. skólahljómsveit sem bar nafnið Eftir hádegi var kaffið á þrotum. Í kringum 1975 var skólahljómsveit starfandi við skólann en upplýsingar um hana eru mjög af skornum skammti, veturinn 1977-78 var það hljómsveitin The Kúkó kids og veturinn 1979-80 voru tvær sveitir á Bifröst – annars vegar kvennasveitin Sjö stjörnur án karlkyns sem reyndar var líklega ekki skólahljómsveit og svo hins vegar Capital en hún varð frægasta Bifrastarsveitin þegar hún breytti um og tók upp nafnið Upplyfting þegar hún sendi frá sér plötu vorið 1980. Upplyfting starfaði lengi innan skólans sem skólahljómsveit og m.a. slóst skólastjóri samvinnuskólans, Haukur Ingibergsson í hópinn en sveitin átti mikilla vinsælda að fagna og enn kyrja menn slagarann um trausta vininn sem getur gert kraftaverk. Upplyfting er enn starfandi.

Capital 1979

Fleiri hljómsveitir áttu eftir að starfa á Bifröst næsta áratuginn, Hrein mey með hland í fötu og strákahóp allt í kring var líklega skólahljómsveitin 1982-83, Hrygningarstofninn 1983-84, næsta skólaár 1984-85 var nafnlaus sveit, þá kom Sambandsmafían 1985-86 og svo Skræpótti fuglinn 1986-87 sem þá hefur að öllum líkindum verið síðasta skólahljómsveitin við Samvinnuskólann á Bifröst.

Að ofangreindu má sjá að nemendur skólans hafa ekki verið í miklum vandræðum með að manna hljómsveitir fyrir dansleiki og aðrar skemmtanir á Bifröst og er líklega leitun að öðrum eins fjölda af skólahljómsveitum við einn skóla hérlendis.