Skólahljómsveitir Tónlistarskóla Grindavíkur (1977-)

Skólahljómsveit Tónlistarskóla Grindavíkur 1981

Skólahljómsveitir hafa verið starfræktar við Tónlistarskóla Grindavíkur frá áttunda áratug síðustu aldar og hafa þær sveitir ýmist verið kallaðar skólahljómsveitir, blásarasveitir eða lúðrasveitir, einnig hafa minni sveitir starfað innan þeirra.

Tónlistarskólinn í Grindavík var stofnaður árið 1972 og var líklega fyrsta hljómsveitin innan skólans stofnuð haustið 1977, sú sveit lék undir stjórn Jóns. E. Hjaltasonar skólastjóra tónlistaskólans og var nokkuð öflug sveit sem lék víða um land (og erlendis) og m.a. í útvarpssal. Eldri deild var stofnuð innan sveitarinnar og hlaut nafnið Grindarvíkur-brass, hana skipuðu um tuttugu hljóðfæraleikarar en hópinn í heild um þrjátíu manns. Jón stjórnaði sveitinni til vorsins 1989 (fyrir utan tvö ár sem Hilmar Þórðarson var við stjórnvölinn 1983-85) en eftir það var engin hljómsveit starfrækt þar í tvö ár.

Lúðrasveit Tónlistarskóla Grindavíkur 1986

Það var svo Siguróli Geirsson, sem hafði tekið við tónlistarskólanum 1990 sem setti á fót nýja skólahljómsveit haustið 1991 og stjórnaði hann sveitinni sjálfur í nokkur ár eða þar til hann lenti í alvarlegu bílslysi haustið 1998, og lést reyndar árið 2001 af völdum þess. Sú sveit starfaði líklega fram á vorið 1999 en var þá lögð niður.

Litlar upplýsingar er að finna um starfandi skólahljómsveitir innan Tónlistarskóla Grindavíkur síðan þá en þó liggur fyrir að sveit sem nefnd hefur verið Lúðrasveit Grindavíkur starfaði innan skólans 2014 og líklega hafa verið þar starfandi virkar sveitir síðustu árin enda er skólinn öflugur með fyrirtaks aðstöðu til slíks.

Upplýsingar um starfsemi skólahljómsveita innan Tónlistarskóla Grindavíkur má gjarnan senda Glatkistunni.