Skólahljómsveitir Tónlistarskóla Hafnarfjarðar (1978-)

Skólalúðrasveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar 1987

Í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar hafa lengi verið starfandi hljómsveitir sem ýmist hafa verið skilgreindar sem blásarasveitir, lúðrasveitir, stórsveitir eða bara skólahljómsveitir. Þær hafa náð ágætum árangri, jafnvel verið virkar til langs tíma og leikið á fjölmörgum tónleikum og skemmtunum innan lands sem utan.

Tónlistarskólinn í Hafnarfirði hefur verið starfandi frá 1950 en ekki finnast þó heimildir um starfandi skólahljómsveit þar fyrr en 1978 en þá starfaði slík sveit undir stjórn Reynis Guðnasonar, ekki liggur fyrir hvenær hún var sett á laggirnar en meðlimir hennar voru um tuttugu talsins og starfaði hún til 1979 að minnsta kosti.

Næst kom Haraldur Á. Haraldsson við sögu sem stjórnandi þrjátíu manna skólahljómsveitar (á aldrinum 10-17 ára) í Hafnarfirði árið 1984 og eftir þetta virðist um nokkuð samfellda sögu sveitar að ræða við tónlistarskólanna og er hún iðulega kölluð Lúðrasveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar í fjölmiðlum en ekki skólahljómsveit skólans eins og fram að því.

Svo virðist sem Kristjana Ásgeirsdóttir hafi tekið við stjórn sveitarinnar af Haraldi og undir hennar stjórn tók hún m.a. þátt í uppfærslu skólans á barnaóperunni Eldmeyjunni en um 1990 kom til sögunnar Stefán Ómar Jakobsson sem lyfti sannkölluðu Grettistaki í starfseminni. Hann var með sveitina í allmörg ár og hefur reyndar verið viðloðandi tónlistarskólann allt til þessa dags. Um tíma var sveitin mjög öflug og fór í nokkur skipti m.a. til útlanda s.s. Frakklands,  Tékklands, Þýskalands, Svíþjóðar og víðar en hefur einnig verið mjög virk í spilamennsku og tónleikahaldi hér heima. Til langs tíma hefur lúðrasveitinni verið skipt niður í þrjár smærri einingar einnig, A, B og C sveit. Helga Björg Arnardóttir stjórnar lúðrasveitinni í dag.

Lúðrasveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar 2001

Árið 2001 var samhliða starfsemi lúðrasveitarinnar, stofnuð sameiginleg tuttugu og fimm manna hljómsveit Tónlistarskólanna í Hafnarfirði og Garðabæ sem fyrst starfaði undir léttsveitar hugtakinu en var síðar kölluð stórsveit. Garðbæingarnir stöldruðu ekki lengi við í sveitinni og líklega frá árinu 2005 hefur hún gengið undir nafninu Stórsveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Þá hefur einnig verið starfandi hljómsveit innan skólans síðustu árin undir nafninu Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sem og verkefni sem kallað er Tónkvísl en þar er áhersla lögð á rythmískt samspil.

Óskað er eftir frekari og fyllri upplýsingum um starfandi skólahljómsveitir innan Tónlistarskóla Hafnarfjarðar í gegnum tíðina.