Skólahljómsveitir Tónlistarskóla Árnesinga (1973-)

Skólahljómsveit Selfoss 1979

Skólahljómsveitir hafa verið starfandi innan Tónlistarskóla Árnesinga allt frá því hann var stofnaður árið 1955, málið er þó töluvert flókið að mörgu leyti því um margar hljómsveitir er að ræða og innan skólans hafa jafnframt verið starfandi deildir víða um Árnessýslu, sveitir starfandi innan deildanna undir ýmsum nöfnum og gerðum, og þær stundum í samstarfi hverjar við aðrar undir enn öðrum nöfnum.

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær hljómsveit var fyrst starfrækt við skólann sem bar heitið Tónlistarskóli Árnessýslu til ársins 1992, það hefur þó líklega verið veturinn 1973-74 en upplýsingar um þá sveit eru af afar skornum skammti. Skólaárið 1977-78 var þar einhvers konar lúðrasveit undir stjórn Ásgeirs Sigurðssonar sem um svipað leyti tók við skólastjórninni eftir að hafa verið kennari þar nánast frá stofnun skólans. Sú sveit var nefnd Skólahljómsveit Selfoss og átti eitt lag á safnplötunni Selfoss sem kom þá út og hafði að geyma blandað tónlist úr bæjarfélaginu. Svo virðist sem sveitin hafi gengið undir því nafni næstu árin en var á sama tíma einnig stundum kölluð Skólahljómsveit Tónlistarskóla Árnessýslu.

Blokkflautusveit Tónlistarskóla Árnesinga

Ekki liggur fyrir hvort hljómsveit starfaði alveg samfleytt við tónlistarskólann en á níunda áratugnum komu fleiri stjórnendur við sögu sem bendir til að þá hafi verið starfandi fleiri en ein sveit við skólann enda voru þá starfsdeildir orðnar víða um sýsluna og m.a. í Þorlákshöfn. Stjórnendur eins og Robert Darling og Jóhann Ingvi Stefánsson auk Ásgeirs hafa verið nefndir í því samhengi og þegar komið var fram á tíunda áratuginn er greinilega um eins konar samstarf milli skóladeilda að ræða innan tónlistarskólans því þá er t.a.m. starfandi sveit undir nafninu Skólahljómsveit Þorlákshafnar og Hveragerðis (1992). Það samstarf hefur líklega ekki verið langlíft því 1996 er hljómsveit í Þorlákshöfn nefnd Skólahljómsveit Þorlákshafnar, árið 1997 er m.a.s. talað um Skólalúðrasveit Suðurlands sem bendir til að um eins konar samstarf hafi þá verið að ræða – e.t.v. milli Selfoss, Þorlákshafnar og jafnvel Hveragerðis. Rétt er þó að geta þess að í Hveragerði var Skólahljómsveit Hveragerðis starfandi innan grunnskólans þar á árunum 1977-95 og gæti hún jafnvel átt heima í þessari umfjöllun, hér er þó giskað á að sú sveit hafi verið ótengd Tónlistarskóla Árnesinga.

Skólalúðrasveit Árnesinga 2015

Í kringum aldamótin bætast enn við nöfn þeirra sem stjórnuðu skólahljómsveit tónlistarskólans, hér má nefna Braga Vilhjálmsson, Gest Áskelsson, Helgu Sighvatsdóttur og Stefán Þorleifsson en auk þess voru starfandi fleiri og sérhæfðari sveitir innan skólans á nýrri öld, s.s. flautukvintett og blokkflautusveit, áfram var starfandi skólasveit í Þorlákshöfn sem einnig var nefnd Lúðrasveit Grunnskólans í Þorlákshöfn en hún heyrði þá einnig undir Tónlistarskóla Árnesinga.

Á síðustu árum hafa líklega verið nokkuð samfleytt starfandi hljómsveitir innan tónlistarskólans og árið 2011 var enn um samstarf að ræða milli Selfoss og Þorlákshafnar, í dag gengur sveitin undir nafninu Skólalúðrasveit Árnesinga. Þess má og geta að um árabil hafa verið starfandi lúðrasveitir bæði á Selfossi og í Þorlákshöfn sem meðlimir fyrrgreindra skólahljómsveita hafa skilað sér upp í, þær lúðrasveitir eru þó ekki hluti af skólahljómsveitastarfinu.

Af ofangreindu má sjá hversu flókið skólahljómsveitastarfið hefur verið í gegnum tíðina innan Tónlistarskóla Árnesinga og Glatkistan þiggur gjarnan fyllri upplýsingar um það til að geta varpað frekar ljósi á heildarmyndina.