Skólahljómsveitir Egilsstaða og Tónskóla Fljótsdalshéraðs (1984-)

Skólahljómsveit Egilsstaða og Tónskóla Fljótsdalshéraðs 1984

Hljómsveitir hafa verið starfandi í nafni Egilsstaðaskóla og Tónlistarskólans á Egilsstöðum í nokkur skipti en fyllri upplýsingar vantar þó um þá starfsemi til að unnt sé að gera henni almennileg skil í umfjöllun.

Haustið 1984 var stofnuð hljómsveit í samstarfi grunnskólans á Egilsstöðum (Egilsstaðaskóla) og tónlistarskólans sem þá bar nafnið Tónskóli Fljótsdalshéraðs. Magnús Magnússon sem hafði stjórnað tónskólanum frá stofnun 1971 stjórnaði sveitinni en hún starfaði líklega til ársins 1987 og var nokkuð öflug sem slík, lék á ótal tónleikum og tónlistartengdum samkomum. Þessi sveit var stundum kölluð Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs enda var um blásarasveit að ræða, hún var nokkuð fámenn í upphafi en óx ásmegin eftir því sem á leið.

Svo virðist sem engin skólahljómsveit hafi verið starfandi við skólann næstu árin en árið 1995 var strengjasveit við skólann sem titluð var skólahljómsveit, fáar heimildir finnast um þessa sveit en hún var undir stjórn Keith Reed um tíma, a.m.k. árið 1998 og hugsanlega lengur.

Skólahljómsveit Egilsstaða og Tónskóla Fljótsdalshéraðs

Engar upplýsingar er svo að finna um starfandi skólahljómsveit innan skólans fyrr en árið 2013 að þar var starfandi sveit undir nafninu Hljómsveit Tónlistarskóla Egilsstaða, sú sveit er strengjasveit undir stjórn Charles Ross sem eftir því sem best verður komist stjórnar henni ennþá en hún er tvískipt – annars vegar hin eiginlega hljómsveit og svo hin svokallaða Litla hljómsveit, þeirra sem styttra eru komnir.

Í dag er einnig starfandi Skólahljómsveit Fljótsdalshéraðs sem er samvinnuverkefni Tónlistarskóla Egilsstaða og Tónlistarskólans í Fellabæ en sú sveit hefur starfað undir stjórn Berglindar Halldórdsóttur. Þá hefur einnig verið starfandi frá árinu 2018 lúðrasveit innan skólans undir stjórn Sóleyjar Þrastardóttur, en hún ber nafnið Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs.

Eins og sjá má af ofangreindu má ætla að starfsemi skólahljómsveita innan tónlistarskólans hafi verið samfelldari og upplýsingar þ.a.l. mættu berast Glatkistunni, með fyrirfram þökkum.