Skólahljómsveitir Brúarásskóla (1995-2002)

Skólahljómsveit Brúarásskóla

Félagslíf í Brúarásskóla í Jökuldal á Norður-Héraði hefur yfirleitt verið í miklum blóma og þar hafa m.a. verið starfandi hljómsveitir í nafni skólans.

Þar var t.a.m. starfandi skólahljómsveit skólaárið 1995-96 og aftur ári síðar, og svo virðist sem jafnvel hafi fleiri en ein sveit verið þar starfandi seinna árið en um það leyti var Gréta Sigurjónsdóttir (oftast kennd við Dúkkulísurnar) kennari við skólann og hélt utan um tónlistarlífið þar í samstarfi við tónlistarskólann í Brúarási.

Árið 2002 var aftur hljómsveit starfandi við Brúarásskóla sem heimildir finnast um og voru meðlimir þeirrar sveitar þau Fannar Veturliðason gítarleikari, Steinunn Sigurðardóttir söngkona, Eyþór Stefánsson trommuleikari og Valdimar Veturliðason bassaleikari.

Þá hafa hljómsveitir eins og Frískamín, 0% englar og Algebra einnig starfað við skólann í gegnum tíðina.

Frekari upplýsingar um hljómsveitir í Brúarásskóla má gjarnan senda Glatkistunni.