Skólahljómsveitir Barnaskóla og Gagnfræðaskóla Akraness (1946-75)

Skólahljómsveit Akranes 1958

Hefð var fyrir því að skólahljómsveitir væru starfandi við barna og gagnfræðaskólana á Akranesi um árabil, bæði var um að ræða blásarasveitir en þó mestmegnis sveitir sem léku léttari tónlist s.s. bítlatónlist. Nokkrir síðar þekktir tónlistarmenn komu við sögu þessara sveita.

Elstu heimildir um hljómsveit við Gagnfræðaskóla Akraness eru frá því laust fyrir 1950 en árið 1946 eða 47 (að öllum líkindum) var þar starfandi skólahljómsveit sem innihélt m.a. Óðin G. Þórarinsson, sú sveit hlaut síðar nafnið Fjarkinn. Um svipað leyti eru heimildir um að drengjalúðrasveit hafi verið þar starfrækt en ekki liggur fyrir hvort sú sveit hafði einhverja tengingu við framangreinda hljómsveit.

Á sjötta áratugnum eru fjölmörg dæmi um starfandi skólahljómsveitir á Akranesi sem léku m.a. á árshátíðum skólanna, árið 1951 var mjög fjölmenn sveit í barnaskólanum (hátt í 30 manns) að mestu skipuð stúlkum sem léku á gítara og líklega um miðjan áratuginn var svo sett saman hljómsveit sem lék undir söng Ragnhildar Theodórsdóttur og Elísabetar Guðbjargar Karlsdóttur en sveitin var skipuð þeim Arnmundi H. Backman trommuleikara, Gunni Axelsdóttur píanóleikara og Ásgeiri Rafn Guðmundssyni harmonikkuleikara. 1955 lék einnig fjölmenn sveit sem að mestu var skipuð stúlkum sem léku á gítara, svipaða sögu er að segja af skólahljómsveit skólans 1956.

Skólahljómsveit Akraness

Árið 1957 léku Leifur Magnússon og Sigurður Magnússon á gítara, Elsa Jónsdóttir, Aldís Reynisdóttir, Helga Hugrún Árnadóttir og Valgerður Guðleifsdóttir allar á gítar og Gunnar Sigurðsson á trommur í slíkri hljómsveit við Barnaskóla Akraness og árið 1958 mun hafa verið fjölmenn hljómsveit gítar- og harmonikkuleikara sem lék á skemmtun innan skólans og þar var söngvari Gunnar Sigurðsson en hann varð síðar bæjarstjóri á Skaganum, það sama ár léku Hörður Þórleifsson gítarleikari, Bogi Sigurðsson gítarleikari og Ásgeir Rafn Guðmundsson píanóleikari einnig undir söng þeirra Gunnar Axelsdóttur, Árnýjar Kristjánsdóttur, Guðrúnar Fríðu Júlíusdóttur og Ásdísar Berg Einarsdóttur í gagnfræðaskólanum.

1959 var einnig skólahljómsveit starfandi við barnaskólann, sú innihélt þá Ketil Baldur Bjarnason harmonikkuleikara, Sigurstein Hákonarson harmonikkuleikara, Björgvin Trausta Guðmundsson hristuleikara, áðurnefndan Gunnar Sigurðsson söngvara, Sigurð Guðmundsson trommuleikara, Trausta G. Finnsson harmonikkuleikara og Karl J. Sighvatsson píanóleikara.

Rétt fyrir 1960 (líklega 1959) var stofnuð lúðrasveit við barnaskólann að frumkvæði skólastjóra skólans og gaf Rotary-klúbbur Akraness hljóðfærin í hana, sú sveit starfaði til ársins 1966 innan skólans en þá tók tónlistarskólinn á staðnum við rekstri hennar, þessi lúðrasveit varð til þess að fjölbreytnin varð meiri innan skólahljómsveitanna hvað hljóðfæraskipan varðar.

Skólahljómsveit 1964

Árið 1960 var skólahljómsveit gagnfræðaskólans skipuð þeim Gísla Sveinbirni Einarssyni gítarleikara, Sigríði [?], Kristni Dulaney og Lóu Gunnarsdóttur söngvurum, Friðriki Guðna Þórleifssyni trommuleikara, Gunnari Sigurðssyni píanóleikara og Arnmundi Backman ásláttarleikara. Þá var einnig starfandi sveit við barnaskólann en þá sveit skipuðu þau Björn Hallsson, Björgvin Trausti Guðmundsson, Einar Guðleifsson og Trausti G. Finnsson sem allir léku á harmonikkur, Sigurður Þórðarson hristuleikari, Guðmundur Hannesson trommuleikari , Emilía Ólafsdóttir söngkona og Sigrún Elsa Sigurðardóttir söngkona.

Á sjöunda áratugnum var jafnframt starfandi skólahljómsveit við barnaskólann (árið 1961) sem síðar varð að Dúmbó sextett árið 1963 – þessa sveit skipuðu Bragi Sigurdórsson harmonikkuleikari, Sigurður Edvarð Arnórsson harmonikkuleikari, Reynir Guðmundsson harmonikkuleikari, Ragnar Sigurjónsson trommuleikari, Björn Hallsson harmonikkuleikari og Karl J. Sighvatsson píanóleikari, það sama ár starfaði sveit við skólann sem síðar hlaut nafnið Kjarnar, sú sveit skartaði m.a. yngri bróður Karls, Sigurjóni Sighvatssyni.

Árið 1962 var skólahljómsveit starfrækt í gagnfræðaskólanum sem Finnbogi Gunnlaugsson gítarleikari, Ragnar Sigurjónsson trommuleikari, Björgvin Trausti Guðmundsson trompetleikari, Sigurður Guðmundsson saxófónleikari og Þórhallur Már [?] píanóleikari skipuðu. Önnur sveit var þarna starfrækt innan barnaskólans með þá bræður Karl og Sigurjón á píanó og trompet, Björn Hallsson saxófónleikara og Birgi Guðmundsson trymbil, í hljóðfæraskipaninni má þarna þegar sjá áhrif frá lúðrasveit skólans

Árið 1964 var hljómsveit í barnaskólanum og voru meðlimir hennar Sigurður Rúnar Sigurðsson trommuleikari, Sigurjón Sighvatsson trompetleikari, Guðjón Guðmundsson gítarleikari og Finnur Garðarsson píanóleikari, sömu meðlimir skipuðu sveit gagnfræðaskólans það árið en auk þess var Þórður Hilmarsson saxófónleikari með þeim. 1965 var hljómsveit skipuð þeim Pétri Péturssyni trommuleikara, Ragnheiði Þóru Grímsdóttur söngkonu, Bjarna Þór Bjarnadóttur gítarleikara, Smára Hannessyni gítarleikara, Indriða Valdimarssyni bassaleikara og Árna Ibsen Þorgeirssyni söngvara, hún starfaði einnig innan gagnfræðaskólans

Skólahljómsveit gagnfræðaskólans 1960

Einhvers konar blásara- eða lúðrasveit starfaði innan barnaskólans veturinn 1969-70 en upplýsingar um þá sveit eru af afar skornum skammti.

Eftir þetta virðist sem færri hljómsveitir hafi starfað innan Barna- og Gagnfræðaskólana á Akranesi. Um miðjan áttunda áratuginn var þó ein slík í gangi en allar líkur eru á að hún hafi verið lúðrasveit þar sem hún lék t.a.m. þegar kveikt var á jólatréi þeirra Skagamanna á aðventunni 1975. Engar frekari upplýsingar er þó að finna um þá sveit og er hugsanlegt að um lúðrasveit tónlistarskólans á staðnum hafi verið að ræða.

Síðar (1985) var stofnuð sameiginleg hljómsveit grunnskólanna á Akranesi og tónlistarskólans undir nafninu Skólahljómsveit Akranes.