Skólahljómsveitir Gagnfræðaskóla Akureyrar (um 1948-97)

Fjölmargar hljómsveitir störfuðu innan Gagnfræðaskóla Akureyrar en skólinn (sem gekk iðulega undir nafninu Gagginn meðal almennings) starfaði frá árinu 1930 til 1997 en þá var hann sameinaður Barnaskóla Akureyrar undir nafninu Brekkuskóli.

Elstu heimildir um skólahljómsveit innan skólans eru frá því um fyrir 1950 (hugsanlega 1947 eða 48) en þá starfaði þar sveit sem m.a. hafði að geyma sjálfan Ingimar Eydal en hann var þá líklega í mesta lagi tólf ára gamall. Ekki liggur fyrir um hverjir aðrir skipuðu þá sveit eða um aðrar sveitir næstu árin nema að í kringum 1955 var þar starfandi hljómsveit sem innihélt Hauk Heiðar Ingólfsson píanóleikara. Fimm árum síðar var Bjarki Tryggvason söngvari í sams konar sveit en frekari upplýsingar vantar um hana sem og um aðrar skólahljómsveitir sem störfuðu í nafni skólans.

Fjölmargar aðrar hljómsveitir urðu síðar til í skólanum og störfuðu utan hans, hér má nefna sveitir eins og Comet, Flúr, Kobba og Bobbana og síðast en ekki síst Gleðitríóið Ása sem síðar varð að 200.000 naglbítum.

Glatkistan óskar eftir frekari upplýsingum um skólahljómsveitir í Gagnfræðaskóla Akureyrar, sem án nokkurs vafa var mun fjöl- og margbreytilegri flóra heldur en hér er kveðið á um.