Skólahljómsveitir Gagnfræðaskóla Húsavíkur (1961-79)

Að minnsta kosti tvívegis störfuðu skólahljómsveitir við Gagnfræðaskóla Húsavíkur en skólinn var starfræktur undir því nafni frá 1945 til ársins 1992 þegar hann sameinaðist Barnaskóla Húsavíkur og fékk þá nafnið Borgarhólsskóli.

Árið 1961 var skólahljómsveit stofnuð undir nafninu GH-kvartett en GH stendur augljóslega fyrir Gagnfræðaskóli Húsavíkur, vitað er að Aðalsteinn Ísfjörð harmonikkuleikari og Steinrímur Hallgrímsson (sem líklega var söngvari) voru meðal meðlima sveitarinnar sem reyndar var einnig kvintett um tíma. GH-kvartettinn starfaði til 1963.

Haustið 1974 var hljómsveit starfandi í nafni skólans undir stjórn Tékkans Ladislav Vojta sem þá kenndi við tónlistarskólann á staðnum, líklega var ekki um að ræða blásarasveit þar sem Vojta stjórnaði þá einnig á sama tíma Lúðrasveit Gagnfræðaskóla Húsavíkur.

Vorið 1979 lék hljómsveit undir sýningu á leikritinu Nýársnóttinni e. Indriða Einarsson sem sett var á svið á vegum skólans en ekki er ljóst hvort sú sveit var sett sérstaklega saman fyrir þá sýningu, var starfandi sem skólahljómsveit eða var allt annars eðlis.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um fleiri skólahljómsveitir innan Gagnfræðaskóla Húsavíkur.