Skólahljómsveitir Gagnfræðaskóla Ísafjarðar (1950-70)

Skólahljómsveitir komu nokkuð við sögu Gagnfræðaskóla Ísafjarðar meðan sá skóli var og hét en hann var stofnaður árið 1931 og starfaði til 1983 þegar nafni hans var breytt í Grunnskóli Ísafjarðar.

Um 1950 var skólahljómsveit í skólanum en það var kvartett skipaður þeim Ólafi Kristjánssyni píanóleikara (síðar bæjarstjóra í Bolungarvík), Þórði Finnbjörnssyni trompetleikara, Kristjáni Jónssyni trommuleikara og Guðjóni Baldvini Ólafssyni harmonikkuleikara (síðar forstjóra SÍS), það var líklegast í fyrsta sinn sem hljómsveit starfaði við skólann.

Næstu heimildir um hljómsveit í skólanum eru ekki fyrr en veturinn 1963-64 en þá var gítarhljómsveitatímabilið í hámarki og bítlarnir skammt undan, sú sveit var skipuð þeim Samúel Einarssyni bassaleikara, Braga Baldurssyni [?], Hálfdáni Ingólfssyni [?] og Hermanni A. Níelssyni [?]. Ári síðar (1964-65) hafði sveitin tekið nokkrum breytingum, Hálfdán og Hermann voru enn í henni en nýir meðlimir voru Grettir Engilbertsson, Svanberg Jakobsson og Gunnar Bæringsson, sú sveit fékk svo nafnið The Noisemakers. Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um skólasveitina sem starfaði veturinn 1965-66 en sú sveit lék eitthvað utan skólans, t.d. á árshátíð Héraðsskólans á Núpi.

Næstu vetur á eftir störfuðu hljómsveitir undir ýmsum nöfnum í skólanum og voru þá um leið eins konar skólahljómsveitir, hér má nefna sveitir eins og Perluna og Trap en ekki er að finna upplýsingar um hljómsveitir innan Gagnfræðaskólans á Ísafirði eftir 1970 og er hér með auglýst eftir þeim.