Skólahljómsveitir Laugarnesskóla (1954-69)

Skólahljómsveit Laugarnesskóla – fiðlusveit

Tónlistarlíf í Laugarnesskóla (st. 1935) hefur alltaf verið fjölskrúðugt, einkum frá því um miðjan fimmta áratuginn þegar Ingólfur Guðbrandsson setti á stofn barnakór við skólann og kom á skólasöng sem hefur verið hefð þar allt til þessa dags.

Hljóðfærasláttur af ýmsu tagi var líka iðkaður innan skólans og skólaárið 1954-55 var líklega sett saman hljómsveit innan skólans í fyrsta sinn að frumkvæði þáverandi skólastjóra, Jóns Sigurðssonar. Það var fiðlusveit sem innihélt sautján unga fiðluleikara en hún lék á tónleikum í skólanum vorið 1955 undir stjórn Ruthar Hermanns en kennsla í fiðluleik hafði þá verið í boði síðan 1952. Þessi fiðlusveit starfaði áfram að minnsta kosti til vorsins 1956 en þá hafði fækkað lítillega í henni. Þetta er að öllum líkindum fyrsta hljómsveit sem starfrækt var innan barnaskóla á Íslandi.

Líklegt er að einhvers konar hljómsveitir hafi verið starfandi innan Laugarnesskóla nokkuð samfleytt eftir þetta en heimildir um þá næstu eru frá 1958 þegar blokkflautusveit undir stjórn Magnúsar Einarssonar lék á tónleikum innan skólans. Einnig liggur fyrir að skólahljómsveit/ir voru starfandi innan skólans á árunum 1960-63 en þá er líklegra að um öllu hefðbundnari hljóðfærasamsetningu hafi verið að ræða enda var þá rokkið með gítar, bassa og trommur sem hljóðfæraskipan komið til sögunnar, um þetta leyti voru m.a. Reynir Harðarson og Finnur Torfi Stefánsson meðal meðlima hljómsveitarinnar og léku þeir líkast til á trommur og gítar eins og þeir gerðu síðar.

Laugarnesskóli starfaði í upphaflegri mynd til ársins 1969, eftir það starfaði hann eingöngu sem barnaskóli en eldri nemendur gengu þá í Laugalækjarskóla upp frá því, líklegt er að fjölmargar hljómsveitir hafi starfað innan skólans til 1969 – þessu blómaskeiði bítla og blómabarna en upplýsingar vantar um þær og er því hér með óskað eftir þeim.

Saga Lúðrasveitar Laugarnesskóla (áður Lúðrasveitar Austurbæjar) er svo allt önnur saga.