Skólahljómsveitir Héraðsskólans á Núpi (1955-77)

Hljómsveitin Love í Héraðsskólanum á Núpi

Héraðsskóli var lengi starfræktur á Núpi í Dýrafirði en hann var stofnaður árið 1906 og tók til starfa í upphafi árs 1907, sr. Sigtryggur Guðlaugsson var stofnandi skólans og fyrsti skólastjóri hans en skólinn starfaði allt til ársins 1992.

Í Héraðsskólanum á Núpi var tíðum fjörugt félagslíf og þar starfaði fjöldinn allur af hljómsveitum í gegnum tíðina, sem sumar hverjar innihéldu meðlimi sem síðar urður þekktir tónlistarmenn.

Fyrsta hljómsveitin sem heimildir eru fyrir um var starfandi við skólann á árunum 1955-57 en um var að ræða tríó sem m.a. hafði að geyma harmonikkuleikara. Rokkið kom fljótlega vestur á firði eftir það og veturinn 1957-58 var þar starfandi skólahljómsveit með Guðberg Auðunsson sem söngvara en hann var þar að stíga sín fyrstu skref á söngbrautinni.

Báðar fyrst nefndu skólahljómsveitirnar voru nafnlausar af því er virðist og síðan kemur nokkurt gap í söguna því næsta sveit sem heimildir finnast um er frá skólaárinu 1967-68 en það var hljómsveitin Lords sem hafði m.a. að geyma Pétur Kristjánsson og Rúnar Þór Pétursson. Eftir það er nokkuð samfelld saga skólahljómsveita á Núpi allt fram á níunda áratuginn en þær störfuðu sumar hverjar áfram eftir að skólagöngu lauk, einhverjar þeirra hafa m.a.s. verið endurvaktar á síðari árum. Annað gap kemur í söguna á fyrri hluta níunda áratugarins en svo virðist sem síðasta hljómsveitin hafi starfað 1988-90 og var hún nafnlaus – var einfaldlega kölluð Skólahljómsveit Héraðsskólans á Núpi.

Meðal sveita sem störfuðu innan skólans má t.d. nefna Love, Rassa, Trénuðu kartöflurnar, Óla Fink, Mistök, Radíus, Zink og Síra Sigtrygg en nafn síðast töldu sveitarinnar er að sjálfsögðu rakið til stofnanda skólans og fyrsta skólastjórans, Sigtryggs Guðlaugssonar. Meðal þekktra tónlistarmanna sem störfuðu með hljómsveitum á Núpi má auk þeirra Guðbergs Auðunssonar, Péturs Kristjánssonar og Rúnars Þór Péturssonar sem þegar hafa verið nefndir, nefna Kristján Kristjánsson (KK), Sigga Björns, Þorleif Guðjónsson og Egil Ólafsson.

Lesendur Glatkistunnar mega gjarnan fylla upp í þær eyður sem hér er að finna um sögu skólahljómsveita á Núpi í Dýrafirði.