Sigtryggur Guðlaugsson (1862-1959)

Sigtryggur Guðlaugsson

Prófasturinn og menntaforkólfurinn Sigtryggur Guðlaugsson kemur víða við sögu en hann var mætti segja frumkvöðull í ýmsum þáttum samfélagsins hérlendis, hann stofnaði t.a.m. héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði og var framarlega í mennta-, bindindis- og félagsmálum, hann sýndi fram á að skóg- og skrúðgarðarækt væri möguleg í vestfirsku landslagi og síðast en ekki síst vann hann að tónlistar- og söngmálum hvar sem hann starfaði, t.d. með söngkennslu en auk þess samdi hann sjálfur tónlist.

Sigtryggur Guðlaugsson var fæddur á Þremi í Garðsárdal í Öngulstaðahreppi inn af Eyjafirði haustið 1862 og ólst þar upp við fremur kröpp kjör. Hann naut þó tilsagnar hjá Magnúsi Einarssyni organista á Akureyri í söngfræðum og orgelleik (harmóníum) og reyndar einnig lítillega á fiðlu um fermingu, þá mun  hann einnig hafa verið ágætlega fær á langspil og hörpu.

Sigtryggur varð organisti í sveitinni sinni aðeins 16 ára gamall og um það leyti hóf hann einnig að kenna yngri börnum í Öngulstaðahreppi en kennsla átti síðar eftir að verða að ævistarfi hans. Á þessum unglingsárum sínum stofnaði hann einnig söngfélag í hreppnum og hélt utan um það og kenndi um leið söng þannig að hann gegndi strax mikilvægu hlutverki í söngmálum átthaga sinna, jafnframt var hann duglegur að afla sér erlendra bóka um söngfræði og kynna sér málin þannig til hlítar. Samhliða þessu samdi Sigtryggur sín fyrstu sönglög og hóf einnig söfnun þjóðlaga, síðar aðstoðaði hann einnig sr. Bjarna Þorsteinsson við öflun slíkra laga sem rötuðu svo í bók þess síðarnefnda, Íslenzk þjóðlög.

Það var ekki fyrr en foreldrar Sigtryggs voru látnir að hann hóf sjálfur að huga að frekari menntun en hann fór suður til náms árið 1888 þá orðinn 26 ára gamall, fyrst í Latínuskólann (þar sem hann lærði m.a. söng hjá Steingrími Johnsen) og síðan í Prestaskólann þar sem hann lauk prófi og varð síðan prestur í Þistilfirði og Núpasveit en síðan í Köldukinn. Þegar hann missti (fyrri) eiginkonu sína úr berklum fluttist hann vestur í Dýrafjörð og tók þar við prestsembætti á Núpi 1904 en þar var bróðir hans búsettur. Á Núpi átti hann eftir að verða stórt nafn í samfélaginu, auk þess að sinna prestsstörfum stofnaði hann þar einnig ungmennaskóla sem síðar varð að Héraðsskólanum á Núpi sem starfaði allt til 1992 og gegndi mikilvægu hlutverki sem menntastofnun á Vestfjörðum. Sigtryggur var þar lengi skólastjóri og kennari, og þó ekki væri mikið um „aukafög“ kenndi hann þó söng í skólanum og þar stofnaði hann eins og í Eyjafirðinum söngfélag sem m.a. sá um söng í messum hjá honum, söng kenndi hann við skólann allt til 1936 kominn fast að 75 ára aldri.

Sigtryggur ásamt Sveini Björnssyni forseta

Sem fyrr segir samdi sr. Sigtryggur sjálfur lög og voru sálmalög hans stundum sungin við messuhald á Núpi, þá var hann jafnframt vel hagmæltur og samdi bæði bundið mál og laust. Þá fann hann sér tíma til að rita lærðar greinar um tónlist og nokkrar slíkar birtust í tímaritinu Tónlistin um miðjan fimmta áratuginn en þá var hann kominn á níræðisaldur. Hann starfaði sem prestur til ársins 1938 en sinnti sínu síðasta prestsverki árið 1954 þegar hann gifti Þröst son sinn (úr síðara hjónabandi sínu) og eiginkonu hans en Þröstur hefur einnig komið nokkuð að tónlist, hinn sonur þeirra hjóna Hlynur (veðurfræðingur) virðist ekki hafa sinnt tónlistargyðjunni.

Sigtryggur var samhliða prests- og skólastörfum ötull bindindismaður og stofnaði stúkufélag fyrir vestan og starfaði einnig fyrir ungmennafélagið á staðnum, en hann varð einnig landsþekktur fyrir tilraunir sínar í skóg- og garðrækt því hann gróðursetti ýmsar tegundir trjáa og annarra jurta í garði sem hann kom sér upp ásamt síðari eiginkonu sinni, og sýndi fram á að slíkt væri vel gerlegt á Vestfjörðum, garður hans ber nafnið Skrúður og er vel þekkt kennileiti á Núpi í Dýrafirði.

Séra Sigtryggur varð langlífur maður, hann lést sumarið 1959 á sjúkrahúsinu á Ísafirði en átti þá ekki margar vikur í 97 ára afmælið, en hann bjó á Núpi allt fram til dauðadags. Á 85 ára afmæli hans höfðu vinir hans og bróðir heiðrað hann með útgáfu sönglagaheftis með 70 sálmalögum eftir hann, útsett fyrir harmóníum og söng en það sem þótti e.t.v. merkilegast við þá útgáfu var að Sigtryggur hafði sjálfur handritað nótnaskriftina (og textann við lögin) þegar hann var á áttræðisaldri og var það að sögn kunnugra lýtalaust og mikil listaskrift. Lög hans eru lítt kunnug utan Vestfjarða og ekki liggja fyrir upplýsingar um að lög hans hafi verið gefin út á plötum, megnið af þekktum lögum hans munu vera sálmalög en hann mun þó einnig hafa samið fjölda veraldlegra sönglaga.

Sigtryggur Guðlaugsson var heiðraður með margvíslegum hætti í lifanda lífi fyrir afrek sín á ýmsum sviðum þjóðlífsins, þannig mun hann hafa fengið ýmsar heiðursviðurkenningar fyrir mennta-, bindindis- og félagsmál, sem og garðyrkju- og gróðurstörf en einnig kom út árið 1964 ævisaga hans, skráð af Halldór Kristjánssyni frá Kirkjubóli undir titlinum Sigtryggur Guðlaugsson prófastur og skólastjóri á Núpi: Aldarminning.

Þess má að lokum geta að á áttunda áratugnum (að öllum líkindum) var starfrækt hljómsveit við Héraðsskólann á Núpi sem bar einmitt nafnið Síra Sigtryggur.