Sigríður Thorsteinsson (1887-1944)

Sigríður Thorsteinsson

Sigríður Thorsteinsson var kunn sópran söngkona og kórstjórnandi með Íslendinga í samfélagi þeirra í Kanada en hún naut þar mikillar virðingar.

Sigríður (fædd Sigríður Karólína Haraldsdóttir en tók upp nafnið Sigríður Olson eftir að faðir hennar tók Olson nafnið upp) fæddist í Winnipeg í Manitoba í mars 1887. Hún lærði bæði söng og píanóleik og átti eftir að taka mikinn þátt í söng- og kirkjustarfinu í fæðingarbæ sínum áður en hún fluttist þaðan. Hún giftist árið 1912 Jóni Steingrímssyni Thorsteinsson og tók upp ættarnafn hans og kallaði sig eftir það Sigríði Thorsteinsson.

Þau hjónin bjuggu fyrstu búskaparárin í Kandahar í Saskatchewan en fluttust síðan til Wynyard þar sem þau bjuggu síðan en þar reis söng- og söngstjóraferill hennar hæst. Hún stjórnaði kórum og söngfélögum í Wynyard s.s. Söngfélagi íslensku kirkjunnar, stúlknakór United Church og fleiri kórum auk þess sem hún söng margoft einsöng með kórum sínum og hélt einsöngstónleika bæði í Wynyard, Kandahar og Mozart í Saskatchewan, þá fór hún víða um Kanada til að syngja við hinar ýmsu skemmtanir Íslendinga og annarra með kórum sínum og sem einsöngvari, hún tók jafnframt þátt í uppfærslum á söngleikjum, söng á þakkargjörðarhátíðarhöldum og Íslendingahátíðum svo dæmi séu tekin.

Sigríður Thorsteinsson lést eftir skammvinn veikindi haustið 1944.