Sigríður Friðriksson (1893-1918)

Sigríður Friðriksson

Sigríður Friðriksson (fædd Sigríður Jónsdóttir) píanóleikari og -kennari var af annarri kynslóð Vestur-Íslendinga en hún fæddist í Winnipeg í Manitoba fylki Kanada haustið 1893, hún tók upp fjölskyldunafnið Friðriksson að amerískum sið en faðir hennar hét Jón Vídalín Friðriksson.

Sigríður hóf að læra á píanó tíu ára gömul og aðeins fimm árum síðar var hún sjálf farin að kenna á hljóðfærið í Winnipeg. Hún þótti góð í starfi sínu og lék mikið undir hjá söngfélagi templara í borginni auk þess að starfa með kórum Íslendinga, þá mun hún hafa haldið einleikstónleika og oft til styrktar þeim sem á þurftu að halda s.s. fátæklingum og eldra fólki. Hún varð jafnframt organisti við Skjaldborgarkirkjuna svokölluðu í Winnipeg árið 1912 aðeins nítján ára gömul.

Sigríður varð ekki langlíf, árið 1917 giftist hún söngstjóranum Davíð J. Jónassyni og tók þá upp nafnið Sigríður Jónasson en hann hafði þá nýverið misst eiginkonu sína til fjölda ára, ári síðar lést Sigríður sjálf eftir veikindi aðeins tuttugu og fimm ára gömul um vorið 1918.

Litlar upplýsingar er að finna um Sigríði og svo virðist sem Íslendingabók hafi ekki neinar upplýsingar um hana.