Skólahljómsveitir Hafralækjarskóla (1980-2012)

Skólahljómsveit Hafralækjarskóla 1985

Skólahljómsveitir af ýmsu tagi störfuðu við Hafralækjarskóla í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu meðan hann starfaði undir því nafni frá árinu 1972 og allt þar til hann sameinaðist Litlu-Laugaskóla 2012 undir nafninu Þingeyjarskóli. Skólinn gegndi á sínum tíma afar mikilvægu hlutverki í þróun tónlistarstarfs innan grunnskóla og fjölmargt síðar þekkt tónlistarfólk skilaði sér áfram upp á yfirborðið í kjölfar þess.

Það var Guðmundur H. Norðdahl sem má kannski segja að sé faðir tónlistarinnar í Hafralækjarskóla en hann kom til starfa við skólann líklega haustið 1978. Hann hafði áður unnið heilmikið frumkvöðlastarf bæði í Keflavík og Garðahreppi (síðar Garðabæ) þar sem hann hafði kennt tónlist, og stofnað og stjórnað kórum og hljómsveitum, og segja má að hann hafi haldið því starfi áfram fyrir norðan.

Tónlistardeild var stofnuð við Hafralækjarskóla og fékk tónlistin mun meira vægi en ella innan hefðbundins skólastarfs, síðar var tónlistarskóli stofnaður innan skólans sem skilaði sér í öflugt samstarfi og tónlistarlífi sem smitaði frá sér til annarra skóla og vakti mikla athygli. Segja má að allir nemendur skólans (sem yfirleitt voru á bilinu 100-120 talsins) hafi komið að tónlistarstarfinu með ýmsum hætti, mismiklum þó.

Guðmundur sem kenndi við skólann til 1985 setti bæði á fót lúðrasveitir og hefðbundnar hljómsveitir af ýmsum stærðum og gerðum, og voru þá einnig minni blásarasveitir s.s. kvintettar o.fl. starfandi innan þeirra stærri. Við hans starfi tók Englendingurinn Robert Faulkner sem varð skólastjóri tónlistarskólans, hann hélt tónlistarstarfinu áfram ásamt eiginkonu sinni sem var m.a. undirleikari öflugs kórs sem þau hjónin stofnuðu við skólann. Þau störfuðu við skólann til 2007 og tók Gróa Hreinsdóttir við starfinu og gegndi því til ársins 2009 þegar tónlistarskólinn var lagður niður, tónlistardeild var þá aftur stofnuð við skólann en þá voru ráðin til starfa Mauricio Weimar og Kelly Garner frá Brasilíu sem héldu utan um tónlistarhlutann til 2011 en Hafralækjarskóli var sameinaður Litlu-Laugaskóla ári síðar og hefur síðan gengið undir nafninu Þingeyjarskóli..

Marimba sveit úr Hafralækjarskóla

Elstu heimildir um starfandi hljómsveit innan skólans eru frá vetrinum 1980-81 en hún gæti þó hafa verið stofnuð fyrr en hljómsveitir skólans, hvort þær voru stórar eða litlar komu iðulega að veglegri árshátíð sem haldin var síðla hausts en nánast frá stofnun skólans hafði verið sett á svið leikrit eða söngleikur í tengslum við árshátíðina þar sem foreldrum, öfum og ömmum var boðið, þær samkomur voru afar fjölmennar og nutu mikilla vinsælda. Sem dæmi um þetta má nefna óperur, söngleiki og leikrit eins og Ull í gull, Jónas í hvalnum, Amal og næturgestina, Óvita, Kardimommubærinn, Gretti, Óliver o.fl. en mikið fjölmenni kom að þessu metnaðarfullu sýningum alla tíð sem voru fastur liður í menningarlífi sveitarinnar langt fram á nýja öld. Stundum voru þessar sýningar settar upp í samstarfi við t.d. leikfélagið Búkollu og var þá jafnvel farið með þær út fyrir skólann til sýningahalds. Þá vöktu hljómsveitir skólans iðulega athygli og léku víða um land, t.d. lúðrasveitir skólans sem sóttu landsmót lúðrasveita en einnig einstaklingar innan tónlistardeildarinnar – þannig léku t.d. harmonikkuleikarar úr skólanum alloft á samkomum harmonikkufélagsins í sýslunni.

Árið 2003 vakti tónlistarverkefni tengt afrískri tónlist landsathygli en þá hafði norskur marimba-hópur komið í heimsókn í skólann til að kynna hljóðfærið og í kjölfarið voru keypt hljóðfæri og stofnaðar marimba-hljómsveitir innan skólans. Þetta voru sveitir eins og Ice marimba, Vipepe, Katzkasi, Nomwe, Nyoka og Inkose, sem sumar báru afrísk nöfn. Þessar sveitir vöktu athygli og fóru víða um land með marimba-námskeið og tónleika og fór Ice marimba einnig í því skyni til Hjaltlandseyja og Færeyja. Þær voru starfræktar um nokkurra ára skeið og var slík sveit enn starfandi innan skólans árið 2011 og hlaut þá viðurkenningu Nótunnar – uppskeruhátíðar tónlistarskólanna,

Nokkrar útgáfur litu dagsins ljós innan Hafralækjarskóla og er hér fyrst nefnd kassetta sem kom út árið 1989 með efni nemenda en hún telst ekki vera opinber útgáfa. Á henni er að finna frumsamið efni í bland við þjóðlög, popplög og sígild verk, sungin og leikin af kór og hljómsveitum skólans – bæði lúðra- og strengjasveitum sem og einleikurum. 2002 kom platan Bergnumin út en þótt hún sé í grunninum verk Kórs Hafralækjarskóla og gefin út í nafni hans er þar einnig að finna einsöng og hljóðfæraleik nemenda skólans. Ellefu fyrstu af sautján lögum plötunnar eru sungin af kórnum en hin sex eru með hljóðfæraleik nemenda, platan var gefin út í tilefni af 30 ára afmæli Hafralækjarskóla. Árið 2003 kom svo þriðja platan út – Africa on ice, tuttugu og þriggja laga plata með tónlist þriggja marimba-sveita skólans.

Tónlistarstarf Hafralækjarskóla gat af sér fjölda þekktra tónlistarmanna eins og greint er hér frá í upphafi og má hér nefna nöfn eins og Þórarin Má Baldursson, Örlyg Benediktsson, Borgar Þórarinsson, Odd Bjarna Þorkelsson og Þráin Árna Baldvinsson.

Efni á plötum