Star bitch (1995-97)

Star bitch

Hljómsveit sem bar nafnið Star bitch starfaði á árunum 1995-97 að minnsta kosti, og kom einu lagi út á safnplötu meðan hún starfaði.

Star bitch var rokksveit af höfuðborgarsvæðinu og var hún meðal keppenda í Músíktilraunum vorið 1996, meðlimir sveitarinnar voru þá Georg Erlingsson söngvari, Brynjar Óðinsson gítarleikari, Egill Rúnar Reynisson bassaleikari og Einar Valur Sigurjónsson trommuleikari. Sveitin komst í úrslit keppninnar og vakti þar mest athygli fyrir sviðsframkomu og klæðnað.

Ekki fór mikið fyrir sveitinni í kjölfar Músíktilrauna en hún átti síðar þetta sama ár lag á safnplötunni Lagasafnið 5, þar leikur Ólafur Garðarsson á trommur en að öðru leyti er sveitin skipuð sama mannskap. Þá var Star bitch meðal keppnissveita í Rokkstokk hljómsveitakeppninni sumarið 1997 en engar sögur fara af framgöngu hennar þar, hana er t.d. ekki að finna á plötu sem gefin var út í tengslum við keppnina.