Dægurlagakombóið (1994-)

engin mynd tiltækDægurlagakombóið var og er svolítið sérstök hljómsveit að því leyti að skipan hennar er sjaldnast sú sama. Ástæðan er sú að upphaflega var hún sett saman fyrir eitthvert eitt gigg árið 1994 sem heppnaðist vel, og í kjölfarið var sveitin bókuð á annað gigg þar sem aðrir hlupu í skarð þeirra sem forfölluðust. Þannig gekk þetta koll af kolli og því hafa menn komið og farið í gegnum Dægurlagakombóið eins og umferðarmiðstöð.

Heimavöllur Dægurlagakombósins hefur alla tíð verið Réttin í Úthlíð en sveitin hefur þó spilað víðar um Suðurlandið að minnsta kosti. Eftir því sem best verður vitað hefur sveitin aldrei hætt og kemur reglulega fram á árshátíðum og öðrum viðlíka viðburðum.

Sú hefð skapaðist fljótlega að kenna sveitina við trommuleikarann (t.d. Dægurlagakombó Birgis Jónssonar) en þar sem trymbillinn var sjaldnast sá sami tvisvar í röð lá beinast við að kalla sveitina bara Dægurlagakombóið.

Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu Dægurlagakombóið í upphafi en Hjörtur Freyr Vigfússon söngvari og gítarleikari [?] og Sigmundur Sigurgeirsson hljómborðs- og harmonikkuleikari voru áreiðanlega í þeirri útgáfu.

Meðal annarra sem komið hafa við sögu sveitarinnar eru trommuleikararnir Þorsteinn Aðalbjörnsson, Birgir Jónsson, Stefán Hólmgeirsson, Jóhann Bachmann og Baldvin A.B. Aalen, bassaleikararnir Sigurður Rúnar Samúelsson, Jón Ómar Erlingsson, Jón Örvar Bjarnason, Ólafur Þór Kristjánsson, Björn Sigurðsson og Árni Ólason, og gítarleikararnir Vignir Snær Vigfússon, Gunnar Ólason, Valur Einarsson og Bent Marinósson. Einnig gæti hljómborðsleikarinn Daði Georgsson hafa komið við sögu sveitarinn.

Sjálfsagt hafa mun fleiri farið í gegnum umferðarmiðstöðina Dægurlagakombóið og má gjarnan senda upplýsingar þar af lútandi.