
Sævar Sverrisson
Á þessum degi eru þrjú tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:
Fyrst skal telja söngvarann Sævar Sverrisson en hann er sextíu og sex ára gamall. Sævar hefur sungið með fjöldanum öllum af misþekktum hljómsveitum og margir muna eftir honum í hljómsveitinni Spilafíflum í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík. Meðal annarra sveita sem hann hefur verið í má nefna Galíleó, Amon Ra, Cirkus, Twist og bast, Lena, Mögulegt óverdós og Rabbabandið en hann hefur einnig unnið sólóefni.
Birgir Jónsson forstjóri og trommuleikari á stórafmæli en hann er fimmtugur í dag, hann hefur verið áberandi með hljómsveitinni Dimmu. Birgir hefur þó komið víða við í hljómsveitabransanum og eru Skepna, Nykur, XIII, P.P., Lóa Fimmboga, Dægurlagakombóið, Urmull og Af lífi og sál aðeins hluti þeirra sveita sem hann hefur leikið með.
Þá er hér að síðustu nefndur bassaleikarinn Ívar Snorrason sem þekktastur er fyrir framlag sitt í harðkjarnatónlistinni um og eftir aldamótin en þá lék hann með hljómsveitum eins og Gundog, Mínus, Ungblóði og Spitsign. Ívar fagnar fjörutíu og fimm ára afmælisdegi sínum á þessum degi.
Vissir þú að minnsta kosti fjörutíu kórar störfuðu meðal Íslendinga í Vesturheimi?