
Söngfélag Skaftfellinga í Reykjavík
Kór sá sem iðulega er kallaður Söngfélag Skaftfellinga í Reykjavík eða Skaftfellingakórinn hefur starfað í áratugi og er að mestu skipaður brottfluttum Skaftfellingum búsettum á höfuðborgarsvæðinu. Kórinn hefur gefið út nokkrar plötur og hefur margsinnis farið í söngferðir á átthagaslóðir og víðar.
Söngfélag Skaftfellinga var stofnað innan Skaftfellingafélagsins árið 1972 af Jóni Ísleifssyni en Skaftfellingafélagið hafði þá verið virkt átthagafélag á höfuðborgarsvæðinu síðan 1940 og hafði að geyma fólk frá Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum. Fyrst um sinn eða tvö fyrstu árin virðist kórinn hafa eingöngu verið skipaður karlmönnum en það breyttist líklega þegar til stóð að hann myndi syngja annars vegar á hátíðarhöldum austur í Skaftafellssýslum árið 1974 í tengslum við 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og við vígslu Skeiðarárbrúar og um leið opnun hringvegarins sem vissulega tengdist einnig 1100 ára afmælishátíðinni. Þar söng kórinn ásamt kirkjukórum úr sýslunni og varð blandaður kór skipaður um sjötíu manns, síðar var algengt um meðlimir hans væru um fjörutíu.
Jón Ísleifsson stofnaði sem fyrr segir söngfélagið og hann var einnig fyrsti stjórnandi kórsins og stýrði honum framundir lok áratugarins, í stjórnartíð hans söng kórinn oft á tónleikum og annars konar uppákomum bæði innan Skaftfellingafélagsins og utan, kórinn fór m.a. í söngferðir um átthagana oftar en einu sinni og það átti eftir að vera hluti af hefðinni hjá kórnum. Slíkar söngferðir voru oft í samstarfi við Rangæingakórinn og sungu kórarnir tveir í báðum (öllum) sýslunum, Skaftfellingakórinn fór jafnframt einnig í einhverjar tónleikaferðir norður yfir heiðar en það var öllu fátíðara. Þá var fastur liður í starfsemi hans að halda vortónleika á höfuðborgarsvæðinu og voru þeir tónleikar haldnir víða um borgina.
Þorvaldur Björnsson tók við starfi Jóns Ísleifssonar og stjórnaði Skaftfellingakórnum um nokkurra ára skeið en í hans tíð fékk söngfélagið æfingaaðstöðu í Skaftfellingabúð við Laugaveginn og var það mikill kostur fyrir alla æfingaaðstöðu kórsins æ síðan, það skilaði sér m.a. í fyrstu plötunni með kórnum sem kom út árið 1981 og bar titilinn Mín sveitin kær. Violeta Smid frá Búlgaríu tók vorið 1985 við af Þorvaldi og varð næsti stjórnandi kórsins og sá stjórnandi sem hefur verið lengst við stjórnvölinn en eiginmaður hennar, Pavel Smid varð jafnframt undirleikari hans. Í hennar stjórnartíð komu út tvær plötur með kórnum, annars vegar var reyndar um að ræða kassettu undir titlinum Á heimleið (árið 1995) og hins vegar geisladiskurinn Brimströndin sem kom út 2005. Violeta Smid var stjórnandi í liðlega tvo áratugi eða allt til ársins 2007 þegar Friðrik Vignir Stefánsson tók við kórstjórninni en hann er enn við stjórnvölinn þegar þetta er ritað. Ein plata hefur komið út með Skaftfellingakórnum undir hans stjórn, hún ber heitið Hér brosir döggin og kom út árið 2013 en lagavalið á henni er nokkuð léttara en á fyrri plötum kórsins sem voru helgaðar hefðbundnum kórlögum – á þessari plötu má t.d. heyra eldri dægurlög í meðförum hans og léku nokkrir þekktir tónlistarmenn á plötunni.
Söngfélag Skaftfellinga er því enn starfandi og í fullu fjöri.