Guðrún Tómasdóttir (1925-2022)

Guðrún Tómasdóttir

Guðrún Tómasdóttir sópran söngkona var með þekktustu einsöngvurum landsins síðustu aldar, hún sendi frá sér nokkrar plötur.

Guðrún fæddist á Hólum í Hjaltadal vorið 1925 en ólst upp í Mosfellssveitinni. Sem unglingur var hún í skóla í Reykholti í Borgarfirði og þar söng hún í kór, og söng einsöng í fyrsta skipti opinberlega. Á unglingsárum sínum dvaldi hún einnig á Ísafirði um tíma, virðist hafa verið þar hjá frænku sinni, Jóhönnu Johnsen þekktri söngkonu sem þá bjó fyrir vestan og raddþjálfaði m.a. Sunnukórinn sem Guðrún söng með. Annars var Guðrún af söngfólki komin og má geta þess að Ólafur Magnússon frá Mosfelli var einnig náfrændi hennar. Að loknu Ísafjarðartímabilinu fór Guðrún til Akureyrar þar sem hún lagði stund á nám við Menntaskólann á Akureyri, þar var hún allvirk í sönglífinu, söng með kór skólans og einnig einsöng á skemmtunum.

Að loknu stúdentsprófi fyrir norðan lá leið Guðrúnar loks suður á nýjan leik, hún hóf nám í læknisfræði en söngurinn var þá farinn að toga í hana og hún hóf að sækja söngtíma hjá Guðmundi Jónssyni og Sigurði Birkis án þess þó að fara af einhverri alvöru í slíkt nám þar sem það var of dýrt. Hún var virk í kórstarfi, söng með Útvarpskórnum, Tónlistarfélagskórnum og Dómkórnum, og kom stundum fram sem einsöngvari með kórum sínum.

Þar sem tónlistarnám var dýrt og ekki fengust styrkir til að fara í nám í Evrópu freistaði Guðrún gæfunnar, safnaði sér fyrir farmiða vestur um haf og hóf söngnám í New York þar sem hún átti eftir að vera næstu árin. Hún gat jafnframt unnið samhliða námi sínu sem hentaði vel, þótt hún héldi ekki einsöngstónleika ytra söng hún með kór og þegar Íslendingafélagið í borginni hélt skemmtanir var leitað til hennar.

Guðrún kom heim eftir námið árið 1958 og það haust varð hún strax áberandi í reykvísku sönglífi, hélt sína fyrstu einsöngstónleika í Gamla bíói og söng á fjölmörgum tónleikum. Í kjölfarið komst hún á stall með þekktustu einsöngvurum landsins og næstu árin var hún áberandi í tónleikahaldi, ýmist ein með undirleikara eða sem einsöngvari með hinum ýmsum kórum s.s. Alþýðukórnum, Kvennakór Akraness, karlakórnum Fóstbræðrum, Söngsveit Fílharmóníunnar, Kór Hallgrímskirkju og Pólýfónkórnum en hún var jafnframt meðlimur í síðasta talda kórnum og annaðist raddþjálfun hans, þá var hún einnig meðlimur Einsöngvarakórsins svokallaða. Með Pólýfónkórnum söng hún einsöng í verkum eins og Jólaóratoríu (Bach), Stabat mater (Vivaldi) og Jóhannesar passíu (Bach) sem flutt voru með stórum hljómsveitum. Guðrún söng ennfremur mikið í útvarpssal sem einsöngvari og hún var ein þeirra sem einkenndi „síðasta lag fyrir fréttir“. Hún söng á fyrstu Listahátíð í Reykjavík sem haldin var sumarið 1970, kom fram á tónleikum Musica nova og svo mætti áfram telja. Þess má í þessu samhengi geta að Guðrún söng einsöng með Kirkjukór Akraness sem fór til Betlehem og söng þar fyrstu íslenskra kóra, árið 1977.

Guðrún Tómasdóttir

Upp úr 1970 fór Guðrún að fá meiri áhuga á þjóðlagaarfinum og urðu þjóðlög úr ranni sr. Bjarna Þorsteinssonar hennar aðaleinkenni, e.t.v. fyrir tilstilli Engel Lund sem vakti mikla athygli á öllu því efni sem þar var að finna en Guðrún sótti söngtíma hjá henni um þetta leyti. Á þeim tíma var Guðrún flutt upp í Mosfellssveit á æskuslóðirnar, var farin að kenna við Varmárskóla og stjórna barnakór þar en áður hafði hún verið við Hagaskóla þar sem hún stjórnaði einnig kór, hún hafði þá líka kennt guðfræðinemum við guðfræðideild Háskóla Íslands og fengist við söngkennslu hjá Tónskóla þjóðkirkjunnar en því starfi sinnti hún í ríflega aldarfjórðung. Kassetta kom út með þeim Guðrúnu og Halldóri Vilhelmssyni á vegum Söngmálastjóra þjóðkirkjunnar árið 1980, þar sem þau sungu raddæfingar fyrir söngfólk undir titilinum Kóræfingin: Æfingar úr bók eftir Carl Eberhardt.

Um miðjan áttunda áratuginn hóf Guðrún að kynna lög Selmu Kaldalóns á tónleikum og árið 1978 sendi hún loks frá sér sína fyrstu plötu þar sem hún söng lög eftir þau feðgin, Sigvalda og Selmu Kaldalóns. Það var Fálkinn sem gaf þessa plötu út og voru undirleikarar með henni Ólafur Vignir Albertsson píanóleikari sem Guðrún hafði unnið mikið með, og Selma sjálf. Platan sem bar titilinn Sönglög eftir Sigvalda og Selmu Kaldalóns var síðan endurútgefin af Íslenskum tónum árið 2009 á geisladisk. Selma Kaldalóns lést af slysförum síðla árs 1984 og 1986 kom út eins konar minningarplata um hana, Má ég í fang þér færa: 24 sönglög eftir Selmu Kaldalóns en þar sungu nokkrir einsöngvarar lög hennar, Guðrún söng þar fjögur lög.

Árið 1978 kom út platan Íslenzk þjóðlög: Folk-songs of Iceland þar sem Guðrún söng tuttugu og sex þjóðlög við undirleik Ólafs Vignis. Þetta var vegleg útgáfa, tekin upp í útvarpssal og gefin út af Fálkanum, og hafði að geyma textana á íslensku og ensku. Hún fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og Helgarpóstinum og mjög góða í DV.

1977 hafði Guðrún sungið fjölmörg lög tengd ljóðskáldinu Þorsteini Valdimarssyni í útvarpssal að frumkvæði skáldsins en þar var um að ræða lög, ljóð og ljóðaþýðingar eftir hann. Þessar upptökur komu út árið 2015 að frumkvæði Guðrúnar sjálfrar undir titlinum Vor mitt, það er blæösp, auk nokkurra annarra upptaka sem höfðu verið gerðar áður – alls sautján lög. Ólafur Vignir Albertsson, Jónas Ingimundarson og Guðrún A. Kristinsdóttir léku með henni.

Guðrún Tómasdóttir

Auk ofangreindra platna má heyra söng Guðrúnar á ýmsum plötum öðrum s.s. safnplötunum Í laufskjóli greina (1997), Íslenskar söngperlur (1991) og Óskastundin 4 (2005).

Guðrún söng opinberlega lengi fram eftir aldri þótt tónleikahald væri ekki með jafn reglulegum hætti og fyrrum, þegar hún varð níræð söng hún t.a.m. dúetta með sveitunga sínum Diddú (Sigrúnu Hjálmtýsdóttur) á tónleikum í Mosfellsbænum, og hún var enn að syngja með Vorboðanum, kór eldri borgara í Mosfellsbænum langt fram á tíræðis aldurinn og stjórnaði kórnum reyndar um tíma einnig.

Guðrún var heiðruð með margvíslegum hætti fyrir störf sín í þágu tónlistarinnar, hún var t.a.m. bæjarlistamaður Mosfellsbæjar, var gerð að heiðursfélaga í Félagi íslenskra tónlistarmanna og hlaut fálkaorðuna svo dæmi séu nefnd. Þá kom út ævisaga Guðrúnar árið 2017, Söngurinn og sveitin: Guðrún Tómasdóttir segir frá, sem Bjarki Bjarnason skráði.

Guðrún lést sumarið 2022 en hún var þá á níutugasta og áttunda aldursári.

Efni á plötum