Gunnar Erlendsson [2] (um 1940-)

Gunnar Erlendsson

Gunnar Erlendsson var einn fjölmargra ungra rokk- og dægurlagasöngvara sem spratt upp á sjónarsviðið í kjölfar rokkbylgjunnar upp úr 1955.

Gunnar var líklega fæddur í kringum 1940 og var lýst sem Tommy Steele týpunni en hann kom þá gjarnan fram með gítar meðan hann söng. Gunnar kom líklega fyrst fram vorið 1957 og svo með reglulegum hætti fram á haust, ári síðar, hann söng t.a.m. með Orion kvintett í Breiðfirðingabúð, Hljómsveit Aage Lorange í Þórscafé og fleirum en einnig með sveit sem kallaðist E.S. kvartettinn og lék á dansleik í Félagsgarði í Kjós, þá kom hann eitthvað fram á Akureyri líka.

Gunnar Erlendsson hvarf jafn skjótlega af sjónarsviðinu haustið 1958 og hann hafði birst árið á undan, og ekki finnast neinar heimildir um að hann hafi sungið meira eftir þetta.