Geirmundur Valtýsson (1944-)

Geirmundur Valtýsson

Geirmundur Valtýsson telst vera þekktasti tónlistarmaður Skagafjarðar og um leið eitt helsta einkenni Sauðárkróks og nágrennis, og reyndar er svo að heil tónlistarstefna hefur verið kennd við hann, fjölmargir stórsmellir eru runnir frá Geirmundi auk fjölda breiðskífa en þær eru á annan tug, auk þriggja smáskífa.

Hjörtur Geirmundur Valtýsson er fæddur í Skagafirði (1944) og hefur búið þar alla tíð enda iðulega kenndur við fjörðinn. Hann ólst upp á Geirmundarstöðum í Sæmundarhlíð í Skagafirði og þar hefur hann haldið skepnur þrátt fyrir að hafa flutt þaðan inn á Sauðárkrók um miðjan áttunda áratuginn en fram að því hafði hann búið á jörðinni, hafði tekið við búinu af föður sínum.

Geirmundur var farinn að leika á harmonikku ellefu ára gamall en hann hafði lánshljóðfæri til að byrja með, hann var þrettán ára gamall þegar hann hóf að spila á dansleikjum með Gunnlaugi bróður sínum og fljótlega bættist trommuleikari í hópinn, þá færði hann sig yfir á gítar og kallaðist tríóið þá Rómó og Geiri. Sú sveit starfaði á árunum 1958 til 65 og lék víða á norðanverðu landinu, mestmegnis á heimaslóðum. Um svipað leyti (líklega 1958) léku þeir Gunnlaugur einnig við þriðja mann, Jóni [?] undir nafninu Ferguson-tríóið. Sumarið 1965 lék Geirmundur með hljómsveitinni Geislum á Sauðárkróki en sú sveit var skammlíf og fljótlega eftir það gekk hann til liðs við Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar en um það leyti fluttist hann til Sauðárkróks. Sú sveit starfaði ekki lengi eftir að Geirmundur gekk í sveitina og þegar hljómsveitarstjórinn Haukur hætti breyttu þeir félagar nafni sveitarinnar í Flamingó og störfuðu undir því nafni til ársins 1970, þar var Geirmundur söngvari og gítarleikari.

Geirmundur var á þessum tíma orðinn nokkuð þekktur í sveitinni fyrir hljómsveitastúss sitt og einhverju sinni þegar kvenfélagið í sveitinni hélt sína árlegu danslagasamkeppni (sem víðar varð að dægurlagakeppni Sæluviku Sauðárkróks) sem haldin var í upphafi árs fóru þær þess á leit við Geirmund að hann sendi lag í keppnina enda var þá útséð að annars félli keppnin niður þar sem fá lög höfðu borist. Hann tók þátt og þá urðu hans fyrstu lög til, meðal fyrstu laga hans var lagið Sólnætur en Pálmi Stefánsson sem um það leyti hafði reynt hafði að fá Geirmund til liðs við hljómsveitina Póló sem hann stjórnaði, fékk lagið hjá honum og það rataði á fjögurra laga plötu með Póló og Bjarka árið 1968. Þar með kom út fyrsta lag Geirmundar Valtýssonar.

Geirmundur á unglingsárum sínum

Geirmundur er að mestu sjálfsmenntaður á hljóðfæri sín en þótti efnilegur og músíkalskur og svo fór að hann var sendur suður til Reykjavíkur og naut þar leiðsagnar um tveggja vetra skeið í lok sjötta áratugarins, annars vegar nam hann harmonikkuleik hjá Gretti Björnssyni og hins vegar gítarleik hjá Berta Möller en Geirmundur var þá um sextán ára gamall.

Nokkur tímamót urðu á ferli Geirmundar við það að Flamingó lagði upp laupana, það varð til þess að hann stofnaði hljómsveit í eigin nafni, Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar, sem stofnuð var í ársbyrjun 1971 og hefur starfað síðan sleitulaust en með nokkrum mannabreytingum. Hljómsveit Geirmundar tók í raun við þar sem Flamingó sleppti og sveitin spilaði strax mikið en það átti eftir að vera eins konar aðalmerki Geirmundar og félaga.

Sem fyrr segir hafði Geirmundur byrjað að semja lög og tekið þátt í danslagakeppni kvenfélagsins, Pálmi Stefánsson (úr Póló) sem þá hafði stofnað Tónaútgáfuna fékk Geirmund til að taka upp fjögur frumsamin lög sem hann vildi gefa út á tveimur smáskífum, lögin voru tekin upp veturinn 1971-72 í Tannlæknasalnum í Reykjavík af Pétri Steingrímssyni og var það hljómsveitin Trúbrot sem annaðist undirleik á upptökunum undir stjórn Gunnars Þórðarsonar. Magnús Kjartansson var á þessum tíma einn meðlima Trúbrots og hann átti eftir að starfa náið með Geirmundi löngu síðar.

Fyrri smáskífan kom út um vorið 1972 og innihélt lögin Bíddu við og Ég vona það. Það er skemmst frá því að segja að fyrrnefnda lagið sló samstundis í gegn flestum að óvörum og var mest umbeðna lagið í óskalagaþættinum Lög unga fólksins um sumarið, Geirmundur og hljómsveit hans nýttu vinsældirnar vel og léku í troðfullum samkomuhúsum víða um land. Platan seldist jafnframt vel, í um þrjú þúsund eintökum og fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og Vikunni. Segja má að hún hafi komið Geirmundi á tónlistarkortið – í fyrra sinnið.

Um haustið kom síðari smáskífan út og um svipað leyti kom Geirmundur fram í sjónvarpsþætti, á plötunni voru lögin Nú er ég léttur / Nú kveð ég allt og hafði fyrrnefnda lagið átt að vera stórsmellurinn af þeim fjórum sem tekin höfðu verið upp en lagið hafði þá unnið til verðlauna í samkeppni kvenfélagsins. Lagið náði þó ekki nándar nærri eins miklum vinsældum og Bíddu við en er fyrir löngu orðið sígilt. Þessi smáskífa fékk fremur slaka dóma í Tímanum en ágæta í Morgunblaðinu, hún seldist í um tvö þúsund eintökum.

Geirmundur starfrækti hljómsveit sína næstu árin við nokkrar vinsældir einkum norðan heiða þar sem sveitin var m.a. fastur gestur á Húnavöku og Sæluviku Sauðkræklinga en að öðru leyti fór lítið fyrir honum hvað útgáfumál varðar. Árið 1976 fluttist hann inn á Sauðárkrók og hóf störf hjá Kaupfélagi Skagfirðinga þar sem hann varð síðar fjármálastjóri, eftir það gerði hann hljómsveit sína út frá Króknum.

Geirmundur í hljóðveri

Það var svo sumarið 1981 að út kom tveggja laga plata með Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar, Sumarfrí / Ferðalag en upptökur höfðu farið fram í Hljóðrita undir stjórn Sigurðar Bjólu, fyrrnefnda lagið heyrðist nokkuð spilað í útvarpi en að öðru leyti vakti platan litla athygli en styrkti þó stöðu hljómsveitarinnar á ballmarkaðnum. Ári síðar kom önnur plata út með sveitinni og að þessu sinni var um að ræða breiðskífu undir titlinum Laugardagskvöld. Titillagið náði nokkrum vinsældum en rétt eins og smáskífan frá árinu á undan var ekki um nein stórtíðindi að ræða í íslensku tónlistarlífi. Geirmundur samdi sjálfur um helming laganna en Tónaútgáfan gaf báðar plöturnar út.

Á þessum tíma höfðu vinsældir Geirmundur dofnað á þeim tíu árum sem höfðu liðið frá því að lögin Bíddu við og Nú er ég léttur höfðu komið út en sveit hans hafði þó verið nokkuð virk einkum á norðanverðu landinu, t.d. hafði hann leikið með hljómsveitum sínum í Miðgarði um verslunarmannahelgina síðan húsið var opnað 1968, einnig hafði Geirmundur gert nokkuð af því að koma fram ýmist einn eða með hljómborðsleikara en að öðru leyti fór lítið fyrir honum sem sólólistamanni.

Það var svo vorið 1986 að hjólin fóru að snúast fyrir alvöru og þá hófst það sem kalla mætti síðara vinsældaskeið Geirmundar, þá hafði verið ákveðið að Ísland tæki þátt í Eurovision söngvakeppninni og var þjóðin að sjálfsögðu spennt fyrir því enda höfðu Íslendingar lengi fylgst með keppninni af miklum áhuga. Geirmundur var meðal lagahöfunda með lagið Með vaxandi þrá sem Björgvin Halldórsson og Erna Gunnarsdóttir fluttu. Þó svo að lag Geirmundar ynni ekki undankeppnina (Gleðibankinn sigraði eins og flestir muna) var hann kominn á Eurovision kortið og lagið kom út á safnplötunni Skýjaborgir (þá í flutningi Geirmundar og Ernu). Með vaxandi þrá var undir áhrifum skandinavískrar sveiflutónlistar sem sigurlag keppninnar árið áður, lag hinna norsku Bobbysocks La det swinge var ort undir.

Geirmundur var þar með kominn á kortið á nýjan leik og ári síðar (1987) átti hann aftur lag í úrslitum undankeppninnar, það var Lífsdansinn (í flutningi Björgvins og Ernu) og lenti það framlag í fjórða sæti keppninnar, lagið var eins og hið fyrra ort undir sveiflutaktinum. Enn kom Geirmundur við sögu undankeppninnar árið 1988 og enn kom sveiflan við sögu, að þessu sinni í laginu Látum sönginn hljóma sem Stefán Hilmarsson söng og aftur hafnaði framlag Geirmundar í fjórða sæti. Hann hafði nú sent lög í keppnina í þrígang undir sama sveiflutaktinum og það ætti ekki að koma á óvart að fjölmiðlamenn færu að kenna sveifluna við Geirmund og Skagafjörðinn, og þá varð hugtakið „skagfirsk sveifla“ eða „Geirmundarsveiflan“ að veruleika þótt hann hefði engan veginn fundið hana upp, Geirmundur hefur síðan einnig gengið undir viðurnefninu Sveiflukóngurinn.

Fjórða árið, 1989 var undankeppni Eurovision með öðrum  hætti, sex lagahöfundum var boðið að senda inn lag og var Geirmundur meðal þeirra, reyndar voru þeir bara fimm þar eð Bubbi Morthens afþakkaði boðið. Lag Geirmundar að þessu sinni var Alpatwist í flutningi Bítlavinafélagsins en sr. Hjálmar Jónsson samdi textann rétt eins og hann hafði reyndar gert fyrir hin lögin þrjú. Alpatwist Geirmundar og Línudans Magnúsar Eiríkssonar skiptu með sér öðru og þriðja sætinu.

Geirmundur Valtýsson

Geirmundur hafði heldur betur hlotið athygli fyrir sína „skagfirsku sveiflu“ og því var varla um annað að ræða en að senda frá sér plötu og úr því varð loks haustið 1989. Sú plata var gefin út af Skífunni og hlaut nafnið Í syngjandi sveiflu og telst vera fyrsta sólóplata Geirmundar. Hún hlaut glimrandi viðtökur og á henni var að finna lögin fjögur sem hann hafði vakið athygli með í undankeppni Eurovision en aukinheldur var þar að finna stórsmelli eins og Ort í sandinn sungið af Helgu Möller, Ég syng þennan söng með Ara Jónssyni og Vertu, sem var flutt af Geirmundi og Helgu Möller, öll lögin voru eftir Geirmund en textarnir komu út ýmsum áttum þótt séra Hjálmar ætti um helming þeirra. Platan seldist gríðarlega vel, í um níu þúsund eintökum og var á meðal allra söluhæstu plötum ársins, hún fékk jafnframt þokkalega dóma í DV og tímaritinu Þjóðlífi og góða dóma í Morgunblaðinu.

Árið 1990 komst Geirmundur ekki inn í tólf laga úrslitakeppni Söngvakeppninnar en þar var hins vegar að finna Hörð G. Ólafsson fyrrverandi bassaleikara úr hljómsveit Geirmundar, sem sigraði keppnina að þessu sinni með lagið Eitt lag enn, sem jú var ort í þeim sama sveiflustíl og Geirmundur hafði svo oft reynt. Margir urðu þó glaðir þegar Geirmundur birtist ári síðar í keppninni (1991) með enn eitt sveiflulagið, Á fullri ferð en það hafnaði í áttunda sæti. Um haustið kom út önnur plata með Geirmundi sem bar einmitt sama titil, platan hlaut ágætar viðtökur en seldist þó ekki eins vel og platan sem kom út tveim árum fyrr. Á plötunni var að finna nýja útgáfu af laginu Nú er ég léttur en einnig þjóðhátíðarlag Vestmannaeyinga sem Geirmundur hafði samið, Þjóðhátíð í Eyjum en það hafði notið nokkurra vinsælda um sumarið, lagið Með þér var einnig nokkuð vinsælt.

Geirmundur var þarna kominn á nokkuð beina braut með stóran aðdáendahóp og trygga aðsókn á dansleikjum um land allt og því ekkert því fyrirstöðu að mjólka þann markað sem unnt var. Hljómsveit hans naut því heldur betur góðs af og gat nú valið úr feitustu bitunum, meðal annars á Þjóðhátíð í Eyjum og Landsmóti hestamanna svo dæmi séu nefnd. Þarna var líka hafið samstarf Geirmundar við Magnús Kjartansson sem einmitt hafði leikið inn á smáskífurnar tvær 1972 en Magnús annaðist útsetningar og hljómsveitarstjórn á plötum hans frá og með þeirri fyrstu frá 1989 og lengst af síðan.

Næstu árin á eftir voru eftir svipaðri forskrift, Geirmundur hélt sessi sínum sem hinn eini sanni sveiflukóngur, birtist enn og aftur í undankeppni Eurovision 1993 með lagið Bless, bless, bless (sem hafnaði í fjórða sæti) og var einnig áberandi næstu árin í dægurlagakeppni Sæluviku Skagfirðinga þar sem hann vann til verðlauna fyrir lög sín. Geirmundur hafði jafnframt með Eurovision lögum sínum sannað sig fyrir alþjóð sem lagahöfundur og aðrir tónlistarmenn fengu hann til að semja fyrir sig, nefna má sem dæmi Rökkurkórinn, Skagfirsku söngsveitina, Elly Vilhjálms og Hjördís Geirsdóttir. Geirmundur hefur einnig samið afmælislög (við texta annarra) fyrir Kaupfélag Skagfirðinga (sem Álftagerðisbræður fluttu) og Verslun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki, og þá hafa kórar (einkum norðlenskir) flutt vinsælustu lög hans á tónleikum.

Hljómsveit hans naut fádæma vinsælda og fyrir kom að sveitin væri bókuð tvö ár fram í tímann en hún lék nánast allar helgar allan ársins hring. Vinsældir Geirmundar og hljómsveitar hans áttu sér engin takmörk og meira að segja kom að því að söngskemmtunin Í syngjandi sveiflu var sett á svið á Hótel Íslandi (1993) og gekk þar við miklar vinsældir í nokkra mánuði, önnur sýning – Látum sönginn hljóma gekk einnig í Sjallanum á Akureyri um tíma.

Á sviðinu á Hótel Íslandi

Á næstu árum komu einnig út plötur með Geirmundi sem nutu nokkurra vinsælda þótt þær fengju kannski ekki alveg jafn góðar viðtökur og Í syngjandi sveiflu frá árinu 1989. Árið 1993 kom t.d. út plata á vegum Japis sem hét einfaldlega Geirmundur en svo brá við að Vilhjálmur Guðjónsson annaðist hljómsveitarstjórn og útsetningar að þessu sinni, hún fékk þokkalega dóma í DV og Degi. Tveimur árum síðar kom út safnplatan Lífsdansinn og var átján laga, Skífan gaf hana út og þar var m.a. að finna lagið Bíddu við í endurhljóðblandaðri útgáfu. Á flestum plötum Geirmundar er að finna samansafn þekktra söngvara auk hans sjálfs og eru þau Helga Möller, Erna Gunnarsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Ari Jónsson og fleiri fyrirferðamikil í því hlutverki, sama mætti segja um hljóðfæraleikinn sem oftar en ekki var í höndum þeirra Mezzoforte-liða Friðriks Karlssonar gítarleikara, Gunnlaug Briem trommuleikara og Eyþórs Gunnarssonar hljómborðsleikara auk annarra undir stjórn Magnúsar Kjartanssonar eða Vilhjálms Guðjónssonar. Segja má því með sanni að söngur og hljóðfærasláttur sé iðulega í hæsta gæðaflokki.

Haustið 1997 kom enn ein platan út, hún bar titilinn Bros og seldist í um fjögur þúsund eintökum, hún hlaut góða dóma í Morgunblaðinu. Lagið Línudans með Línu, sungið af Snörunum, naut þar einna mestra vinsælda en svokölluð „línudansavakning“ stóð þá sem hæst. Lagið Lukkuhjólið heyrðist einnig nokkuð leikið í útvarpi en það söng gamla brýnið Rúnar Júlíusson sem einmitt hafði leikið á bassa með Trúbrot á smáskífunum tveimur frá 1972, Rúnar söng einnig á næstu plötu Geirmundar.

Árið 1998 samdi Geirmundur sitt annað þjóðhátíðarlag fyrir Vestmannaeyinga við texta Guðjóns Weihe, sem einnig hafði samið textann við lagið 1991. Hljómsveit Geirmundar var aðalhljómsveit litla sviðsins á þjóðhátíðinni en lagið náði ekki viðlíka vinsældum og fyrra þjóðhátíðarlag Geirmundar. Það kom út á næstu plötu hans, Dönsum sem kom út 1999. Hún hlaut ágæta dóma í Degi og þokkalega dóma í Morgunblaðinu og degi en vakti ekki mikla athygli, sem fyrr samdi Geirmundur tónlistina en Kristján Hreinsson samdi textana en þeir störfuðu heilmikið saman um tíma. Um þetta leyti var Geirmundur farinn að prófa sig áfram með aðrar tónlistarstefnur eins og salsa og kántrítónlist sem hann hafði að vísu gælt við í nokkurn tíma, þannig kom hljómsveit hans fram á kántríhátíðinni Country festival sem haldin var á Broadway, auk fleiri viðlíka hátíða. Þess má geta að um haustið 1999 var sett á svið jólaleikrit á vegum Leikfélags Akureyrar og var Geirmundur fenginn til að semja lokalag þess, sem bar heitið Jólastuð.

Næsta plata Geirmundar, Alltaf eitthvað nýtt kom út haustið 2002 og var lítið áberandi í plötuflóðinu, hún fékk þokkalega dóma í DV en titill plötunnar vakti þeim mun meiri athygli og lagði gagnrýnandi Morgunblaðsins út frá titlinum í dómi sínum um plötuna sem annars fékk þar ágæta dóma, hann vildi meina að um húmor Geirmundar væri að ræða en sá vildi ekki kannast við það þegar hann var inntur eftir því í viðtali, og sagði reyndar að útsetningar og hljómur plötunnar væru með nýjum og ferskum hætti. Í sama viðtali boðaði Geirmundur að næsta plata gæti orðið harmonikkuplata, sem svo varð en hún kom út árið eftir (2003) og hét Ort í sandinn: harmonikkuplata með Geirmundi Valtýssyni. Á þeirri plötu annaðist Árni Scheving upptökustjórn og útsetningar auk þess að stjórna hljómsveit sem lék með Geirmundi. Platan seldist vel og fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu en hún hafði að geyma tíu þekkt lög Geirmundar og fimm þekkta harmonikkustandarda.

Geirmundur Valtýsson

Vorið 2004 fagnaði Geirmundur Valtýsson sextíu ára afmæli með stórri afmælisveislu í formi stórtónleika sem voru um leið útgáfutónleikar í tilefni af útgáfu þrettán laga plötunnar Látum sönginn hljóma: Sönglög eftir Geirmund Valtýsson. Útgáfa plötunnar ein og sér þótti svosem ekki fréttaefni en fjöldi afmælisgesta var það hins vegar því talið er að um fjórtán hundruð manns hafi mætt í veisluna sem mun vera einsdæmi.

Næsta plata, Nú er ég léttur: Bestu lög Geirmundar Valtýssonar var tvöföld safnplata sem Skífan gaf út árið 2005 undir merkjum Íslenskra tóna en útgáfufyrirtækið hafði þá gefið út plötur Geirmundar frá árinu 1989 að einni undantekningu undanskilinni. Þessi plata var endurútgefin 2019 með breyttu plötuumslagi.

Dansleikjarútína Geirmundar hafði á þessum tíma þróast nokkuð frá því um 1990 en hljómsveit hans spilaði nú orðið mun meira á höfuðborgarsvæðinu en áður, þar voru skemmtistaðir á borð við Kringlukrána, Players, Spot o.þ.h. mest áberandi en dansleikir landsbyggðarinnar voru mestmegnis í formi árstíðarbundinna balla eins og þorrablóta, réttardansleikja og árshátíða, það má svo ekki skilja sem svo að minna hafi verið að gera hjá sveitinni en mynstrið hafði breyst töluvert. Þess er einnig vert að geta að Geirmundur starfrækti orðið tvær hljómsveitir um þetta leyti, eina sem sinnti landsbyggðinni (einkum Norðurlandi) og aðra sem starfaði á höfuðborgarsvæðinu. Einnig kom fyrir að Geirmundur kæmi fram ýmist einn eða ásamt trommuleikara en lék þá sjálfur á harmonikku eða hljómborð en hann hafði frá árinu 1988 fært sig af gítarnum yfir á hljómborðið með hljómsveit sinni.

Og enn var tilefni til afmælishátíðahalda, árið 2008 hélt Geirmundur tónleika í tilefni af fimmtíu ára sviðsafmæli eins og það var kallað en þá var hálf öld liðin frá því að hann steig fyrst á svið með hljómsveit sinni, Rómó og Geira. Tónleikarnir sem haldnir voru á Sauðárkróki um vorið voru vel sóttir en þeir voru hljóðritaðir og myndaðir og síðan gefnir út á tvöföldum geisla- og mynddiski undir titlinum Alltaf léttur: á sviðinu í 50 ár. Það var útgáfufélagið Listalíf sem gaf herlegheitin út en myndefnið var unnið af Gísla Sigurgeirssyni, þar var um að ræða tónleikana auk 45 mínútna heimildamyndar um Geirmund.

Nokkur bið var á að Geirmundur sendi næst frá sér plötu en hann var þó alltaf jafn virkur í spilamennskunni ásamt hljómsveitum sínum og með ólíkindum hversu mikið einn maður hefur áorkað í ballspilamennsku samhliða fullu starfi fjármálastjóra og með frístundabúskap að auki, talað hefur verið um að hljómsveitir hans leiki að jafnaði fimmtíu helgar á ári. Þá hefur hann einnig fengist við veislustjórn og kynnisstörf ýmis konar í tengslum við dansleikjahald. Tvær uppákomur Geirmundar hafa vakið nokkra athygli á síðari árum, annars vegar þegar hann kom fram á þorrablóti sem haldið var á Prikinu (2009), hins vegar á tónlistarhátíðinni Gærunni.

Áður hefur verið nefnt að annað tónlistarfólk hafi fengið lög Geirmundar til flutnings á plötum sínum en hann hefur einnig komið við sögu á plötum með öðrum tónlistarmönnum, hann söng og lék á harmonikku til að mynda á plötu með lögum Ögmundar Svavarsson (2000) og lék á nikkuna á plötu dúettsins Braks (2004).

Geirmundur á sviði

Árið 2013 var leikrit Sæluviku Skagfirðinga byggt á lögum Geirmundar Valtýssonar og bar sýningin nafnið Tifar tímans hjól en Geirmundur hafði samið eitt lag sérstaklega fyrir leikritið. Sama ár flutti Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps dagskrá með lögum hans á nokkrum tónleikum við undirleik hljómsveitar sem Skarphéðinn Einarsson setti saman af sama tilefni. Geirmundur samdi einnig lag fyrir kórinn en plata með söng hans kom út og hét Látum sönginn hljóma. Fyrir jólin 2013 sendi Geirmundur sjálfur frá sér plötu, jólaplötuna Jólastjörnur Geirmundar Valtýssonar. Geirmundur gaf þessa plötu út sjálfur en það var í fyrsta skipti sem hann stóð sjálfur í plötuútgáfu. Platan var þrettán laga og komu textarnir úr ýmsum áttum en það vakti athygli að Geirmundur samdi sjálfur tvo texta, platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu. Þegar platan kom út hafði Geirmundur á orði í viðtali að hann hefði hug á að gefa út barnaplötu, af því hefur þó ekki orðið.

Haustið 2015 kom út plata sem bar titilinn Skagfirðingar syngja en á henni hóaði Geirmundur saman hæfileikafólk á ýmsum aldri úr Skagafirðinum til að syngja ný lög eftir sig, eins og á jólaplötunni orti Geirmundur tvo textana sjálfur. Meðal þekktra Skagfirðinga á plötunni má nefna Álftagerðisbræður og Hreindísi Ylfu Garðarsdóttur en þar sungu einnig tvö barnabörn Geirmundar. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Síðan 2015 hefur Geirmundur ekki sent frá sér nýtt efni á plötum en hann er þó fráleitt hættur spilamennsku þótt hann sé kominn vel á áttræðis aldur, tónleikar í tilefni af sjötíu og fimm ára afmæli hans voru t.a.m. haldnir 2019. Alþýðlegt landbyggðarpopp hans, og einkum hin skagfirska sveifla sem hann er auðvitað hvað þekktastur fyrir, lifir enn góðu lífi og ekkert er því til fyrirstöðu að það verði áfram, og hafa vinsældir hans jafnvel borist til Færeyja. Lög Geirmundar hafa hljómað með þjóðinni síðan 1972 og teljast vera útgefin um hundrað og fimmtíu talsins.

Geirmundur hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarmála í Skagafirði og raunar í landinu öllu, stærst viðurkenninga er án efa fálkaorðan (árið 2016) en einnig má nefna það sem nefnt er heiðursmerki Sauðárkróks sem hann hlaut 1997. Til gamans má þess einnig geta að Geirmundur fékk afhendan skjöld frá félagsheimilinu Víðihlíð í Skagafirði þegar hann hafði leikið þar hundrað sinnum – það var árið 1969. Síðan þá hefur hann bætt við öðrum hundruð skiptum fyrir löngu síðar.

Auk þeirra fimmtán breiðskífa og þriggja smáskífa sem komið hafa út með lögum Geirmundar, hafa fjölmörg laga hans komið út á plötum annarra auk fjölda safnplatna í gegnum tíðina, Eurovision-tengdar plötur eru meðal þeirra en einnig fjöldi annarra.

Efni á plötum