Sverrir Stormsker (1963-)

Sverrir Stormsker 1982

Það eina sem hægt er að segja með nokkurri vissu um tónlistarmanninn Sverri Stormsker er að hann er umdeildur, hann er algjörlega óútreiknanlegur og þrátt fyrir að flestir séu sammála um hæfileika hans til að semja grípandi melódíur og vel orta texta sem lúta yfirleitt bragreglum til hins ítrasta að þá hefur hann í gegnum tíðina haft einhverja óútskýranlega þörf fyrir að ögra með kynferðis- og rasískum hætti svo segja má að margir þeirra sem áður kunnu að meta hann hafi snúið baki við honum – þannig má segja að viðhorfið gagnvart honum skiptist algjörlega í tvennt og hefur heldur hallað á hann með árunum í því samhengi. Sverrir var um tíma ótrúlega afkastamikill tónlistarmaður á meðan hann var að vinna sig niður úr þeim lagalager sem hann hafði komið sér upp á unglingsárunum, hann gaf út átta plötur á árunum 1985 til 90 (þar af eina tvöfalda) en um leið þótti hann agalaus og hroðvirkur í vinnslunni á plötum sínum – sem þó gáfu af sér hvern stórsmellinn á fætur öðrum, vel á annan tug laga sem sum hver lifa enn ágætu lífi þrátt fyrir misjafnt orðspor hans.

Sverrir Stormsker (Sverrir Ólafsson) er fæddur í Reykjavík haustið 1963, hann var reyndar ekki skírður fyrr en á sjötta ári og mun hafa valið nafn sitt sjálfur og tók svo upp Stormskers-nafnið á unglingsárunum. Hann ólst upp í Vesturbænum og hefur margoft sagt frá því í viðtölum að hann hafi verið hrekkjóttur í æsku og var framan af kallaður Láki af móður sinni en fyrirmyndin af því nafni er fengin úr bókinni Láki jarðálfur sem margir af kynslóð Sverris þekkja, sá Láki missti reyndar hala sinn og horn í lok bókarinnar og varð virtur þjóðfélagsþegn. Sem dæmi um uppátæki Sverris þá mun hann á einhverjum tímapunkti hafa safnað saman öllum hvítum Adidas Universal skóm í Hagaskóla í eina hrúgu en slíkir skór voru einmitt staðal fótabúnaður unglinga seint á áttunda áratugnum og langan tíma tók að finna út (ef þá nokkurn tímann) hver ætti hvaða skó enda voru skór yfirleitt ómerktir ólíkt Nokia stígvélunum sem einnig nutu ómældra vinsælda um líkt leyti.

Tónlistin tók snemma yfirhöndina og var Sverrir líklega um sjö ára þegar hann hóf að semja tónlist og síðan ljóð litlu síðar, sköpunin náði hámarki á unglingsárunum en þá samdi hann hundruð laga að sögn. Þá var tónlistin honum greinilega í blóð borin því hann náði ungur góðum tökum á píanóinu og reyndar hefur hann leikið á flest hljóðfæri á plötum sínum þó menn séu nokkuð sammála um að hann sé fyrst og fremst hljómborðs- og píanóleikari.

Sverrir hafði ekki náð tvítugs aldri þegar ljóð eftir hann fóru að birtast í Lesbók Morgunblaðsins og árið 1982 kom út fyrsta ljóðabók hans sem hlaut ágæta dóma en ekki mikla athygli í byrjun að minnsta kosti. Öllu meiri athygli fékk „Bókin“ svokallaða sem kom út litlu síðar en hún var gefin út í einungis sjö eintökum og skartaði útskorinni bókarkápu, hún hafði að geyma 70 blaðsíður og kostaði sjö þúsund krónur sem var allmikil upphæð – ekki síst fyrir það að kaupandinn vissi ekki fyrirfram um hvað hún fjallaði enda var hún innsigluð og ekki hægt að opna hana. Eintökin sjö seldust upp og fór ein bókin m.a. á safn í Vancouver í Kanada, annað eintak keypti Ólafur faðir Sverris og segir sagan að hann hafi ekki verið ánægður þegar hann opnaði bókina sem einungis hafði að geyma setninguna „Þú keyptir Bókina hvort eð er ekki til að lesa“. „Útgáfa“ þessi flokkast klárlega undir gjörning og prakkaraskap Stormskersins sem síðan urðu aðal einkenni hans auk útúrsnúninga og orðaleikja sem oftar en ekki voru kynferðislegs eðlis.

Sverrir og Bókin

Sverrir flosnaði upp úr menntaskólanámi og hóf að leika dinnertónlist á veitingastöðum og pöbbum en hélst illa í vinnu á þeim stöðum, og reyndar öllum öðrum vinnustöðum eins og hann sagði margoft í blaðaviðtölum enda talaði hann iðulega um sjálfan sig sem slæpingja og iðjuleysingja. Hann lék um skamma hríð með hljómsveit sem fyrst var auglýst undir nafninu Stormsker en hlaut síðan nafnið Amen, og enn síðar Illmenni, sveitin lék að mestu tónlist eftir hann og um haustið 1983 stóð til að hún færi í hljóðver en líkast til varð ekkert úr þeim áformum. Sverrir fór í staðinn að koma meira fram sjálfur, t.d. á Vísnakvöldi Vísnavina og hóf svo að vinna að plötu ásamt vini sínum Þórði Magnússyni sem um það leyti sá um útvarpsþáttinn Lög unga fólksins sem á þessum tíma var aðal tónlistarþáttur ungs fólks á Íslandi (áður en Rás 2 tók til starfa). Þeir Þórður unnu því að plötunni upphaflega sem samstarfsverkefni en þegar Þórður veiktist af krabbameini varð hún smám saman að sólóplötu Sverris. Forsmekkurinn af plötunni birtist svo á safnplötunni SATT 1 síðsumars 1984 en þar var lagið Ég um þig frá okkur til beggja, sem fékk ágæta dóma gagnrýnenda. Samt sem áður gekk illa að fá útgefanda að plötunni, svör þeirra voru venjulega á þá lund að þessi tónlist ætti ekkert erindi á plötu og líklega voru það ekki innantóm orð því þegar platan kom út vorið 1985 undir titlinum Hitt er annað mál reyndust mörg laganna innihalda nokkuð svæsna neðanbeltistexta og féllu því eðlilega ekki alveg í jarðveg útgefenda enda gaf Sverrir plötuna út sjálfur. Svo til sama dag og platan kom út lést Þórður eftir veikindin og átti það sjálfsagt sinn þátt í að plötunni var ekki fylgt eftir að neinu ráði.

Hitt er annað mál fékk alls ekki slæmar viðtökur gagnrýnenda, platan fékk t.a.m. þokkalega dóma í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum, DV og Helgarpóstinum, síðri þó í unglingablaðinu Smelli en Sverrir þótti lunkinn laga- og textasmiður sem þyrfti að komast upp úr neðanbeltiskveðskapnum en menn voru sammála um að hann skorti aga, lögin væru of mörg og hefði mátt grisja úr þeim og vinna betur – og slík gagnrýni átti eftir að loða nokkuð við plötur Sverris, hann færðist of mikið í fang sjálfur, spilaði alltof mikið sjálfur og söng sjálfur, og strangt til tekið mætti í rauninni kalla hann fyrsta „Hamfarapopparann“ eins og það var síðar kallað. Sverri hannaði jafnvel umslag plötunnar sjálfur, sem vel að merkja þótti dónalegt en stafirnir í plötutitlinum (teiknaðir af Sverri sjálfum) voru undirlagðir af brjóstum og typpum. Tiltækið þótti í senn fyndið og hneykslandi en fór því miður nokkuð fyrir ofan garð og neðan enda hlaut platan líklega fremur litla dreifingu enda hafði Stormskerið enga reynslu í því enda aðeins 22 ára gamall – líklega þá yngstur allra á Íslandi til að senda frá sér sólóplötu eingöngu með frumsömdu efni, þannig höfðu aðeins um hundrað eintök selst af plötunni síðsumars af þeim fimm hundruð sem voru gefin út. Eins og gefur að skilja fékk platan ekki mikla útvarpsspilun en lög eins og Sjálfs er höndin hollust og Dánarfregnir og jarðarfarir heyrðust nokkuð í partíum. Hins vegar uppgötvuðu blaðamenn að Sverri fylgdi tvíræðin orðheppni og skáldmælgi í viðtölum sem oftar en ekki rötuðu í fyrirtaks fyrirsagnir, hann varð því nokkuð vinsæll blaðamatur.

Sverrir kom eitthvað fram til að fylgja plötunni eftir en var mestmegnis að spila dinnertónlist á Aski, Fógetanum og slíkum stöðum. Platan var honum þó hvatning til að byrja strax á næstu plötu um sumarið 1985 og þó svo að Sverrir hafi yfirleitt ekki hlustað á gagnrýni á þessum tíma (eða almennt í gegnum tíðina) þá fór hann að ráðum þeirra sem höfðu ráðlagt honum að láta aðra um sönginn – sem hann gerði að nokkru leyti. Þannig mættu í hljóðver söngvarar eins og Eiríkur Hauksson, Richard Scobie, Eyjólfur Kristjánsson, Janis Carol og síðast en ekki síst sjálfur Bubbi Morthens sem söng viðlagið í laginu Þórður sem Sverrir samdi í minningu vinar síns og tileinkaði svo reyndar plötuna minningu hans. Þá fékk hann einnig nokkra valinkunna hljóðfæraleikara með sér en sá að langmestu leyti sjálfur um hljóðfæraleik sem fyrr.

Sverrir Stormsker 1984

Sverrir var augljóslega ekki mjög skipulagður í vinnu sinni fyrir plötuna, ýmist reiknaði hann með að út kæmi tveggja laga plata eða þá að platan yrði tvöföld en af hvorugu varð og hún kom svo út haustið 1986 undir nafninu Lífsleiðin(n) og sló má segja nokkuð í gegn eða öllu heldur áðurnefnt Þórður þar sem Bubbi léði rödd. Lagið varð feikilega vinsælt um jólin 1986, komst á topp Vinsældarlista Rásar 2 og nú vissu allir hver Sverrir Stormsker var enda seldist platan ágætlega. Sverrir hafði aukinheldur nokkuð dempað neðanbeltishúmorinn enda var tónlistin fremur í rólegri kantinum og slíkir textar ekki endilega við hæfi í henni, auk þess sem platan væri helguð minningu Þórðar var Sverrir nýhættur með kærustu sinni og var því ekkert endilega til í mikið stuð. Á plötunni var einnig að finna lagið Tíbrá í fókus (sem Possibillies hafði samið annað lag við textann og gefið út á safnplötu ári fyrr) sungið af Sverri og Janis Carol og svo lögin Ástarviðurkenning, Ah-bú og Andskodans sem öll nutu töluverðra vinsælda. Þess má geta að plötuumslagið var teiknað af ungum myndlistamanni, Hallgrími Helgasyni sem síðar varð einnig þekktur rithöfundur.

Lífsleiðin(n) hlaut aukinheldur góða dóma í Þjóðviljanum, Morgunblaðinu og tímaritinu Samúel, og voru gagnrýnendur á einu máli um að Sverrir hefði tekið miklum framförum frá fyrstu plötu sinni þó svo að hann væri enn nokkuð fljótfær. Lögin á plötunni voru flest öll gömul eða frá unglingsárum Sverris, textarnir voru þó öllu nýrri enda viðurkenndi hann að hann þyrfti að hafa miklu meira fyrir því að semja textana heldur en lögin og að þeir væru stundum lengi í vinnslu, sem kom nokkuð á óvart þar sem textagerðin virtist leika nokkuð auðveldlega í höndum hans.

Sverrir fylgdi plötunni nokkuð eftir með tónleikahaldi og um það leyti sem platan kom út hafði hann verið í sjónvarpsþættinum Rokkarnir geta ekki þagnað, eftir áramótin hélt hann sínu striki og gerðist nú afkastamikill atvinnutónlistarmaður um nokkurt skeið enda þurfti hann að vinna sig niður úr lagabunkanum sem hafði orðið til í gegnum árin – rétt er þó að nefna að Sverrir var þarna ekki nema 23 ára gamall. Sverrir varð vinsæll meðal menntaskólanema og kom töluvert fram á skemmtunum tengdum þeim sem og í félagsmiðstöðvum unglinga.

Og Sverrir vann hratt (og að margra mati hroðvirknislega) næstu mánuðina því ný plata (sú þriðja) leit dagsins ljós strax á vormánuðum 1987 eða sléttu ári eftir að fyrsta plata hans kom út, um það leyti hafði hann einmitt komið fram í nokkur skipti með hljómsveit sem bar nafnið Sniglabandið og skartaði ungum og efnilegum söngvara, Stefáni Hilmarssyni en sveitin kom fram undir nafninu Stormsveitin þegar Sverrir performaði með henni. Kynni tókust með Sverri og Stefáni og sá síðarnefndi söng einmitt á nýju plötunni sem hlaut titilinn Ör-lög en þar var einnig að finna Eyjólf Kristjánsson söngvara Bítlavinafélagsins, Eirík Hauksson og Hauk bróður hans auk þriggja söngkvenna, Hendrikku Waage, Öldu Björk Ólafsdóttur og Guðrúnu Gunnarsdóttur sem voru í mis stórum hlutverkum á plötunni. Fyrst laga á plötunni til að ná vinsældum var lagið Stormsker en síðan komu risasmellirnir Við erum við (með Stefáni og Hendrikku) og Búum til betri börn sem var eins konar hópsöngslag í anda styrktarsmellsins „Hjálpum þeim“ sem hafði tröllriðið öllu fyrir jólin 1985. Nokkur fleiri lög fengu töluverða útvarpsspilun og urðu vinsæl s.s. Skál!, María og Anna, Mey/dómsdagar og síðast en ekki síst Tyrkja-Gudda sem reyndar var groddaleg klámvísa a la Sverrir Stormsker sem hljómaði líklega öllu oftar í partíum en úr útvarpsviðtækjunum. Þrátt fyrir vinsældirnar birtist ekki nema einn plötudómur um Ör-lög en hann var í DV og var fremur neikvæður.

Sverrir í predikunarstól sr. Friðriks

Það var mikið um að vera um sumarið hjá Sverri, hann kom víða fram og tróð m.a. upp á Skeljavíkurhátíðinni við Hólmavík um verslunarmannahelgina, síðsumars fór Stormskerið svo enn og aftur í hljóðver og hljóðritaði hvorki meira né minna en tuttugu og sex lög sem komu svo út á tvöfalda albúminu Stormskers guðspjöll um haustið – og þar með höfðu komið út samtals 69 lög á einu og hálfu ári. Nýstofnað útgáfufyrirtæki Tóný ætlaði að gefa plötuna út eins og þá síðustu á undan eftir að Stormskerið hafði sjálfur gefið út fyrstu tvær plöturnar en Steinar tóku við verkefninu og gaf út albúmið. Guðspjöllin reyndust full stór biti og seldist ekki nógu vel, hún innihélt ekki nema einn hittara ef svo mætti segja, slagarann Horfðu á björtu hliðarnar sem sungið var af Sverri og Stefáni Hilmars og líklega voru stóru mistök Sverris að syngja allt annað sjálfur á plötunni, þannig kom enn upp umræðan um hroðvirkni í vinnubrögðum sem skilaði sér í neikvæðri plötugagnrýni poppskríbenta, slaka í DV og litlu skárri í Þjóðviljanum. Þá fór umfjöllunarefni plötunnar nokkuð fyrir brjóstið á fólki en eins og titill hennar gefur til kynna var þar komið inn á trúmál í bland við neðanbeltishúmor og groddalegan húmor um sjálfsmorð, samkynhneigð o.fl. Þá bætti ekki úr skák að á umslagi plötunnar var teiknuð mynd Gunnars Karlssonar af Stormskerinu þar sem hann var að skjóta Jesú út í hafsauga með teygju sem strekkt var á milli turnanna á Háteigskirkju, letrið á umslaginu var aukinheldur gotneskt í anda þriðja ríkisins og S-ið sótt beint til leturgerðar nasismans. Platan hafði m.a. verið hljóðrituð í stúdíó Gný sem var í eigu Eyþórs Arnalds o.fl. og var í leiguhúsnæði hjá KFUM og K við Holtaveg, á einhverju flandri Sverris um húsnæðið hafði hann rekist á predikunarstól sr. Friðriks Friðrikssonar stofnanda samtakanna og gat þá ekki stillt sig um að láta mynda sig við stólinn (þær myndir birtust í opnu plötuumslagsins og í textablaði) þar sem hann var í ræðustellingum og augljóslega var þar vísað til Adolfs Hitler. Þeir KFUM menn komust á snoðir um þetta tiltæki og birtust í hljóðverinu þar sem hljómsveitin Flames of hell var við upptökur en eins og nafn sveitarinnar gefur til kynna var þar ekki um að ræða kristilegt popp – í kjölfarið var Gný sagt um leiguhúsnæðinu.

Og hafi tvöfalda albúmið ekki verið nóg þá kom út á sama tíma um haustið enn eitt lagið eftir Stormskerið, það var jólalagið Söngur veiðimannsins sungið af Sverri og Stefáni og var á jólasafnplötunni Jólastund en á sömu plötu var einnig að finna Jólahjól með Stefáni og Sniglabandinu sem óneitanlega stal senunni þau jólin. Söngur veiðimannsins var nokkuð spilað um jólin en hvarf síðan úr útvarpsspilun og hefur varla heyrst síðan – Sverrir sagði síðar að lagið hefði verið bannað vegna guðlasts, í textanum var sjálfur Jesús kristur sögumaðurinn og fór það fyrir brjóstið á sumum þegar hann m.a. segir: Ég er sonur Mæju mey / mig hún ól í denn. / Ég fæddist til að veina „vei“ / og veiða alla menn. Síðar í laginu er Bítlatenging þar sem sungið er We love you Je Je-sú.

Árið 1988 átti ekki eftir að verða minna en 1987 og fljótlega eftir áramótin var gert heyrinkunnt að Stefán myndi syngja lag Sverris – Þú og þeir (sem gekk fyrst undir nafninu Ég og þeir) í undankeppni Eurovision keppninnar en Sverrir hafði sent lögin Þórður og Við erum við í fyrstu undankeppnina (1986) án þess þó að komast í úrslitakeppnina. Þú og þeir vann undankeppnina með miklum yfirburðum og hlaut lagið í kjölfarið yfirhalningu á ensku og hét eftir það Sókrates / Socrates, þeir félagar fóru í kjölfarið til Dublinar um vorið og kepptu þar undir nafninu Beathoven þar sem lagið hafnaði í hina alræmda 16. sæti en það var þá í þriðja sinn (og síðasta sinn) sem það sæti varð hlutskipti Íslendinga í keppninni, e.t.v. hafði það sitt að segja að ekki var gefin út smáskífa með laginu og hlaut hún því ekki dreifingu til jafns við önnur lög keppninnar.

Sverrir Stormsker og Stefán Hilmarsson

Íslenska þjóðin hafði eðlilega nokkrar áhyggjur af því að Stormskerið myndi skandalísera í keppninni enda var hann með eindæmum yfirlýsingaglaður sem fyrr en allt slapp það fyrir horn og Sverrir varð til friðs, hann hafði hótað að hengja sig í hæsta gálga ef lagið lenti ekki á topp tíu í úrslitakeppninni en dró eðlilega í land að keppni lokinni – þá lýsti hann því hins vegar yfir að hann myndi hengja sig ef Ísland næði topp tíu sæti næsta áratuginn enda hefði hann komist að því að Ísland væri enn ekki orðin „viðurkennd Eurovision þjóð“, tveimur árum síðar hafnaði Eitt lag enn í fjórða sæti keppninnar.

Þó Sverrir hefði ekki orðið sér til skammar á Írlandi viðurkenndi hann sjálfur síðar að ekki hafi mátt miklu muna að hann mætti of seint á svið í keppninni því hann mætti allt of seint í útsendinguna ásamt Hrafni Gunnlaugssyni dagskrárstjóra Ríkissjónvarpsins en þeir höfðu þá verið á pöbbarölti um Dublin og voru orðnir nokkuð vel í glasi þegar þeir mættu á svæðið.

Eftir Eurovision skildu leiðir með þeim Sverri og Stefáni, sá síðarnefndi var orðinn vel kynntur söngvari, hafði einnig sungið lagið Látum söngin hljóma (e. Geirmund Valtýsson) í undankeppninni og hóf að syngja um vorið með Sálinni hans Jóns míns en þá sögu þekkja allir, ekki hefur alltaf verið kært á með þeim Sverri og Stefáni en það hefur nokkuð loðað við Sverri að samstarf hans við annað tónlistafólk endi með einhvers konar kergju eða árekstrum, þannig endaði einnig samstarf hans við Eyjólf Kristjánsson sem hafði sungið á plötum Sverris og einnig fengið textann að laginu Gott á plötu sína en það naut töluverðra vinsælda þá um haustið.

Sverrir hélt sínu striki og spilaði töluvert um sumarið 1988, hann var nokkuð á ferð með frænda sínum Rúnari Þór Péturssyni og hljómsveit hans, þá gerði hann áðurnefndan texta fyrir Eyjólf Kristjánsson, annan fyrir Rúnar Þór og svo einnig textann Það stendur ekki á mér sem kornungur söngvari, Bjarni Ara söng við miklar vinsældir um sumarið – sá texti er reyndar fullur af kynferðislegum skírskotunum sem Bjarni (og reyndar miklu fleiri) áttuðu sig líklega engan veginn á – þar segir t.a.m. „láta minn vin / þér falla í skaut / sem rímar við höll“. Hann hóf einnig vinnslu við næstu plötu, vann hratt eins og áður og um haustið kom sú skífa út en hún var sú fimmta í röðinni og hét Nú er ég klæddur og kominn á rokk og ról. Hér kvað við nokkuð nýjan tón en Sverrir skilgreindi plötuna sem barnaplötu, ekki voru allir sammála þeirri nálgun en sumir textarnir þóttu grófir af barnaefni að vera þótt ekki væru þeir neðan beltis að þessu sinni. Vinsælustu lög hennar voru Útó-pía sem þeir Sverrir og Þórhallur „Laddi“ Sigurðsson sungu saman, Fullorðinn og orðinn fullur (sungið af Sverri og hinni 11 ára gömlu Rakel Axelsdóttur) og Bless (sem Alda Björk Ólafsdóttir söng með honum en þetta var frumraun hennar á plötu). Á plötunni var einnig að finna „jólalagið“ Söng veiðimannsins (frá því jólin á undan) sem og ensku útgáfuna af Sókrates, það sama lag hafði einnig komið út á cd-útgáfu plötu Sálarinnar hans Jóns míns um sumarið í live-útgáfu. Platan hlaut ágæta dóma í Þjóðviljanum og þokkalega í Morgunblaðinu og DV en gagnrýnendur voru ekkert endilega á því að þetta væri barnaplata. Þess má geta að eitt laga plötunnar, Eigingjörn umhyggja var eftir Guðrúnu Elínu Ólafsdóttur systur Sverris.

Reyndar kom út enn önnur plata með Sverri um svipað leyti haustið 1988 en hún var allt annars eðlis og hafði að geyma instrumental tónlist, eins konar nýklassík með píanógrunni og hljóðgervlastrengjum. Þrátt fyrir að þarna væri á ferð „alvarlegri“ tónlist sem reyndar féll ágætlega í kramið hjá gagnrýnanda DV gat Sverrir ekki stillt sig um að grínast með lagatitla og plötuumslag en platan bar titilinn Nótnaborðhald og innihélt lög á borð við Magra veröld, Afi Maríu, Adolf og Hitler. Plötuna tileinkaði hann móður sinni, Vilhelmínu Norðfjörð Baldvinsdóttur.

1989 gekk í garð og nýtt fyrirkomulag undankeppni Eurovision var kynnt, keppnin var nú með þeim hætti að sex lagahöfundar voru fengnir til að semja lög fyrir keppnina (fimm eftir að Bubbi Morthens dró sig út úr hópnum) og var Sverrir meðal þeirra, lag hans Þú leiddir mig í ljós – sungið af Jóhönnu Linnet náði þó ekki að fagna sigri að þessu sinni.

Sverrir Stormsker

Sverrir var samur við sig, kokhraustur að vanda og duglegur að hneyksla fólk, þannig varð hann að mati blaðamanns Morgunblaðsins sér til skammar þegar hann var að skemmta hestafólki og í kjölfarið hættu einhverjir við að fá hann til að skemmta. Um sumarið 1989 var hann minna á ferðinni en áður, stofnaði hljómsveit undir nafninu Stormsveitin um haustið en hún varð skammlíf. Hann var þó áfram afkastamikill og eins og árin á undan kom plata út um haustið, hún bar nafnið Hinn nýi íslenski þjóðsöngur og hafði að geyma níu lög, m.a. áðurnefnt Eurovision framlag Sverris. Og líkt og áður var hann duglegur að fá til liðs við sig söngvara í hærri tónana, Alda Björk og Richard Scobie voru meðal þeirra sem áður höfðu starfað með honum en þar var einnig söngvari Gildrunnar Birgir Haraldsson, vinsælasta lag plötunnar var hins vegar Allstaðar er fólk sem þeir Sverrir og Richard Scobie sungu. Segja má að vinsældir Stormskersins hafi þarna verið farnar nokkuð að dvína og e.t.v. var neðanbeltisárátta hans farin að þykja þreytandi, allavega skiptust menn nokkuð í tvennt hvað það varðar. Platan hlaut þokkalega dóma en Sverrir þótti enn vera agalaus og vinnubrögð hans flaustursleg þegar kom að hljóðversvinnu.

Lítið fór fyrir Sverri framan af árinu 1990, hann hafði sent inn lag í undankeppni Eurovision en það komst ekki inn í keppnina, í blaðaviðtali sagðist hann m.a. vera að vinna að kvikmyndahandriti og söngleik en hann var þá einnig á kafi í hljóðversvinnu. Hann kom lítið fram um vorið og sumarið en sendi þó frá sér lag sem kom út á safnplötunni Hitt og þetta: aðallega hitt alla leið en þar var á ferð bragurinn Ávallt viðbúnir þar sem skátarnir fengu að kenna á því. Það lag var einmitt að finna á næstu plötu Sverris, Glens er ekkert grín sem kom út um haustið í nafni útgáfufyrirtækis í eigu hans sjálfs (Hljómplötugróðafyrirtækisfabrikka S.S.) en plöturnar tvær á undan höfðu komið út á vegum Stöðvarinnar. Glens er ekkert grín var hans áttunda plata á aðeins fimm og hálfu ári en nú bar svo til að gagnrýnendum Morgunblaðsins og DV þótti betur vandað til útgáfunnar en áður og hlaut platan almennt góða dóma. Vinsælasta lag plötunnar varð Hildur, lag sem bar nafn dóttur Sverris en hann var þarna nýbakaður faðir en lagið söng Eyjólfur Kristjánsson. Hér má einnig nefna Göfuguggann sem Bubbi söng með honum sem og lagið Paradís sem ekki er að heyra annað en að eigi að vera létt skot á Stefán Hilmarsson og Sálina sem þarna var orðin vinsælasta hljómsveit landsins, gítarriffið í laginu (leikið af Guðmundi Jónssyni gítarleikara Sálarinnar) og hljómborðsleikur eiga sér augljósa vísun í lagið Hvar er draumurinn? og þar er einnig talað um að strá salti í sárin (lagatitill af sömu plötu) og um að „hlúa að sjúku sálunum“. Þá var mönnum tíðrætt um rasisma sem var að finna í laginu Negrablús, sú umræða varð þó aldrei djúp og gleymdist fljótlega enda þótti plata sem fyrr segir nokkuð vel unnin og aftur átti Guðrún Elín systir Sverris lag á plötunni.

Sverrir fylgdi plötunni ekki mikið eftir og kom reyndar lítið fram næstu mánuðina á eftir, hann sendi frá sér lagið Pía-nó á safnplötunni Úr ýmsum áttum um sumarið 1991 og kom um það leyti eitthvað fram ásamt Elías Bjarnhéðinssyni (El Puerco) frá Vestmannaeyjum og hljómsveit hans Ennisrökuðum skötuselum, og tróð upp m.a. fram á Þjóðhátíð í Eyjum. Hann fór jafnframt að hasla sér völl í öðrum listgreinum, gaf út ljóðabók um haustið, vann að málsháttabók og var að mála en hann átti síðar eftir að halda myndlistasýningu ásamt systkinum sínum, þá vann hann að teiknimyndasögu um Jesúm sem áætlað var að kæmi út ári síðar en af þeirri útgáfu varð aldrei – kannski til allrar hamingju.

Þarna var samfelldri og örri útgáfu Sverris Stormskers lokið en haustið 1991 kom út safnplata á vegum Skífunnar sem segja mætti að rammi inn þetta tímaskeið, platan bar titil í anda Sverris – Greitest (s)hits og hlaut hún ágæta dóma í DV og Tímanum. Um sama leyti komu Nótnaborðhald og Nú er ég kominn á rokk og ról út á geislaplötum en þær höfðu áður aðeins komið út á vínyl.

Sverrir ásamt Bjarna Ara og Geira Sæm

Árið 1992 heyrðist lítið til Sverris, reyndar kom út lag á safnplötunni Sólargeislar þar sem Laddi söng með honum lagið um Hemma og Klemma, og einnig var hann að semja einhverja texta s.s. fyrir Rúnar Þór og Inga Gunnar Jóhannsson en að öðru leyti hafði hann sig lítið í frammi. Það var svo vorið 1993 sem þeir Sverrir og söngvarinn Bjarni Ara, sem þá var orðinn liðlega tvítugur birtust og tróðu upp á höfuðborgarsvæðinu og fljótlega gáfu þeir félagar út plötu sem þeir höfðu unnið saman í nokkurs konar kyrrþey. Platan bar nafnið Ör-ævi og hafði að geyma laga- og textasmíðar (íslenskar og enskar) Sverris en tónlistin bar keim af tónlist eftirstríðsáranna og fengu þeir ýmsa valinkunna tónlistarmenn til liðs við sig. Platan fékk ágæta dóma í DV og Morgunblaðinu en fremur slaka í Pressunni, þeir Sverrir og Bjarni komu eitthvað áfram fram til að fylgja plötunni eftir. Þar fyrir utan sendi Stormskerið frá sér lögin Vömbin þagnar (ásamt Öldu Björk) og Remban (ásamt Ladda) sem komu út á safnplötunni Lagasafnið 4.

Nú fór í hönd tímabil hjá Sverri Stormsker sem gekk mestmegnis út á að hneyksla með argasta klámi og gríni sem gekk út á að ganga fram af fólki. Í kjölfarið má segja að orðspor hans hafi farið ört hrapandi og hafði þó verið brothætt á köflum, svo hlutirnir séu orðaðir tiltölulega hlutlaust – hann hafði og hefur þó alltaf haft aðdáendahóp sem kaupir plöturnar og því verður ekki neitað að hann getur komið skemmtilega fyrir sig orði.

Lítið hafði spurst til Stormskersins frá árinu 1993 en sumarið 1995 poppaði hann nokkuð óvænt í útvarpsþætti á Rás 2 þar sem hann birtist með nýtt lag – Saddam átti syni sjö (sem var klámfenginn útútsnúningur á þekktu jólalagi), sem þáttastjórnandinn spilaði grunlaus um innihaldið. Sá var tekinn á teppið hjá útvarpsstjóra og í kjölfarið var lagið bannað á nokkrum útvarpsstöðvum. Saddam og synirnir voru þó bara forsmekkurinn að næstu plötu sem kom út um svipað leyti og þar hafði hann tekið upp nafnið Serðir Monster og platan bar heitið Tekið stórt upp í sig: Part 1, sem gaf óneitanlega til kynna að meira væri væntanlegt af því sama. Eins og vænta mátti fékk platan litla athygli, var að mestu hunsuð af gagnrýnendum en fékk slaka dóma í Helgarpóstinum, það sem vakti e.t.v. mestu athyglina var sá fjöldi söngvara og tónlistarmanna sem Sverrir hafði fengið til liðs við sig á plötunni, þarna voru t.a.m. Jóhann Helgason, Laddi, KK, Magnús Þór Sigmundsson, Páll Óskar, Megas, Rúnar Júl. og fleiri. Sverrir vissi sem var að efnið væri vægast sagt á gráu svæði og lét fylgja með „viðvörun“ á plötuumslaginu (sem vel að merkja var líka á sama gráa svæðinu), ekki er þó hægt að segja að hugur hafi beinlínis fylgt þeirri rauðu viðvörun en þar stóð „Að horfa á diska er ekki góð skemmtun. Hlustið á þá. Þessi diskur er bannaður smábörnum yngri en 16 ára. Foreldrar og forráðamenn garna og punglinga eru vinsamlegast beðnir að virða aldurstakmarkið – að vettugi. Góða skemmtun. Kvikindaeftirlit ríðingsins.”

Sverrir Stormsker

Önnur slík „klámplata“ (eins og hann orðaði það sjálfur) kom út fyrir jólin 1996 undir titlinum Tekið stærra upp í sig, og nú var svo komið að flestir höfðu fengið nóg, margar plötubúðir neituðu að selja plöturnar og á þeim stöðum sem gripurinn var í sölu var umslagið hulið með „nærbuxum“, þá þögguðu fjölmiðlar plötuna nánast alveg niður svo enga umfjöllun var að finna um hana. Stóð mér úti í pungsljósi, Snæfinnur hórkarl, og Ó skuð vors lands eru dæmi um lagatitla á plötunni, og textarnir voru í sama anda. Því verður heldur ekki neitað að stóru nöfnunum í söngvarahópnum hafði fækkað verulega á þessari nýjustu afurð en þarna voru þó Alda Björk, Hólmfríður Rafnsdóttir, Rafn Erlendsson (sem áður hafði sungið á plötum Sverris) og Rúnar Örn Friðriksson (oft kenndur við Sixties). Gefið var í skyn að plöturnar yrðu þrjár í þessum „klámflokki“ Serðis Monsters.

Sverrir hafði með þessum tveimur plötum komið sér heldur betur út úr húsi í tónlistinni og hann lét fara lítið sér á þeim vettvangi um tíma, fleiri ljóðabækur litu dagsins ljós og hann hóf að rita Kjallaragreinar í DV sem þóttu margar hverjar snjallar í þjóðfélagsgagnrýninni en hann hafði lag á að koma hlutunum skemmtilega frá sér. Á næstu árum var hann því lítið viðloðandi tónlist þótt hann kæmi stöku sinnum fram ýmist einn með píanóið eða með öðrum, hann var eitthvað að semja fyrir aðra tónlistarmenn og má nefna þá Rúnar Júlíusson og Geir Ólafsson í því samhengi en virðist hafa gengið illa að koma sjálfum sér á framfæri – hann komst þó tvívegis með lög í úrslitakeppni Sæluvikukeppninnar á Sauðárkróki (1997) og undankeppni Eurovision (2000) þar sem hann hafnaði í þriðja sæti með lagið Sta sta stam. Hann lét sig einnig varða málefni flóttamanna frá Kosovo og skipulagði t.d. styrktartónleika tengt því, og árið 2000 var hann í forsvari fyrir hóp sem skoraði á Ástþór Magnússon í forsetaframboð – ekki tókst þó að ná lágmarks fjölda meðmælenda í það skiptið.

Árið 2001 birtist loks aftur plata með lögum Stormskersins, það var nítján laga safnplatan Best af því besta en hún hafði að geyma úrval laga sem höfðu komið út eftir fyrri safnplötuna (Greitest (s)hits 1991), og þar var einnig Eurovision lagið Sta sta stam auk eins nýs lags, 1000 dollar doll. Ekkert lag af „klámplötunum“ tveimur var að finna á þessari safnplötu.

Segja má að fjölmiðlaferill hafi þarna verið tekinn við af tónlistinni hjá Sverrir. Eftir aldamótin hóf hann að starfa í útvarpi, hann varð jafnframt þekktur bloggari og var um tíma einnig með pistla í morgunþætti Stöðvar 2. Sverrir er þekktur fyrir að fara reglulega allverulega yfir strikið og eftir að hafa reynt að koma Ástþóri Magnússyni í forsetaframboð árið 2000 tókst honum að eyðileggja það samstarf í útvarpsþætti sem hann sá um á útvarpsstöðinni Stereo. Þangað hafði hann fengið marga þjóðþekkta einstaklinga og fengið þá til að tjá sig með hin ótrúlegustu mál þar sem hlustendur supu hveljur hvað eftir annað. Í einum slíkum þætti var eftirherman Jóhannes Kristjánsson gestur Sverris og fékk Sverrir hann til að herma eftir ýmsum persónum og hringdi svo í Ástþór þar sem Jóhannes í gervi Halldórs Ásgrímssonar, Ólafs Ragnars Grímssonar o.fl. (eftir því sem sagan segir) hnakkrifust við Ástþór í beinni útsetningu án þess að hann hefði nokkra hugmynd um að þar væri eftirherma að verki. Vinslit urðu milli þeirra Sverris og Ástþórs um tíma en síðar hélt Sverrir utan um kosningaherferð Ástþórs fyrir forsetakosningarnar 2004.

Sverrir Stormsker

Sumarið 2003 missti Sverrir Stormsker hús sitt í bruna og í kjölfarið kallaði hann til úrval söngvara til að syngja lag til styrktar sjálfum sér, hópurinn kallaðist Sigurmolarnir og lagið sem var gefið út á safnplötunni Svona er sumarið 2004 bar heitið Sigurlagið og naut nokkurra vinsælda, þar voru söngvarar eins og Sigríður Beinteinsdóttir, Gunnar Ólason, Birgitta Haukdal, Ellen Kristjánsdóttir, Ragnar Bjarnason, Egill Ólafsson og margir fleiri. Um það leyti var sýnd heimildarmynd um Sverri í Ríkissjónvarpinu undir nafninu Það er bara einn maður, og hafði hún verið unnin nokkrum árum fyrr. Sverrir var síður en svo ánægður með myndina enda vildi hann meina að viðmælendurnir í myndinni tengdust honum lítið sem ekkert og birtu af honum kolranga mynd.

Sverrir sem hafði ekki verið áberandi í íslensku tónlistarlífi um tíma fór nú að birtast aftur sem slíkur – hann var enn að vinna með söngleik sem hann opinberaði að hefði hlotið nafnið Adolf og Eva en ólíklegt hlýtur að teljast að söngleikur með slíkan titil eigi eftir að vera settur á svið, um þetta leyti átti hann einnig lag í Ljósalagakeppninni í Reykjanesbæ en ekki liggur fyrir hvort það lag kom út á plötu.

Sverrir var mikið í Asíu, einkum í Tælandi á þessum árum og þar hljóðritaði hann plötu sem kom út árið 2006 og var reyndar gert ráð fyrir að hún kæmi út á asískum markaði líka, hvað sem varð úr því. Platan bar titilinn There is only one og var á ensku en Þorsteinn Eggertsson hafði unnið textana með Sverri, söngurinn var í höndum Sverris sjálfs og erlendra söngvara og hlaut platan ágætar viðtökur gagnrýnenda Morgunblaðsins og Fréttablaðsins en plötuna mun hann hafa unnið eftir að hafa lent í ástarsorg.

Eftir að Sverrir var alkominn heim frá Tælandi hóf hann aftur að vinna við útvarp, að þessu sinni var það Útvarp Saga sem þá var tekin til starfa en þar fór Sverrir mikinn – svo mikinn reyndar að Guðni Ágústsson gekk út úr miðju viðtali hjá honum. Hann skrifaði einnig pistla í 24 stundir og eitthvað í DV en var jafnframt með bloggsíðu sem naut mikilla vinsælda.

Svo var komið að því að loka klámplötuþrenningunni – tríólógíunni sem tvær plötur höfðu komið út af en sú þriðja, Tekið stærst upp í sig kom út árið 2009 og var í sama anda og hinar tvær, full af lögum sem voru fjarri því að vera við hæfi barna (og flestra fullorðinna) enda hafði hún að geyma rauðan viðvörunarmiða. Reyndar hafði plötuframleiðandi í Þýskalandi neitað að framleiða afurðina áður en annar framleiðandi fannst, og einnig voru dæmi um að plötubúðir neituðu að selja plötuna þannig að þar var ekkert sem kom á óvart, og í úttekt Fréttablaðsins á bestu og verstu plötuumslögum ársins hafnaði platan í öðru sæti yfir þau verstu. Platan var sögð vera kreppu- og klámplata en þar var þó að finna lagið Fullorðinn og orðinn fullur (af „barnaplötunni“ Nú er ég klæddur og kominn á rokk og ról) og Sigurlagið en lögin tvö voru nokkuð á skjön við annað efni plötunnar. Eins og fyrri Serðis Monsters plöturnar hlaut hún litla athygli fjölmiða og enginn þeirra birti gagnrýni um hana.

Sverrir lagði nafninu Serðir Monster til frambúðar að sögn og árið 2010 kom fjórtánda plata kappans út, á henni lagði fjöldi gestasöngvara honum lið og þar voru á ferð KK og Alda Björk sem höfðu unnið með honum áður en einnig yngri söngvarar á borð við Ingó Veðurguð, Snorra Snorrason og Kalla Bjarna en Stormskerið kom einmitt eitthvað fram með þeim síðast talda um þær mundir. Platan sem bar titilinn Látum verkinn tala var að einhverju leyti skilgreind sem „kreppuplata“ en það var nokkuð vinsælt um þær mundir að loknu bankahruni, hún var hins vegnar nokkuð laus við það sem skilgreint er sem klám og neðanbeltishúmor og fékk því umfjöllun gagnrýnanda Fréttatímans, hlaut þar þokkalega dóma.

Sverrir Stormsker

Eftir útgáfu þessarar plötu má segja að Sverrir Stormsker hafi að mestu hætt að sinna tónlistinni, hann sendi frá sér tvö lög í jólalagakeppni Rásar 2 og var um það leyti að vinna að jólaplötu en hann hefur líklega gefið það verkefni upp á bátinn því ekkert nýtt efni hefur frá honum komið um langa hríð. Árið 2016 kom hins vegar út safnkassinn Sverrir Stormsker – The very best of greatest hits: 110 Icelandic songs, eigulegur sex platna pakki með úrvali laga frá ferli hans í takmörkuðu upplagi. Þarna voru hundrað og tíu lög Stormskersins, öll þau þekktustu í bland við minna þekkt lög og aðeins örfá þeirra úr ranni Serðis Monsters – þar voru einnig nokkur lög sem ekki höfðu komið út á plötum Stormskersins áður. Mörg þessara laga höfðu aldrei komið út á geisladiskaformi, aðeins á vínyl. Stormskerið sagði við þetta tækifæri að líkast til væri þetta það síðasta sem hann myndi senda frá sér sem tónlistarmaður, og þar með væri búið að loka þeim ramma – maður skyldi þó aldrei segja aldrei því Sverrir Stormsker er óútreiknanlegur eins og flestir ættu að hafa gert sér í hugarlund.

Sverrir Stormsker er eins og komið hefur fram margoft hér að framan afar umdeildur og langt því frá að vera allra, flestir eru líklega á því að þar er á ferð mikill hæfileikamaður sem laga- og textahöfundur en hefur fest og staðnað í einhverri neðanbeltiskrísu sem Serðir Monster (sem hann að lokum reyndar lokaði). Kannski hefði ferill hans þróast á annan veg ef hann hefði tileinkað sér agaðri vinnubrögð í hljóðverum og e.t.v. látið aðra um stjórnina þar, miðað við lagasmíðar hans og textagerð þar sem honum tekst hvað best upp gæti hann hugsanlega verið á pari við tónlistarmenn á borð við Magnús Eiríksson, Bubba Morthens, Bjartmar Guðlaugsson og aðra slíka, og hugmyndin um tveggja platna „tribute“ pakka þar sem aðrir tónlistarmenn útsettu og flyttu lög hans gæti lyft ferli hans aftur í hæstu hæðir og jafnvel haldið honum þar. Það er engum vafa undirorpið að ljóða- og textagerð hans er með miklum ágætum og besti mælikvarðinn á það er sjálfsagt öll þau dæmi þar sem ljóð hans hafa birst í minningagreinum, og ferskeytlurnar sem honum eru eignaðar. Það er kannski við hæfi að gera orð dr. Arnars Eggerts Thoroddsen að lokaorðum hér sem hann ritaði á sínum tíma í Morgunblaðinu og segja líklega allt um Stormskerið sem: „[…] hefur á einhvern óskiljanlegan hátt notið gríðarlegrar almannahylli um leið og hann hefur staðið kirfilega utangarðs.“

Efni á plötum