Sýslumennirnir (1999-2006)

Sýslumennirnir

Um nokkurra ára skeið í kringum og upp úr síðustu aldamótum var starfrækt dixielandhljómsveit í Árnessýslu undir nafninu Sýslumennirnir en sveitin starfaði með hléum á árunum 1999 til 2006 (að minnsta kosti).

Það mun hafa verið Skúli Thoroddsen sem hafði frumkvæði að því að stofna hljómsveitina en hann var sópran saxófónleikari hennar, aðrir Sýslumenn voru Jóhann Stefánsson trompetleikari, Hermann Jónsson básúnuleikari, Gestur Áskelsson tenór saxófónleikari, Helgi E. Kristjánsson gítar- og banjóleikari, Hilmar Örn Agnarsson píanóleikari, Smári Kristjánsson bassaleikari og Árni Áskelsson trommuleikari sem kom inn í sveitina árið 2002 en ekki liggur fyrir hver gegndi því hlutverki á undan honum. Allir þessir tónlistarmenn voru kunnir tónlistarmenn og störfuðu flestir sem tónlistarkennarar á Selfossi, uppsveitum og nágrenni. Hugsanlega komu fleiri við sögu sveitarinnar.

Sýslumennirnir störfuðu á árunum 1999 til 2006 og léku víða um Suðurland og á höfuðborgarsvæðinu á þeim tíma.